Árleg skýrsla um raforkuöryggi á Vestfjörðum
Bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum er forgangsmál og sérstakur starfshópur iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur það hlutverk að meta leiðir til að bæta þar um hefur skilað árlegri skýrslu sinni. Ítarleg umfjöllun er um styrkingu flutnings- og dreifikerfisins á Vestfjörðum ásamt möguleikum á uppbyggingu virkjanakosta í héraði. Fram kemur í skýrslunni að almennt hafi bilunum á línum á Vestfjörðum farið fækkandi síðan 2009.
Á síðustu misserum hefur verið ráðist í ýmsar framkvæmdir til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis raforku á Vestfjörðum.
- Endurbætur voru gerðar á Mjólkár-, Tálknafjarðar-, Bolungarvíkur- og Breiðadalslínum á árinu.
- Ný 10 MW varaaflstöð Landsnets í Bolungarvík var gangsett í nóvember 2014.
- Fyrsti áfangi nýs tengivirkis fyrir Bolungarvík var reistur.
- Nýtt tengivirki á Ísafirði var tekið í notkun í júlí 2014.
- Lagður var 9 km jarðstrengur frá Djúpuvík að Goðdalsá.
- Nýr spennir í Mjólká er áætlaður 2015.
Í skýrslunni kemur fram að minna afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum megi rekja til ótryggrar geislatengingar við flutningskerfið ásamt hærri bilanatíðni og lengri viðgerðartíma loftlína á svæðinu. Síðustu tveir vetur voru óvenju harðir og voru sjö tilvik ofsaveðurs á Vestfjörðum, með tilheyrandi röskun í raforkukerfinu.
Í umfjöllun um framtíðarmöguleika á svæðinu er m.a. fjallað um þá möguleika sem opnast með nýjum Dýrafjarðargöngum en með þeim skapast skilyrði fyrir endurbótum á flutningskerfinu frá Mjólká að Breiðadal í Önundarfirði. Nauðsynlegt er að vinna áfram að nýrri 66 kV hringtengingu fyrir sunnanverða Vestfirði. Endurnýja þarf aðveitustöðina í Breiðadal. Orkukostir sem eru til skoðunar á Vestfjörðum, eru stækkun Mjólkárvirkjunar, 2 MW vindorkuver og varmadælur fyrir kyndistöðvar. Glámuvirkjun í núverandi mynd verður ekki tekin fyrir í rammaáætlun vegna áhrifa á friðun í Vatnsfirði. Því er tillaga starfshópsins að fara í skoðun á minni og öðruvísi virkjanakostum á Glámuhálendinu. Hvalárvirkjun er komin í nýtingarflokk rammaáætlunar og framkvæmdaaðilar eru búnir að semja um vatnsréttindi.
Þrír viðaukar fylgja skýrslunni:
- Minnisblað Veðurvaktarinnar um tíðni óveðurs sem veldur bilunum á Vesturlínum
- Viðhorfskönnun, árleg
- Afrennsliskort frá Veðurstofu Íslands.
Í starfshópnum sitja Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, Ásthildur Sturludóttur, bæjarstjóri Vesturbyggðar, Árni Jón Elíasson, sérfræðingur Landsnets, Guðmundur V. Magnússon, tæknistjóri Arnarlax, Kristín Hálfdánsdóttir, rekstrarstjóri Landflutninga/Samskips, Kristján Haraldsson, orkubússtjóri og Oddný S. Þórðardóttir, oddviti Árneshrepps.
Sambærilegur starfshópur um raforkuöryggi var skipaður fyrir Norðausturland á síðasta ári.