Hoppa yfir valmynd
16. mars 2015 Atvinnuvegaráðuneytið

Allar atvinnugreinar eru jafnar fyrir lögum um ívilnanir

Í Viðskiptablaðinu þann 12. mars sl. er fjallað um fjárfestingasamning sem nýlega var undirritaður við fyrirtækið Matorku vegna nýrrar fiskeldisstöðvar í Grindavík, þar sem veittar eru ákveðnar skilgreindar ívilnanir til nýfjárfestingarinnar. 

Þar er vísað til gagnrýni sem komið hefur fram frá stjórn Landssambands fiskeldisstöðva. Í þeirri gagnrýni kemur fram að með veitingu ívilnana sé verið að raska samkeppni í fiskeldi á Íslandi og að slík ríkisaðstoð sem í fjárfestingarsamningnum felst þurfi að vera í boði fyrir öll fyrirtæki í fiskeldi sem hyggist auka fjárfestingar í greininni. Mikilvægt sé að opinber stuðningur sé á jafnréttisgrundvelli. Bent hefur verið á að a.m.k. 12 fiskeldisfyrirtæki stefni að frekari fjárfestingum í fiskeldi á næstu árum og nema fyrirhugaðar fjárfestingar meira en 10 milljörðum króna. Fram kemur í gagnrýninni að „ef stuðningurinn verður aðeins til eins eða fárra félaga veldur það samkeppnismismunun sem er óásættanleg fyrir þá sem eftir sitja.“

Til að svara þessari gagnrýni telur ráðuneytið rétt að vekja athygli á eftirfarandi atriðum.

Árið 2010 voru samþykkt á Alþingi lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Um var að ræða tímabundna rammalöggjöf sem féll úr gildi í árslok 2013. Í kjölfar ábendinga frá eftirlitsstofnun EFTA (ESA) var lagt fram á Alþingi á síðasta vorþingi frumvarp til nýrra heildarlaga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Ekki náðist að klára það mál á s.l. vorþingi og var það því endurflutt í haust og er það nú til meðferðar á Alþingi. Það frumvarp gerir ráð fyrir að settur verði sambærilegur rammi og í fyrri lögunum þar sem ríki og sveitarfélög geta samið um ákveðnar skilgreindar ívilnanir til skamms tíma sem metnar eru nauðsynlegar til að viðkomandi nýfjárfestingarverkefni verði að veruleika með tilheyrandi jákvæðum samfélags- og efnahagslegum áhrifum. Grundvöllur löggjafarinnar eru samkeppnisreglur Evrópusambandsins um veitingu byggðaaðstoðar til nýfjárfestingar.

Fjárfestingar í íslensku atvinnulífi drógust gríðarlega saman á árunum eftir hrun og stefna núverandi ríkisstjórnar hefur frá upphafi verið að bæta samkeppnishæfi landsins hvað þetta varðar. Almennt hefur verið litið svo á að brýn þörf sé fyrir löggjöf sem þessari til að efla nýfjárfestingu og tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands gagnvart fjárfestingum og atvinnusköpun. Ísland er í harðri samkeppni við aðrar þjóðir sem margar hverjar veita ríkulegar ívilnanir til að laða til sín jákvæða nýfjárfestinga á fjölbreyttu sviði. Í því sambandi er t.d. hægt að vísa í ríkisstuðning nágrannaþjóða okkar til uppsetningu alþjóðlegra stórra gagnavera. Það er samdóma álit þeirra aðila sem hafa unnið að nýfjárfestingum að ef Ísland ætli að taka þátt í þessari samkeppni þá verði að vera til staðar hér rammalöggjöf um veitingu ívilnana til nýfjárfestingaverkefna.

Til lengri tíma litið er hins vegar mikilvægt að ná skattaumhverfinu hér á þann stað að ívilnanir verði óþarfar og þangað er að sjálfsögðu stefnt. Veruleikinn er hins vegar sá að Ísland er ekki komið á þann stað í dag og liður í því að nálgast þann stað er að ýta enn frekar undir útflutningssækinn iðnað hér á landi, auka hagvöxt og útflutningstekjur með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og umsvif í samfélaginu.

Lög um ívilnanir til nýfjárfestinga, og fjárfestingarsamningar á grundvelli þeirra, ganga út á að veita mælanlega ríkisaðstoð til tiltekins verkefnis, svo það verkefni geti orðið að veruleika. Er það skilyrði fyrir veitingu ríkisaðstoðar í gegnum fjárfestingarsamning að ívilnunin sjálf sé forsenda þess að viðkomandi verkefni verði að veruleika. Þar af leiðandi verður ávallt að meta hvert verkefni fyrir sig með sjálfstæðum hætti, m.a. út frá þörf þess fyrir ívilnun. Um veitingu ríkisaðstoðar til nýfjárfestingarverkefna gilda skýrar samkeppnisreglur frá ESB og erum við bundin af þeim reglum í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Öll löggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga takmarkast því við samkeppnisreglur ESB, sem að sama skapi tryggir ákveðna kröfu um jafnræði.

Löggjöf um ívilnanir byggir á því að um skilgreinda byggðaaðstoð er að ræða. Samkvæmt byggðakorti ESA er Íslandi er skipt í tvö svæði þar sem annað er styrkhæft (á rétt á byggðastyrkjum vegna nýfjárfestinga) og hitt ekki. Styrkhæfa svæðið afmarkast af landsbyggðarkjördæmunum þremur, en hitt af Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvestur kjördæmi.

Að því er varðar gagnrýni um skort á jafnræði ber að hafa í huga, samanber framangreint, að erfitt getur verið að gæta fullkomins jafnræðis við veitingu ívilnana að öðru leyti en því að nákvæmlega eins verkefni á sama stað fái sömu aðstoð. Ef t.d. eignarhaldið er öðruvísi, stærð verkefnisins eða staðsetning ólík, eru líkur á því að ekki sé hægt (vegna EES skuldbindinga) að veita nákvæmlega sömu ívilnunina til viðkomandi verkefna. Engu að síður er jafnræði tryggt að því leyti að bæði verkefni geta sótt um ívilnanir og afgreiðsla þess ræðst þá af mismunandi þörf viðkomandi verkefna fyrir ívilnun til að verkefnin geti orðið að veruleika.

Til að varpa frekara ljósi á þetta má benda á að við veitingu ívilnana til nýfjárfestinga á Íslandi hefur frá upphafi (allt frá árinu 1966 þegar fyrsti fjárfestingarsamningurinn var gerður vegna álvers í Straumsvík) þurft að horfa með sjálfstæðum hætti á hvert verkefni og þarfir þess. Má þar benda á fjárfestingarsamninga við álverin í landinu, kísilver, gagnaver, líftæknifyrirtæki og fiskeldi. Í öllum tilvikum ráðast veittar ívilnanir af þeim heimildum sem leiða af samkeppnisreglum ESB.

Það sem skiptir lykilmáli hér er að samkvæmt rammalöggjöf um ívilnanir, og framkvæmd stjórnvalda á henni, eru ívilnanir almennt í boði fyrir öll fyrirtæki sem þurfa á slíkum ívilnunum að halda vegna nýfjárfestinga sinna og uppfylla almenn skilyrði laganna (m.a. um staðsetningu á byggðakorti). Það er að segja, löggjöfin gerir ekki upp á milli fyrirtækja eða atvinnugreina. Það er heldur ekki í höndum framkvæmdavaldsins að velja eða gera upp á milli fyrirtækja í þeim efnum, enda kemur fram í 40. gr. stjórnarskrárinnar að skattamálum beri að skipa með lögum (þar með talið skattalegum ívilnunum). Ekki er því unnt að semja sérstaklega um skattalega frávik einstakra fyrirtækja án þess að almenn lagaheimild sé til staðar. Bæði lögin og framkvæmd þeirra tryggja því jafnræði þegar kemur að veitingu ívilnana. Ef ætlunin væri að takmarka veitingu ívilnana við atvinnugreinar sem ekki eru fyrir í landinu þyrfti að gera það með almennum hætti. Það myndi þá hafa þær afleiðingar að ekki væri hægt að veita ívilnanir til að laða hingað til lands fleiri fyrirtæki í ýmsum greinum sem hingað til hafa verið talin eftirsóknarverð, t.a.m. gagnaversiðnaði og líftækni.

Það er fagnaðarefni að fram hefur komið að 12 fiskeldisfyrirtæki hyggist stefna að frekari fjárfestingu í fiskeldi á næstu árum. Í því samhengi er rétt að undirstrika að öllum þeim fyrirtækjum er heimilt að sækja um ívilnanir í formi fjárfestingarsamnings vegna fyrirhugaðra nýfjárfestinga þeirra. Eins og gildir með önnur fyrirtæki þá þurfa þau verkefni að uppfylla almenn skilyrði laganna og vera innan byggðakortsins, til að hljóta ívilnanir. Óháð nefnd á vegum stjórnvalda fer yfir það hvort umsækjandi um ívilnun uppfylli skilyrði laganna (sem byggja sem áður segir á samkeppnisreglum ESB) og gerir að lokinni yfirferð sinni tillögur til ráðherra. Að því leyti er því tryggt að bæði lögin og framkvæmd þeirra er að öllu leyti á jafnræðisgrundvelli og ekki er unnt að gera upp á milli fyrirtækja með handahófskenndum hætti eins og ýjað er að í frétt Viðskiptablaðsins. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta