Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Atvinnuvegaráðuneytið

Jákvæður fundur Íslands og Grænlands um sjávarútvegsmál

Fundur Íslands og Grænlands
Fundur Íslands og Grænlands

Árlegur tvíhliða fundur Íslands og Grænlands um sjávarútvegsmál var haldinn í Reykjavík í vikunni. Á fundinum var farið yfir stöðu helstu nytjastofna, nýtingu þeirra og samstarf þjóðanna á alþjóðlegum fundum NAFO (Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar) og NEAFC Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar). Fundurinn var jákvæður sem er mikilvægt í ljósi þeirra miklu sameiginlegu hagsmuna sem þjóðirnar eiga. 

Meginhluti fundartímans fór í umfjöllun um helstu stofna, s.s. makríl, síld, karfa, lúðu, loðnu, þorsk og rækju. Umræða um makríl var fyrirferðarmikil og lýstu Grænlendingar yfir ánægju með þá tilhögun sem komið var á varðandi löndun á makríl í íslenskum höfnum á síðasta ári og lögðu áherslu á að grænlensk makrílveiðiskip geti áfram landað á Íslandi á komandi vertíð. Þá var það rætt að þjóðirnar myndu funda og stilla saman strengi sína í aðdraganda strandríkjafunda um makríl sem haldnir verða í haust.

Sérstök bókun var gerð um aukið rannsóknasamstarf og mun Hafrannsóknastofnun spila þar veigamikið hlutverk. Sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir á þorsk, makríl, síld og loðnu. Jafnframt munu Grænlendingar taka þátt í rannsókn Veiðimálastofnunar á uppruna laxastofna í úthafinu og skila sýnum til hennar næsta sumar líkt og íslensk skip gera.

Næsti tvíhliða fundur er ráðgerður að ári í Nuuk. Jóhann Guðmundsson fór fyrir íslensku sendinefndinni en Emanuel Rosing var í forsvari fyrir þeirri grænlensku. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta