ESA sátt við samninga um sölu og flutning raforku til kísilvers í Helguvík
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið mati á samningum Landsvirkjunar og Landsnets við United Silicon um sölu og flutning raforku og er niðurstaðan sú að þeir feli ekki í sér ríkisaðstoð.
Að mati ESA er samningur Landsvirkjunar um sölu raforku gerður á markaðskjörum og felur þar af leiðandi ekki í sér ríkisaðstoð. Raforkan kemur eingöngu frá núverandi orkuframleiðslukerfi Landsvirkjunar og samkvæmt samningnum er raforkuverð hærra en meðalframleiðslukostnaður Landsvirkjunar.
Þá telur ESA samning Landsnets um flutning raforku, þ.e. hvað varðar kerfisframlag og niðurspenningu, ekki fela í sér ríkisaðstoð. United Silicon mun ekki fá undanþágur frá gjöldum sem fyrirtækinu ber að standa skil á. Öll gjöld eru reiknuð samkvæmt gildandi reglum á Íslandi og telur ESA því að ekki sé um ríkisaðstoð að ræða.