Hoppa yfir valmynd
30. desember 2014 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Félagsvísarkynntir í ríkisstjórn

Mikilvægar upplýsingar um fjölmörg atriði sem tengjast lífskjörum þjóðarinnar og ólíkum aðstæðum hópa, svo sem eftir fjöskyldugerð, kyni og aldri, eru í nýjum Félagsvísum sem nú hafa verið birtir í þriðja sinn. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti Félagsvísana á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Megintilgangur Félagsvísa er að birta á einum stað safn tölulegra upplýsinga til að auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Upplýsingar eru birtar í tímaröð og áhersla lögð á að greina upplýsingarnar eftir meðal annars aldri, kyni og fjölskyldugerð og sérstaklega er horft til hópa sem standa höllum fæti.

Í nýútkomnum Félagsvísum er að finna kafla um lýðfræði  og virkni, lífskjör og velferð, heilsu og samheldni í samfélaginu. Í kaflanum um lýðfræði og virkni eru vísar um samsetningu þjóðarinnar, menntun og atvinnuþátttöku. Í kaflanum um lífskjör og velferð eru vísar um tekjur, eignir, skuldir og húsnæðisstöðu eftir fjölskyldugerð, kyni og aldri þegar það á við og vísar um velferðarþjónustu. Í kaflanum um heilsu eru meðal annars vísar um ýmsa áhættuþætti heilsu, lyfjanotkun, heilsu barna, heilsugæslu og útgjöld. Í kaflanum um samheldni eru vísar um viðhorf fólks í samfélaginu, til dæmis um traust til stjórnvalda og stofnana, öryggistilfinningu fólks, samveru barna og foreldra og viðhorf barna til aðstæðna fjölskyldunnar, áhættuhegðun og útgjöld, svo eitthvað sé nefnt.

Vaxandi traust í samfélaginu - aukin samvera foreldra og barna

Traust í samfélaginu fer vaxandi. Það sést meðal annars á því að hlutfall þeirra sem bera traust til sveitarstjórna og stjórnmálaflokka eykst (tafla 37).

Börnum fjölgar sem segjast nær alltaf vera í tengslum við foreldra utan skóla bæði virka daga og helgar og börnum 14–15 ára sem stunda íþróttir fjórum sinnum í viku fjölgar milli ára (tafla 38).

Konur eru í meirihluta í háskólanámi og munur milli kynjanna eykst frá ári til árs, þær voru 57% háskólanema árið 2012 samanborið við 53% árið 2005, en kynbundið námsval er að mestu óbreytt þar sem karlar sækja meira í raunvísindi en konur í félagsvísindi og heilbrigðisgreinar (tafla 8).

Hlutfall fólks undir lágtekjumörkum með því lægsta sem þekkist

Þegar rýnt er í tölur ársins 2013 kemur meðal annars fram að 9,3% Íslendinga eru með tekjur undir lágtekjumörkum sem er með því lægsta sem þekkist. Sé staða einstæðra mæðra og einhleypra karla skoðuð, verða þessi hlutföll hins vegar 27% og 23% (tafla 16). Á landinu búa 12,2% allra barna á heimilum undir lágtekjumörkum og 8,3% barna búa við skort á efnislegum gæðum (tafla 18) sem einnig er með því lægsta sem þekkist. Alls telja 26% landsmanna húsnæðiskostnað vera þunga byrði, sama hlutfall hjá einstæðum foreldrum er 43%. Helmingur allra heimila á erfitt með að ná endum saman og á það við um 77% heimila einstæðra foreldra (tafla 20). Þegar staða á húsnæðismarkaði er skoðuð í ljósi kostnaðar, segja 17,9% leigjenda á almennum markaði að húsnæðiskostnaður sé verulega íþyngjandi, samanborið við 6,8% eigenda með fasteignalán, en í þeim hópi nefnir lægst hlutfall húsnæðiskostnað sem verulega íþyngjandi (tafla 21).

Lífeyrisþegar

Þegar ólíkir hópar lífeyrisþega eru bornir saman árið 2013, kemur í ljós að 68,6% kvenkyns ellilífeyrisþega eru með minna en 200.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði, samanborið við tæplega 44% karla. Hjá örorkulífeyrisþegum er sama hlutfall 47% meðal karla og 46,6% meðal kvenna (tafla 19). Hærra hlutfall karla undir 25 ára aldri fær 75% örorkumat en kvenkyns jafnaldrar þeirra en þetta snýst við með hækkandi aldri. Algengasta ástæða greiningar fyrir örorkumati hjá körlum eru geðraskanir, um 42%, en hjá konum eru það stoðkerfissjúkdómar, um 37%. Geðraskanir eru næstalgengasta ástæða örorku hjá konum (tafla 27).

Drengir eru mun líklegri en stúlkur til að vera með umönnunarmat en stúlkur (tafla 28). Drengir eru einnig mun líklegri til að taka  tauga- og geðlyf og lyf vegna ADHD en stúlkur (tafla 32). Stúlkum er hættara við að vera of feitar en strákum (tafla 32). Mjög hefur dregið  úr reykingum, bæði hjá fullorðum (tafla 33) og börnum (tafla 38).

Tannlækningar

Fullorðnu fólki sem sleppir tannlæknisheimsókn vegna kostnaðar fjölgar hlutfallslega milli ára og mikill munur er á fólki í neðsta og efsta tekjubili hvað þetta varðar. Það sama á við um læknis- eða sérfræðingsþjónustu, þótt færri neiti sér um að fara til læknis eða sérfræðings út af kostnaði, en til tannlæknis (tafla 34).

Bætt framsetning Félagsvísa

Framsetning Félagsvísanna nú er með aðeins öðru sniði en í fyrri útgáfum, þar sem flestar töflur voru settar fram myndrænt. Nú hefur tengdum vísum verið raðað saman í töflur, auk þess sem kaflaskiptingin var endurskoðuð. Þessar breytingar einfalda framsetningu gagnanna og veita notendum meiri upplýsingar en áður.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira