Hoppa yfir valmynd
19. mars 2015 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Skátar komast á græna grein

Skátar stíga græn skref
Skátar stíga græn skref

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hleypti á þriðjudag af stokkunum verkefninu „Skátafélag á grænni grein“ með því að afhenda fulltrúum Skátafélagsins Árbúum fyrsta eintakið af gátlista og veggspjaldi, þar sem skrefin sjö að „Græna skildinum“ eru tíunduð.

Verkefnið er liður í þeirri viðleitni skátahreyfingarinnar að lágmarka umhverfisáhrif skátastarfsins og lýtur að rekstri skátaheimila. Skátafélag getur þannig áunnið sér „Græna skjöldinn“ sem er ný umhverfisviðurkenning Bandalags íslenskra skáta, með því að taka sjö, skilgreind skref í átt að bættri umhverfisstjórnun skátaheimilanna. Skrefin lúta að því að hafa sérstaka umhverfisnefnd starfandi í skátafélaginu, meta stöðu umhverfismála, gera áætlun um aðgerðir og markmið, hafa eftirlit með umhverfisstarfinu og endurmeta það reglulega, veita skátum félagsins markvissa fræðslu í umhverfismálum, að leitast við að hafa áhrif á umhverfisstarf út fyrir félagið og setja félaginu umhverfissáttmála sem lýsir stefnu þess í umhverfismálum.

Við sama tækifæri tóku Árbúar við fyrsta flokkunarsettinu ásamt flokkunartöflu en Bandalag íslenska skáta áformar að gefa öllum skátaheimilum slíkt sett í því skyni að auðvelda skátum að flokka þann úrgang sem til fellur í skátaheimilunum. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira