Hoppa yfir valmynd
19. desember 2014 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um breytingar á bifreiðamálum hreyfihamlaðs fólks

Hjálpartæki
Hjálpartæki

Starfshópur sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði hefur skilað skýrslu með tillögum um margvíslegar breytingar á fyrirkomulagi stuðnings hins opinbera við hreyfihamlaða vegna bifreiðamála. Markmiðið er að auðvelda hreyfihömluðu fólki að komast ferða sinna. Ráðherra kynnti tillögur hópsins á fundi ríkisstjórnar í dag.

Tillögurnar byggjast á því að taka upp stuðningskerfi sem er á ýmsan hátt frábrugðið því bifreiðastyrkjakerfi sem nú er í gildi. Í skýrslu starfshópsins er lögð áhersla á að meginmarkmiðið sé að rjúfa og koma í veg fyrir félagslega einangrun hreyfihamlaðra og auka möguleika þeirra til virkrar þátttöku í þjóðfélaginu. Þá sé það tilgangur greiðslnanna að stuðla að þátttöku hreyfihamlaðra á vinnumarkaði, auka getu þeirra til að stunda nám og reglubundna endurhæfingu.

Hópurinn leggur meðal annars til að styrkir til mikið hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa færist úr lögum um félagslega aðstoð í lög um sjúkratryggingar, ekki síst vegna þess að oft tengjast styrkirnir útvegum hjálpartækja í bifreiðar og eru veittir vegna bifreiða sem oft þarf að breyta eða setja í sérútbúnað. Sjúkratryggingar Íslands myndu samkvæmt þessu annast framkvæmdina.

Fyrstu hækkanir fjárhæða frá árinu 2009

Lagt er til að fjárhæðir uppbóta og styrkja vegna bifreiðakaupa hækki um 50%, til að mynda hækka þannig bifreiðakaupastyrkir til þeirra sem eru mikið hreyfihamlaðir úr 1,2 milljónum króna í 1,8 milljón króna og uppbætur sem nú nema 300.000 krónum hækka í 450.000 krónur. Einnig er lagt til að teknar verði upp eingreiðslur að fjárhæð 300.000 kr. til þeirra sem fá styrk í fyrsta sinn og að bætt verði við hæsta styrk til þeirra sem þurfa dýra bíla vegna sérstaks stýribúnaðar. Aftur á móti er lagt til að tími milli styrkveitinga lengist nokkuð frá því sem nú er. Síðast voru fjárhæðir vegna bifreiðastyrkja hreyfihamlaðra hækkaðar árið 2009 en frá þeim tíma hefur verð á bifreiðum og rekstrarkostnaður þeirra hækkað mikið og því er talin vera brún þörf fyrir hækkun styrkfjárhæða.

Samgöngustyrkir í stað rekstraruppbóta

Lagt er til að uppbótum vegna reksturs bifreiða verði breytt í samgöngustyrki sem greiðist öllum hreyfihömluðum lífeyrisþegum. Þetta jafnar stöðu hreyfihamlaðra, því í gildandi fyrirkomulagi geta aðeins þeir sem eiga og reka bíl fengið rekstraruppbót en með samgöngustyrkjum er miðað við að styrkja hreyfihamlaða lífeyrisþega og foreldra hreyfihamlaðra barna, óháð bifreiðareign. Lagt er til að styrkurinn verði föst fjárhæð sem samsvarar verði græna kortsins hjá Strætó.

Í skýrslu starfshópsins eru ýmsar tillögur um hámarksaldur bíla og hámarkstíma milli styrkveitinga, lögð er til aukin þátttaka Sjúkratrygginga Íslands við val á bílum til að tryggja að keyptar séu bifreiðar sem henta hjálpartækjum væntanlegs notanda. Þá er lagt til að bílalán til hreyfihamlaðra sem Tryggingastofnun ríkisins hefur veitt verði lögð niður þar sem þetta fyrirkomulag þykir úrelt og þörfin lítil ef tillögur starfshópsins ná fram að ganga.

Áætlað er að ef allar tillögur starfshópsins yrðu samþykktar myndu útgjöld ríkissjóðs vegna þeirra aukast um 210 milljónum króna á ári. Þeir útreikningar miðast við fjölda þeirra sem fengu uppbætur og styrki vegna bifreiða árið 2013 en þar sem styrkþegum fjölgar ár frá ári og má reikna má með að sú þróun haldi áfram, ekki síst í kjölfar breytinganna, er gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði nálægt 300 milljónum króna.

Starfshópur um endurskoðun bifreiðamála hreyfihamlaðra var skipaður í byrjun þessa árs. Í honum áttu sæti fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, Sjálfsbjörgu, Sjúkratryggingum Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira