EFTA dómstóllinn átelur að tvær tilskipanir hafi ekki verið innleiddar
Í dag kvað EFTA dómstóllinn upp tvo dóma í málum gegn íslenskum stjórnvöldum varðandi innleiðingu á tilskipunum ESB. Annars vegar tilskipun um kröfur varðandi visthönnun orkutengdra vara (tilskipun 2009/125/EB) og hins vegar varðandi tilskipun um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum (tilskipun 2011/7/EB). Samkvæmt dómunum höfðu íslensk stjórnvöld, á þeim tíma sem málin voru höfðuð, ekki innleitt tilskipanirnar með fullnægjandi hætti.
Í tengslum við framangreint vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið koma því á framfæri að íslensk stjórnvöld eru þegar búin að tryggja fullnægjandi innleiðingu á umræddum tilskipununum; annars vegar með lögum nr. 118/2014 um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku. Hins vegar með lögum sem innleiddu tilskipun um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum og samþykkt voru á Alþingi í gær, 27. janúar.
Búið er að upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um innleiðingar tilskipananna og munu dómar EFTA dómstólsins í dag því ekki hafa neina eftirmála í för með sér þar sem málunum er lokið.