Þrjú samstarfsverkefni innan Íslenska sjávarklasans fá viðurkenningu
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi, afhenti í gær þremur samstarfsverkefnum innan Íslenska sjávarklasans viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu 2014. Verkefnin eru skemmtilega ólík og spanna allt frá þurrkun matvæla til orkusparandi tæknilausna og sölu á matvöru og öðrum kosti til skemmtiferðaskipa.
Verkefnin sem hlutu viðurkenningu eru:
- Flavour of Iceland: Samstarfsverkefni TVG-Zimsen, Ekrunnar og fleiri fyrirtækja um sölu á matvöru og öðrum kosti til skemmtiferðaskipa.
- Green Marine Technology: Samstarfsverkefni Trefja, Navis, Naust Marine, Samey, 3X Technology, Thorice, Promens, Póla toghlera, Marport og D-San. Allt eru þetta íslensk tæknifyrirtæki sem bjóða umhverfisvænar eða orkusparandi lausnir og snýst verkefnið um sameiginlega markaðssókn á erlenda markaði.
- Ocean Exellence: Samstarfsverkefni Mannvits, Sameyjar og Haustaks um þurrkun matvæla á erlendum vettvangi.
Öll verkefnin eiga það sameiginlegt að spretta upp innan íslenska sjávarklasans. Nánar má lesa um verkefnin hér.
Við tilefnið fagnaði Sigurður Ingi þeim árangri sem náðst hefur með samstarfsverkefnum sjávarklasans. Sú nýsköpun sem á sér stað í sjávarútvegi og tengdum greinum hefur skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi með aukinni verðmætasköpun og fjölbreyttari störfum.
Ráðherra hafði sérstaklega orð á því að hann væri stoltur af þeim fyrirtækjum sem þarna væru, en sem fulltrúi í fagráði kvenna í sjávarútvegi hefði hann gjarnan viljað sjá konur í hópnum og vonaðist til að sjá í framtíðinni fleiri konur í forsvari fyrir fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi.