Þriggja milljóna króna styrkur til Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu, skrifuðu í dag undir samning um 3 m.kr. styrk frá ráðuneytinu til samtakanna. Markmið samningsins er að vinna að frekari uppbyggingu og þróun sögutengdrar ferðaþjónustu um land allt þar sem leitast verður við að auka upplifun ferðamanna og afþreyingu sem byggir á menningararfi þjóðarinnar.
Samtök um söguferðaþjónustu skuldbinda sig til þess að vinna að markmiðum samningsins í nánu samstarfi við stofnanir tengdar ferðamálum, atvinnuþróun og menningarmálum. Áhersla er lögð á að byggja upp ferðaþjónustu sem lýtur að miðlun menningararfs og kynningu á sögu þjóðarinnar. Kannanir sýna að áhugi ferðamanna beinist í auknum mæli að þessum þætti sem getur orðið mikilvægur liður í aukinni dreifingu ferðamanna um landið að vetri jafnt sem sumri. Jafnframt er mikilvægt að auka framboð á fjölbreyttri afþreyingu fyrir ferðamenn og er vinna samtakanna liður í því mikilvæga verkefni.
Á árinu 2015 munu samtökin vinna að kortlagningu tækifæra á þessu sviði á landsvísu, m.a. í samhengi við stefnumótun landshluta í ferðaþjónustu og stefnumótun í ferðaþjónustu á landsvísu auk þess að kynna mismunandi söguhringi og stuðla að samvinnu við ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur um þróun þeirra. Þá verður markaðssetning á söguferðaþjónustu innan lands sem utan efld í samvinnu við Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Samtök ferðaþjónustunnar o.fl. Þá verður lögð áhersla að samstarf samstarfi við önnur svið atvinnulífsins eftir því sem við á.