NordBio áætlunin miðar að því að Norðurlöndin verði leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda
Áætlun um Norræna lífhagkerfið (NordBio) var meginverkefni í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Áætlunin nær til þriggja ára (2014-2016) og er unnin í samstarfi fimm norrænna ráðherranefnda. Í síðustu viku kynntu verkefnastjórar þeirra níu verkefna sem fjármögnuð eru af NordBio áætluninni stöðu hvers verkefnis fyrir sig og þann árangur sem þegar er kominn fram.
Þrjú ráðuneyti leiða NordBio áætlunina fyrir Íslands hönd; atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Markmið NordBio áætlunarinnar er að Norðurlöndin verði leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun. Verkefnin eru undir forystu íslenskra stofnana og starfsmanna þeirra - en í nánum tengslum við aðrar sambærilegar stofnanir á Norðurlöndunum.
NordBio leiðir saman breiðan hóp sérfræðinga á Norðurlöndum sem vinna saman að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lífrænna náttúruauðlinda. Ljóst er að þessi vinna hefur þegar náð að skila góðum árangri, t.d. við nýsköpun í matvælaframleiðslu og mynduð hafa verið margs konar samskipta- og tengslanet á milli samstarfsaðilanna sem á eflaust eftir að skila miklum árangri ekki síst fyrir Ísland.
Verkefnin níu eru:
- Biophilia: Að samþætta á nýstárlegan hátt menntun, menningu, vísindi og nýsköpun þar sem sköpun er notuð sem kennslu- og rannsóknaraðferð.
- Ermond: Að draga úr áhrifum af náttúruvá með því að efla seiglu (e. resilience) vistkerfa.
- Marina: Að finna leiðir til orkuskipta og orkusparnaðar á sjó, þannig að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og staðbundinni mengun.
- Nýsköpun í lífhagkerfinu: Að auka verðmætasköpun í lífhagkerfinu og sjálfbærri matvælaframleiðslu.
- Woodbio: Að stuðla að fjölbreyttari nýtingu og virðisaukningu skógarafurða með áherslu á viðarlífmassa.
- Lífauðlindir Norðurlandanna: Sjálfbærniviðmið.
- Svæðisbundnir möguleikar í norræna lífhagkerfinu
- Sjálfbær framleiðsla á próteini
- Nýting á lífrænum úrgangi í nýsköpun
Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu áætlunarinar www.nordbio.org