Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna húsnæðismála í rannsóknarhúsinu að Borgum

Vegna fréttaflutnings RÚV um húsnæðismál ríkisstofnana í rannsóknarhúsinu að Borgum á Akureyri bendir fjármála- og efnahagsráðuneytið á eftirfarandi atriði.

Fasteignir ríkissjóðs hafa fyrir hönd ríkissjóðs endurleigt ríkisstofnunum húsnæðið að Borgum. Ríkissjóður gerði árið fyrir rúmum áratug leigu- og þjónustusamning til 25 ára vegna byggingar og reksturs húsnæðisins, en forsendan var að byggja upp þekkingar- og tæknigarð fyrir opinberar stofnanir við Háskólann á Akureyri. Ástæða þess að stofnunum er ekki heimilt að segja upp leigu að Borgum, án þess að kominn sé annar leigjandi í húsnæðið, er að það hefur í för með sér hækkun á heildarútgjöldum ríkisins, enda þarf ríkissjóður eftir sem áður að greiða leigukostnað af húsnæðinu.

Forsaga málsins er að um síðustu aldamót samþykkti þáverandi ríkisstjórn að hafinn yrði undirbúningur við gerð þjónustusamnings um byggingu og rekstur rannsóknarhúss á Akureyri sem lið í að stuðla að uppbyggingu þekkingar- og tæknigarðs við Háskólann á Akureyri.  Bygging og rekstur aðstöðunnar að Borgum var í framhaldinu boðin út sem einkaframkvæmd þar sem verksali tók að sér að annast byggingu og rekstur fasteignarinnar út frá forsendum ríkisins gegn því að ríkið myndi á móti leigja meginhluta hennar undir stofnanir þess. Með þessari framkvæmd varð til sérhæft húsnæði fyrir opinberar rannsóknarstofnanir sem talið var að gætu notið góðs af nálægðinni við háskólann og aukið samstarf sitt á sviði kennslu og rannsókna og styrkt háskólasamfélagið á Akureyri. Húsnæðið er að hluta til hefðbundið skrifstofuhúsnæði en þar er einnig að finna mjög sérhæft rými undir rannsóknarstofur ásamt tilheyrandi búnaði.

Ákveðið var að Fasteignir ríkissjóðs, sem er stofnun á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins,  myndu vera leigutaki f.h. ríkisins gagnvart framkvæmdaraðila, sem endurleigði húsnæðið síðan stofnunum ríkisins. Þetta var gert til að ríkið kæmi fram gagnvart leigusala á samræmdan hátt og til að hafa betri möguleika á tilfærslu húsnæðis milli stofnana ríkisins eftir því sem þörf krefði hverju sinni. 

Leigu- og þjónustusamningurinn sem ríkið gerði við framkvæmdaraðilann á grundvelli útboðsins var til 25 ára. Samningsfjárhæðin skiptist í tvennt þar sem annars vegar er greitt fyrir leigu á húsnæði sem á núverandi verðlagi nemur um kr. 2.850,- ,- pr. m² og hins vegar fyrir þjónustu- og stoðstarfsemi sem nemur um kr. 950,- pr. m² en þar er m.a. greitt fyrir hita, rafmagn, ræstingu, húsvörslu, öryggisgæslu, viðhald, lóðarumhirðu og snjómokstur.

Framleigusamningar Fasteigna ríkissjóðs við stofnanir um einstök rými í rannsóknarhúsinu voru hins vegar flestir bundnir til 10 ára og er sá tími nú liðinn. Þrátt fyrir að nú sé í raun heimilt að segja samningunum upp skv. samningum milli ríkisaðila hefur afstaða ráðuneytisins verið sú að fallast ekki á beiðni stofnana um uppsögn þeirra og leigu á öðru húsnæði utan Borga ef það hefur í för með sér að húsnæði þeirra að Borgum standi í framhaldinu autt og ónotað. Jafnvel þótt slík leiga utan Borga kunni að hafa í för með sér einhverja kostnaðarlækkun fyrir tiltekna ríkisstofnun myndu útgjöld ríkisins samt sem áður aukast í heildina sé horft til þess að ríkissjóður ber eftir sem áður leigukostnað af húsnæðinu á grundvelli hins 25 ára leigusamnings. Meðan aðstæður eru með framangreindum hætti hefur ráðuneytið ekki talið það vera forsvaranlega meðferð á almannafé að samþykkja gerð nýrra húsaleigusamninga um annað húsnæði án þess að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir til að takmarka heildarútgjöld ríkisins. Að mati ráðuneytisins þurfa jafnframt einhver önnur efnisleg rök en tilfærsla á útgjöldum vegna húsnæðiskostnaðar að búa að baki flutningum viðkomandi stofnunar enda hefur ekki verið fallið frá upphaflegri stefnumörkun um uppbyggingu  þekkingar- og tæknigarðs á Akureyri fyrir opinberar stofnanir.

Stofnanir hafa að öllu jöfnu ekki sjálfdæmi um eigin flutning samkvæmt þeim reglum sem gilda um húsnæðismál ríkisstofnana. Slík ákvörðun verður að vera tekin út frá heildarhagsmunum ríkisins og á grundvelli samþykkis hlutaðeigandi fagráðuneytis og  fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fer með eignamál ríkisins og þ.m.t. húsnæðismál ríkisstofnana. 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum