Frumvarp um verndarsvæði í byggð samþykkt í ríkisstjórn
Frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í gær. Frumvarpinu er ætlað að stuðla að vernd og varðveislu byggðar innan þéttbýlis og byggðarkjarna utan þéttbýlis vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis. Frumvarpið er unnið í forsætisráðuneytinu í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Áherslur í húsverndarmálum hafa á undanförnum árum færst frá því að fjalla aðeins um stök hús og mannvirki yfir í það að líta jafnframt á samhengi bygginga, minja og mannvirkja sem mikilvægan þátt í varðveislu þeirra. Með þessari áherslubreytingu hafa hugtök á borð við hverfisvernd, verndarsvæði og varðveisla menningarlandslags fengið aukið vægi. Með því er viðurkennt að varðveislugildi liggi ekki aðeins í stökum byggingum eða minjum sem efnislegum hlutum heldur geti varðveislugildi falist í samspili ólíkra þátta í umhverfinu, heildarsvip bygginga á tilteknu svæði, ákveðnum sameiginlegum einkennum byggðarinnar og tengslum hennar við staðhætti og umhverfi.
Tilgangur frumvarpsins sem samþykkt var í ríkisstjórn í gær er að gera vernd byggðarheilda hærra undir höfði og hún verði sérstætt verkefni sveitarfélaga, í samráði við Minjastofnun Íslands og forsætisráðherra, en ekki hluti af almennri skipulagsvinnu sveitarfélaga eins og nú er. Þá er það markmið frumvarpsins að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar sem búa innan eða nærri slíkum verndarsvæðum fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á vernd þeirrar byggðar sem þeir tilheyra. Loks skapast með uppbyggingu verndarsvæða í þéttbýli tækifæri til að leggja aukna áherslu á áhugaverða áfangastaði í byggð og þar með dreifa því álagi sem aukinn ferðamannastraumur hefur á helstu náttúruperlur landsins.