Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýr áfangi í undirbúningi losunar fjármagnshafta

Nýr áfangi er hafinn í undirbúningi losunar fjármagnshafta, en fyrir liggja tillögur um breytingar á áætlun um losun hafta. Framundan er vinna við að rýna þessar tillögur og koma þeirri stefnu sem mótuð verður í framkvæmd. Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta. Þrír sérfræðingar bætast í hóp sérfræðinga sem starfað hafa með ráðgjöfum stjórnvalda að losun fjármagnshafta í umboði stýrinefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra veitir forystu. 


Eftir þessar breytingar er framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta þannig skipaður:

  • Glenn V. Kim, formaður
  • Benedikt Gíslason, varaformaður
  • Sigurður Hannesson, varaformaður
  • Eiríkur S. Svavarsson, hæstaréttarlögmaður
  • Ingibjörg Guðbjartsdóttir, Seðlabanka Íslands
  • Jón Þ.Sigurgeirsson, Seðlabanka Íslands.

Glenn Victor Kim gegnir áfram formennsku í framkvæmdahópnum, en hann hefur áralanga reynslu af erlendum fjármálamörkuðum og starfaði m.a. áður sem sérstakur ráðgjafi þýska fjármálaráðuneytisins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á evrusvæðinu. Dr. Sigurður Hannesson hefur verið ráðinn til tímabundinna starfa í hópnum. Sigurður er stærðfræðingur og framkvæmdastjóri hjá MP Banka. Hann gegndi formennsku í sérfræðingahópi um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. 

Sigurður er annar tveggja varaformanna hópsins. Hinn er Benedikt Gíslason, ráðgjafi í haftamálum.

Seðlabanki Íslands hefur tilnefnt tvo starfsmenn bankans til að starfa í framkvæmdahópnum: Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans,og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóra alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra.  Á meðan þau starfa í hópnum mun Ingibjörg ekki gegna daglegum störfum við stjórn gjaldeyriseftirlits og Jón Sigurgeirsson hætta sem stjórnarformaður Eignasafns Seðlabanka Íslands. Framkvæmdahópurinn mun líkt og áður vinna með erlendum ráðgjöfum stjórnvalda að losun fjármagnshafta. Markmið stjórnvalda er að losa um fjármagnshöftin eins fljótt og auðið er án þess að tefla efnahagslegum stöðugleika í tvísýnu. Losun fjármagnshafta er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda um þessar mundir.   

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta