Iðnaðar- og viðskiptaráðherra í Los Angeles að kynna Ísland sem tökustað fyrir kvikmyndir
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sótti í þessari viku AFCI Location Show í Los Angeles. Sýningin er árleg og þangað koma fulltrúar frá ýmsum löndum til að kynna sín svæði til kvikmyndagerðar. Film in Iceland skrifstofan sem starfar innan Íslandsstofu hefur kynnt Ísland sem tökustað fyrir kvikmyndaframleiðslu á sýningunni á annan áratug með góðum árangri eins og fjöldi verkefna síðustu ára bera vitni um.
Í ferðinni fundar ráðherra með aðilum úr kvikmyndageiranum, samtökum kvikmyndaframleiðenda (Producers Guild of America), Disney, Warner Brothers og samtökum þeirra sem annast staðsetningarval þegar kvikmynd er gerð (Location Managers Guild of America).
Fyrir dyrum stendur að endurskoða lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, en þau eru tímabundin og renna út á næsta ári. Markmiðið með ferð ráðherra er að afla upplýsinga um samkeppnisumhverfið og markaðsaðstæður og sjá hvað megi bæta í íslenskri löggjöf til að styrkja samkeppnishæfni landsins enn frekar á þessu sviði.
Ragnheiður Elín átti einnig fundi með aðilum úr orkugeiranum um jarðhitamál, en Kalifornía er stærsta jarðhitasvæði Bandaríkjanna og miklir möguleikar í fylkinu til að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
Ferð ráðherra var skipulögð í samstarfi við Íslandsstofu og Aðalræðisskrifstofu Íslands í New York.