Útgjaldarammi Hafrannsóknastofnunar hækkar um 12% á milli ára
Fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu og í einhverjum tilvikum hefur misskilnings gætt varðandi framlög ríkisins til stofnunarinnar. Af þessu tilefni vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið taka fram að útgjaldarammi Hafrannsóknastofnunar hækkar um liðlega 12% á milli áranna 2014 og 2015 eða sem nemur 327 m.kr.
Auk þess er rétt að vekja athygli á að ráðherra tekur ekki ákvörðun um hækkun á fjárframlögum til einstakra stofnana á milli fjárlagaumræðna á Alþingi. Hafrannsóknastofnun, líkt og öllum öðrum stofnunum ríkisins er markaður rekstrarrammi með fjárlögum. Útgjaldarammi Hafrannsóknastofnunar samanstendur annars vegar af framlagi úr ríkissjóði og hins vegar sértekjum.
Í fjárlögum ársins 2014 fékk Hafrannsóknastofnun í sinn hlut alls 1.409 m.kr. Við það bættust 50 m.kr. í fjárauka. Alls fékk stofnunin 1.459 m.kr. frá ríkinu á árinu 2014. Sértekjur voru 1.301 m.kr. og útgjaldarammi stofnunarinnar árið 2014 var því alls 2.760 m.kr.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að útgjaldarammi Hafrannsóknastofnunar nemi alls 3.087 m.kr. sem er liðlega 12% hækkun frá fyrra ári. Í fjárlögum fær stofnunin 1.749 m.kr. (20% hækkun) og sértekjurnar eru upp á 1.338 m.kr. (3% hækkun).
Rétt er að taka fram að 150 m.kr. af ríkisframlaginu er eyrnamerkt hvalatalningu en þær fara fram á nokkurra ára fresti. Ef þessi upphæð er dregin frá nemur hækkun á útgjaldaramma Hafrannsóknastofnunar 6,5%. Þess má jafnframt geta að í skýringum í frumvarpi til fjárlaga kemur fram að hluti hækkaðs framlags sé ætlað til loðnurannsókna.