Hoppa yfir valmynd
10. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Er þörf á endurskoðun mannanafnalaga?

Innanríkisráðuneytið skoðar nú hvort þörf sé á að endurskoða lög um mannanöfn, nr. 45/1996. Frumvarp laganna var afrakstur slíkrar endurskoðunar eldri laga frá árinu 1991 en mannanafnalög hafa verið í gildi hér á landi allt frá árinu 1914.

Í lögum um mannanöfn er kveðið á um framkvæmd nafngjafar og rétt og skyldu forsjármanna til að gefa börnum sínum nöfn. Þá er þar settur rammi um nafngjafir að öðru leyti, svo sem um fjölda nafna og þau skilyrði sem nöfn þurfa að uppfylla, þar með talin ættarnöfn. Þá kveða lögin á um störf mannanafnanefndar sem meðal annars hefur það hlutverk að skera úr álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir og nafnritun. Samanteknar meginreglur mannanafnalaga er að finna hér.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. janúar 2013 kom fram að réttur manns til nafns félli undir vernd 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar á friðhelgi einkalífs. Því til stuðnings var vísað til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu, sem fellt hefur réttinn til nafns undir 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en hún er efnislega samhljóða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Af því leiðir að réttur til nafns verður aðeins takmarkaður með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvæði mannanafnalaga fela í sér slíkar takmarkanir sem byggja á því mati löggjafans að hagsmunir samfélagsins geti vegið þyngra en réttur einstaklinga og foreldra til að velja sér og börnum sínum nöfn.

Ráðuneytið kallar nú eftir sjónarmiðum um hugsanlega endurskoðun mannanafnalaga. Til umræðu og skoðanaskipta eru hér settir fram þrír möguleikar:

a. Hvorki er talin þörf á endurskoðun ákvæða mannanafnalaga um nafngjafir né störf mannanafnanefndar. Þeir almannahagsmunir sem liggja að baki ákvæðunum eru óbreyttir en í störfum mannanafnanefndar verði framvegis lögð meiri áhersla á þau sjónarmið sem fram hafa komið í dómaframkvæmd.

b. Rétt er talið að gera tilteknar breytingar á mannanafnalögum, m.a. út frá þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið hjá dómstólum. Áfram verða í löggjöf reglur um nöfn og nafngjafir en þær endurskoðaðar út frá sjónarmiðum í samfélaginu í dag. Þá verður hlutverk mannanafnanefndar jafnframt endurskoðað með hliðsjón af þessu.

c. Rétt er talið að fella úr mannanafnalögum takmarkanir á nafngjöf og gefa þannig fullorðnum einstaklingum og foreldrum barna frelsi til að velja nöfn sín og barna sinna. Mannanafnanefnd er þá óþörf og hún því lögð niður. Rétt er að geta þess að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp 14 þingmanna til breytinga á mannanafnalögum þar sem þessi leið er lögð til.

Ráðuneytið óskar eftir góðu samráði í þessu máli. Mikilvægt er að þeir sem senda inn umsögn tilgreini hvaða ofangreindan kost þeir aðhyllast. Rökstuddar tillögur og/eða athugasemdir óskast sendar á netfangið [email protected] fyrir 1. maí 2015. Ráðuneytið mun taka saman helstu niðurstöður um samráðið og kynna þær. Verða þær nýttar við mat á því hvort lagðar verði til breytingar á gildandi mannanafnalögum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum