Frumvarp um veiðigjöld enn í vinnslu.
Í tilefni af fréttaflutningi Fréttablaðsins í dag um stöðu vinnu við frumvarp um veiðigjöld vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið taka fram að frumvarpið er enn í vinnslu í ráðuneytinu. Það var skýrt tekið fram í samtölum við blaðamann í gær. Samráðsnefnd þingmanna um veiðigjöld verður kölluð saman til umfjöllunar um fyrirhugaðar ákvarðanir um sérstakt veiðigjald þegar þær liggja fyrir, eins og kveðið er á um í 5. gr. laga nr. 77 frá 2012. Frumvarpið fer því næst í lögbundið kostnaðarmat hjá fjármálaráðuneytinu og að því loknu er það lagt fyrir ríkisstjórn.