Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Innviðaráðuneytið

Yfir 100 manns við setningu umferðarþings

Umferðarþing var sett í morgun í Reykjavík þar sem flutt eru erindi um ýmis svið umferðaröryggis. Fluttir voru fyrirlestrar um orsakir og áhrifavalda banaslysa, um mannslíkamann og umferðarslys, slys á óvörðum vegfarendum, hvort fatlað fólk byggi við  sama öryggi og aðrir í umferðinni og um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Umferðarþing er skipulagt af innanríkisráðuneytinu og Samgöngustofu.

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri setti umferðarþing í dag.
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri setti umferðarþing í dag.

Ráðstefnan hófst með ávarpi Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytis, og sagði hún í upphafi að fjórir hefðu látist í umferðarslysum á síðasta ári en það væri fjórum of margir. Hún sagði umferðaröryggi best mælt í fækkun slysa og að verulegur árangur hefði náðst við fækkun banaslysa en fjöldi alvarlegra slasaðra hefði ekki lækkað eins og stefnt var að.

,,Til að ná þessum markmiðum er aðgerðum forgangsraðað með tilliti til arðsemi þeirra: Annars vegar aðgerðir sem miða að því að hafa áhrif á hegðun ökumanna – öruggari ökumenn – fyrst og fremst eftirlit, fræðsla, áróður og markviss ökukennsla. Í öðru lagi aðgerðir sem lúta að hönnun og ástandi vega – öruggari vegir,“ sagði ráðuneytisstjóri meðal annars og sagði aðalverkefni umferðaröryggisáætlunar vera eftirlit með hraðakstri, bílbeltanotkun og vímuefnanotkun við akstur auk áróðurs. Einnig yrði lögð sérstök áhersla á forvarnir, fræðslu og baráttu fyrir notkun öryggisbelta auk öryggis barna í umferðinni.

Frá umferðarþingi sem nú stendur í Reykjavík.

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, ræddi um hlutverk Samgöngustofu og umferðaröryggi og minnti á að Samgöngustofa skuli með starfsemi sinni stuðla að öruggum, hagkvæmum og greiðum samgöngum. Hlutverk stofnunarinnar væri að hafa eftirlit með samgöngum, skírteinum og leyfisveitingum og samgöngumannvirkjum svo og að taka þátt í gerð umferðaröryggisáætlunar.

Í kjölfarið voru flutt erindi um ýmis svið umferðaröryggis og slysa. Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir, ræddi um mannslíkamann og umferðarslys. Fjallaði hún um tölfræðina á bak við slys og sagði fækkun banaslysa að undanförnu sýna að hægt væri að taka á slysavörnum með stefnu og aðgerðum. Kristín nefndi að helstu ástæður alvarlegra slysa og banaslysa væru gáleysi og rangar aðgerðir ökumanns, of hraður akstur, syfja, ölvun og bílbelti ekki notuð. Þá áréttaði hún mikilvægi notkunar endurskinsmerkja og hjálma.

Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, fjallaði um fækkun banaslysa í umferðinni, orsakir og áhrifavalda. Varpaði hann fram margs konar tölfræði um þróun umferðarslysa síðustu árin. Kom fram í máli hans að umferð væri mjög vaxandi síðustu árin og að árangur hefði náðst í slysavörnum. Sagði hann að þjóðir sem ynnu skipulega eftir umferðaröryggisáætlunum næðu árangri í slysavörnum.

Þá flutti Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, erindi um rannsókn á banaslysum og alvarlegum slysum með áherslu á gangandi og hjólandi vegfarendur.

Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir læknir ræddi spurninguna hvort fatlað fólk byggi við sama öryggi og aðrir í umferðinni.

Um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga ræddu þau Haraldur Sigþórsson, deildarstjóri öryggisáætlana hjá Samgöngustofu, og Jóhanna B. Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar. Fram kom að sveitarfélögum með yfir þúsund íbúa bæri að setja sér umferðaröryggisáætlanir.

Í lokin fjallar Hörður Bjarnason frá verkfræðistofunni Mannviti um nýútkomnar samræmdar leiðbeiningar um gerð og merkingar götuþverana.

Glærukynningar fyrirlesara má sjá á vef Samgöngustofu.

Frá umferðarþingi sem nú stendur í Reykjavík.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum