Hoppa yfir valmynd
12. mars 2015 Utanríkisráðuneytið

Ísland verði ekki lengur í hópi umsóknarríkja

Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, átti í dag fund með lettneskum starfsbróður sínum, Edgars Rinkevics, sem nú gegnir formennsku í Evrópusambandinu (ESB).

Utanríkisráðherra afhenti á fundinum bréf til  formennsku sambandsins og framkvæmdastjórn þar sem tilkynnt er að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt á fundi sínum sl. þriðjudag að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við ESB á nýjan leik. Ríkisstjórnin  líti því svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja og fer þess á leit við ESB að sambandið taki hér eftir mið af því. Jafnframt er tekið fram að litið sé svo á að þessi nýja stefna komi í stað skuldbindinga þeirra sem gefnar voru í aðildarviðræðum fyrri ríkisstjórnar. 

Utanríkisráðherra lagði í samtali sínu við Rinkevics, áherslu á áframhaldandi sterk tengsl og samstarf Íslands og ESB, m.a. á grundvelli EES samningsins. Lýsti utanríkisráðherra eindregnum vilja sínum til þess að efla samstarf Íslands og ESB enn frekar.

Utanríkisráðherra Lettlands segist virða þessa niðurstöðu og tekur undir áframhaldandi mikilvægi góðs náins samstarfs ESB og Íslands. 

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sendingu bréfs til formennskuríkis ESB kom í framhaldi af umfangsmiklum samskiptum íslenskra stjórnvalda og ESB undanfarnar vikur. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur verið kynnt efni bréfsins.

Íslensk þýðing bréfs utanríkisráðherra til formennsku ESB

Spurt og svarað um samskipti Íslands og ESB

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira