Hoppa yfir valmynd
31. desember 2014 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Banaslys í umferðinni ekki svo fá í áratugi

Banaslys í umferðinni hafa ekki verið svo fá á einu ári og nú frá árinu 1966 þegar kerfisbundin skráning hófst. Fjórir hafa látist á árinu í þremur umferðarslysum, tvær konur og tveir karlar. Árið 1968 þegar hægri umferð var tekin upp létust 6 í umferðarslysum, árið 2010 létust 8 og árið 2012 létust 9. Í fyrra létust 15 í 14 slysum. Að meðaltali hafa um 16 manns látist á ári í umferðarslysum síðustu 10 árin.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir fjögur banaslys vera fjórum slysum of mikið. ,,Við viljum ekki banaslys í umferðinni og hljótum alltaf að stefna að því að enginn látist af þeim sökum. Fækkun þessara slysa síðustu árin er vissulega góður áfangi. Ég tel að ástæðurnar geti verið þrjár: Í fyrsta lagi högum við okkur betur í umferðinni og sýnum meiri aga og aðgát, í öðru lagi fara umferðarmannvirkin sífellt batnandi og í þriðja lagi er öryggisbúnaður í bílum meiri og betri. Þessi þróun þarf að halda áfram og með umferðaröryggisáætlun sem endurskoðuð er á hverju ári bind ég vonir við að svo verði.“

Margir orsakaþættir

Ágúst Mogensen er rannsóknarstjóri umferðarslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Hann segir að margir þættir geti skýrt fækkun banaslysa í umferðinni en helstu orsakir þeirra undanfarin ár hafi verið hraðakstur, ölvunarakstur og að bílbelti séu ekki notuð. Þessi atriði séu í höndum ökumanna og farþega og brýnt sé að allir auðsýni aga og reglu varðandi þessi atriði. Þá segir hann vegi hafa batnað og að með auknum aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum og tvöföldun á ákveðnum vegarköflum fækki slysum sem verða í árekstrum þegar bílar mætast. Einnig hafi meðalhraði minnkað og hann bendir sérstaklega á að fækkað hafi slysum þar sem ungir ökumenn eiga hlut að máli. Megi áreiðanlega þakka það betri ökukennslu. Að lokum minnir Ágúst á að umferð hafi farið jafnt og þétt vaxandi á liðnum áratugum og þannig hafi umferðin frá árinu 1966 nálega fjórfaldast til dagsins í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira