Strandríkjafundir um norsk-íslenska síld og kolmunna
Strandríkjafundum um veiðistjórnun norsk íslenskrar síldar og kolmunna í Norður Atlantshafinu lauk í vikunni án árangurs. Í lok síðasta árs var samið um leyfilegan heildarafla beggja tegunda á veiðisvæðinu en ekki náðist samkomulag um skiptingu veiðiheimilda á milli strandríkjanna sem eru auk Íslands, Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið.
Áhyggjur eru af því að fyrrnefnt samkomulag um heildarafla í kolmunna haldi ekki í kjölfar ákvörðunar Norðmanna um einhliða hækkun til norskra skipa umfram þann hlut sem þeir hafa fengið samkvæmt gildandi kolmunna samkomulagi frá 2006. Staða kolmunna stofnsins er sterk um þessar mundir og hagsmunir strandríkjanna liggja fyrst og fremst í því að tryggja áfram sterka stöðu stofnsins og hagkvæma nýtingu hans. Færeyjar og Evrópusambandið fóru fram á það á haustmánuðum síðasta árs að kolmunnasamkomulagið frá 2006 yrði tekið upp. Ísland hefur í viðræðunum síðan þá bent á að engar forsendubreytingar hafi orðið á göngumynstri stofnsins sem kalli á nýja skiptingu en langan tíma tók að komast að samkomulagi 2006 og stofninn hrundi vegna ofveiði.
Færeyjar hafa veitt umfram þann hlut sem þeim er ætlaður í samkomulagi frá 2007 um norsk íslenska í nokkurn tíma og farið fram á nýja skiptingu veiðiheimilda á milli strandríkjanna. Ísland hefur, líkt og í kolmunna, bent á að göngumynstur stofnsins hafi ekki breyst þannig frá síðasta samkomulagi um skiptingu veiðiheimilda að tilefni sé til að breyta skiptingunni. Staða norsk íslenska síldarstofnsins er alvarleg, nýliðun er léleg og með áframahaldandi ofveiðum er raunveruleg hætta á hruni stofnsins.
Áframhaldandi samningaviðræður munu fara fram síðar á þessu ári.
Áframhaldandi samningaviðræður munu fara fram síðar á þessu ári.