Jákvæður fundur Íslands og Grænlands um sjávarútvegsmál
Árlegur tvíhliða fundur Íslands og Grænlands um sjávarútvegsmál var haldinn í Reykjavík í vikunni. Á fundinum var farið yfir stöðu helstu nytjastofna, nýtingu þeirra og samstarf þjóðanna á alþjóðlegum fundum NAFO (Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar) og NEAFC Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar). Fundurinn var jákvæður sem er mikilvægt í ljósi þeirra miklu sameiginlegu hagsmuna sem þjóðirnar eiga.
Meginhluti fundartímans fór í umfjöllun um helstu stofna, s.s. makríl, síld, karfa, lúðu, loðnu, þorsk og rækju. Umræða um makríl var fyrirferðarmikil og lýstu Grænlendingar yfir ánægju með þá tilhögun sem komið var á varðandi löndun á makríl í íslenskum höfnum á síðasta ári og lögðu áherslu á að grænlensk makrílveiðiskip geti áfram landað á Íslandi á komandi vertíð. Þá var það rætt að þjóðirnar myndu funda og stilla saman strengi sína í aðdraganda strandríkjafunda um makríl sem haldnir verða í haust.
Sérstök bókun var gerð um aukið rannsóknasamstarf og mun Hafrannsóknastofnun spila þar veigamikið hlutverk. Sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir á þorsk, makríl, síld og loðnu. Jafnframt munu Grænlendingar taka þátt í rannsókn Veiðimálastofnunar á uppruna laxastofna í úthafinu og skila sýnum til hennar næsta sumar líkt og íslensk skip gera.
Næsti tvíhliða fundur er ráðgerður að ári í Nuuk. Jóhann Guðmundsson fór fyrir íslensku sendinefndinni en Emanuel Rosing var í forsvari fyrir þeirri grænlensku.