Nýtt ferðamálaráð skipað
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur skipað nýtt ferðamálaráð til fjögurra ára.
Formaður ráðsins er Þórey Vilhjálmsdóttir og varaformaður Páll Marvin Jónsson. Þau eru skipuð án tilnefningar.
Þórey er fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra. Hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri, stjórnun og stefnumótun. Þórey er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á alþjóðaviðskipti og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Þá stundaði hún auk þess nám við markaðs- og útflutningsfræði við Endurmenntunardeild Háskóla Íslands.
Páll Marvin er formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja og framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja.
Aðrir í ferðamálaráði eru: Halldór Benjamín Þorbergsson, Ingibjörg Guðjónsdóttir og Þórir Garðarsson, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar. Aldís Hafsteinsdóttir og Hjálmar Sveinsson, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ásbjörn Björgvinsson og Díana Mjöll Sveinsdóttir, tilnefnd af Ferðamálasamtökum Íslands og Jón Ásbergsson, tilnefndur af Íslandsstofu.