Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015

Fjármála- og efnahagsráðherra ávarpaði nýsköpunarráðstefnuna.
Fjármála- og efnahagsráðherra ávarpaði nýsköpunarráðstefnuna.

Geðheilsustöðin í Breiðholti hlaut í dag nýsköpunarverðlaunin 2015 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, sem afhent voru á ráðstefnu á Grand hótel. Verðlaunin voru í dag afhent í fjórða sinn og að þessu sinni voru um 50 verkefni tilnefnd.

Frá upphafi hafa yfir 190 verkefni verið tilnefnd til verðlaunanna.

Verkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem bar sigur úr býtum nefnist „Geðheilsustöðin í Breiðholti“. Með Geðheilsustöðinni er ætlunin að veita fullorðnum einstaklingum sem greinst hafa með geðraskanir heildræna þjónustu og draga með því m.a. úr innlögnum á geðsvið Landspítalans. Innan Geðheilsustöðvarinnar starfar þverfaglegur hópur fagfólks sem vinnur eftir batahugmyndafræðinni þar sem notendum er hjálpað til að byggja upp betri sjálfsmynd og öðlast aukna vitund um eigið vald og val í lífinu. Í batastýrðri þjónustu er gjarnan nýtt persónuleg reynslu þeirra sem hafa náð bata af geðröskunum og hafa fyrrum notendur þjónustunnar orðið liðveitendur. Verkefnið hefur m.a. leitt til þess að  innlögnum frá íbúum í Breiðholti á geðsvið Landspítalans hefur fækkað um 28%  frá því að Geðheilsustöðin tók til starfa. 

Fimm önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun. Það voru Hafnarfjarðarkaupstaður fyrir „Áfram: Ný tækifæri í Hafnarfirði“, Reykjavíkurborg fyrir „Næringarútreiknaðir matseðlar, örútboð og matarsóun“, Langanesbyggð vegna Grunnskólans á Bakkafirði fyrir „Vinnustofur- Fjölbreyttir kennsluhættir og nýsköpun“, Embætti landlæknis og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fyrir „Veru: Öruggur rafrænn aðgangur að mínum heilbrigðisupplýsingum“ og Seltjarnarnesbær fyrir „Ungmennaráð Seltjarnarness“.

Verðlauna- og viðurkenningahafar á nýsköpunarverðlaununum 2015, ásamt Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélagaNýsköpun orðin mun sýnilegri

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti ávarp við opnun ráðstefnunnar. Hann sagði ánægjulegt að sjá hversu gott samstarf hefði verið meðal þeirra sem standa að verðlaununum og vinna síðastliðinna ára hefði skilað sér í því að nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu væri orðin mun sýnilegri hér á landi og erlendis. Bjarni benti á að þegar nýrra lausna væri leitað í ríkisrekstri væri fýsilegt að leggja áherslu á nýsköpun til að sporna við auknum óþarfa útgjöldum.

„Markmið nýsköpunar í ríkisrekstrinum er einmitt meðal annars að draga úr kostnaði atvinnulífsins með markvissari notkun upplýsingatækninnar.  Í því augnamiði stefnum við að því að halda áfram samstarfi við einkaaðila til að stuðla að framþróun og nýsköpun sem gagnist bæði atvinnulífinu og notendum opinberrar þjónustu,“ sagði ráðherra.

Á ráðstefnunni fjallaði Nikolaj Lubanski framkvæmdastjóri hjá Copenhagen Capacity um þróun nýsköpunarmála í opinbera geiranum á Norðurlöndum og aðferðir sem geta hjálpað starfsfólki hins opinbera til að styðja við og keyra nýsköpun áfram.  Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands flutti erindi um hvernig hönnun sem aðferðafræði gæti nýst við hönnun stjórnkerfis og opinberrar þjónustu. Að lokum fjallaði Rögnvaldur J. Sæmundsson dósent í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands að hvaða leyti nýsköpunar- og frumkvöðlafræði eigi erindi við opinbera þjónustu og stjórnsýslu.  

Finna má nánari upplýsingar um öll verkefnin sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlaunanna í ár ásamt öðru fróðlegu efni um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á vefsíðunni nýsköpunarvefur.is

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum