Hoppa yfir valmynd
27. mars 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2015

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands sem haldinn var 27. mars 2015.

 

Forstjóri, ágætu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar og góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar móttökur í Urriðaholtinu þegar ég heimsótti ykkur á Náttúrufræðistofnun fyrr í vetur, fljótlega eftir að ég tók við núverandi starfi.  Það var virkilega áhugavert að fá svona góða innsýn í ykkar margþættu og mikilvægu störf í þágu samfélags okkar.

Heimsóknin til ykkar veitti mér einnig innblástur í ræður t.d. á þorrablótum ekki síst deild skordýrarannsókna.

Það er vel búið að Náttúrufræðistofnun í dag með glæsilegri aðstöðu í Urriðaholti. Sérstaklega er búið að koma safnkostinum vel fyrir með öruggum og aðgengilegum geymslum, sem fyrir fyrrverandi safnakonu var mjög áhugavert. En auðvitað er það ekki umgjörðin ein sem skapar öfluga starfsemi – þar skiptir starfsfólkið auðvitað öllu máli og fann ég vel í heimsókninni hversu öflugt og reynt fólk á sviði náttúruvísinda starfar hjá stofnuninni, af mikilli elju og áhuga.

Ágætu gestir;

Viðfangsefnin á Náttúrufræðistofnun Íslands er náttúran í sínum mikla fjölbreytileika. 
Málefni náttúrunnar eru um margt mál málanna í Íslandi.  
Íslensk náttúra og auðlindir hennar hafa um aldir skipt öllu fyrir líf og velferð í þessu landi, og staðreyndin er að svo er enn.

Þannig hefur moldin - jarðvegurinn og þar með gróðurinn verið ein helsta undirstaða samfélagsins frá upphafi.

Mold. Hvað er svona merkilegt við mold. Sameinuðu þjóðirnar völdu árið 2015 – sem ár moldarinnar eða jarðvegsins og var efnt til fagnaðar í vikunni út af ári moldarinnar.

Sjávarauðlindin kom okkur síðan áfram til bjargálna, Nýting orkuauðlinda lagði til hinnar efnahagslegu velsældar og nú er það hin sérstæða og stórbrotna náttúra okkar sem er meginþáttur og undirstaða í stærsta og mest vaxandi atvinnuvegi okkar - ferðaþjónustunni. Í dag er nýting náttúruauðlinda að baki liðlega 80% þeirra tekna sem landið aflar svo einhver mælikvarði sé notaður.

Um málefni náttúrunnar – verndun hennar og nýtingu – er stöðugt tekist á í okkar samfélagi. Hvernig á að nýta? - hvað á að vernda? - hvað telst sjálfbær nýting?  Þetta eru allt spurningar sem sífellt er verið að vinna að og fjalla um.

Til að komast áfram með slíkar spurningar er þekking á náttúrunni algert grundvallaratriði. Við verðum að þekkja eðli og gangverk náttúrunnar til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um vernd og nýtingu hennar. Við þurfum þekkingu á náttúrunni til að geta tryggt að komandi kynslóðir geti notið þeirra sömu gæða og við njótum í dag.  

Öflug rannsókna og vöktunarstofnun á íslenskri náttúru, eins og Náttúrufræðistofnun Íslands er -  skiptir miklu máli. Þekking á náttúrunni grundvallast á að stundaðar séu rannsóknir og skipulögð vöktun hennar. Sú besta þekking sem fyrir liggur þarf síðan ávallt að vera undirstaða ákvarðana okkar hvað varðar náttúru landsins. Þekkingaröfluninni líkur aldrei.   

Í heimsókninni til ykkar í vetur fékk ég innsýn í verkefnið umfangsmikla - Natura Ísland – sem væntanlega er umfangsmesta verkefnið í kortlagningu og greiningu á náttúru landsins til þessa. Þar er greinilega að skapast yfirsýn yfir náttúru landsins á nýjan hátt, sem á eftir að verða ómetanlegt í framtíðinni til að meta verndargildi svæða og náttúrufyrirbæra, svo og til stuðnings og leiðsagnar við hverskonar ákvarðanatöku um ráðstöfun lands.  

Góðir gestir,

Að undanförnu hefur staðið yfir í ráðuneytinu vinna við að skoða starfsemi rannsókna- og vöktunarstofnana þess. Hefur stýrihópur með fulltrúum stofnananna og ráðuneytisins unnið það verk. Stýrihópurinn skilaði skýrslu sinni til mín í vikunni. Ég er viss um það eru mikil tækifæri fólgin í því að efla samstarf og samþætta betur slík verkefni, ekki síst til að nýta megi betur stoðþjónustu, aðstöðu, tæki og sérfræðiþekkingu stofnannanna og efla þar með stefnumótun á sviði náttúruvísinda.

Jafnframt er unnið að slíkum verkefnum á vegum Vísinda- og Tækniráðs, þar sem önnur ráðuneyti og stofnanir hafa aðkomu. Það er sérstakt gleðiefni ef vísindasamsstarf eykur samstarf stofnana, með það að markmiði að efla þekkingu okkar á íslenskri náttúru og miðlun upplýsinga um hana.   

Þá vil ég nefna hér sérstaklega vinnuna við endurskoðun náttúruverndarlaga. Ráðuneytið hefur lagt mikla vinnu í endurskoðunina og haft samráð og samstarf við fjölmarga.  Það er ekki einfalt verk að finna leiðir til að endurskoða þau ákvæði sem mestur ágreiningur hefur ríkt um, en ég bind vonir við að þar takist að finna ásættanlegar lausnir. Þannig að hægt verði sem fyrst að hefjast handa við innleiðingu laganna og vinna að þeim umbótum í náttúruvernd sem þau fela í sér. Ég ætla að leggja mitt af mörkum við það.    

Ágætu fundarmenn,

Náttúrufræðistofnun Íslands fæst við spennandi en um leið krefjandi verkefni. Íslensk náttúra er nátengd sjálfsmynd þjóðarinnar, samofin sögu okkar og menningu.  Hana verðum við að umgangast af virðingu og nærgætni.  

Mér fannst klæðið Þjóta vorvindar eftir  Halldóru Björnsson falla vel að náttúrunni og lýsa hringrás lífsins.

Þjóta vorvindar , vötn kætast,  flýgur fugl,  

andar ástúð um auðn og dal,  -  leikur lífs.


Kemba haustvindar,  heiðarbrúnir,  fylgja él,

fellur snælín  að fræi og rót,  -  lifir líf.  

 Ég endurtek þakkir fyrir boðið hingað og hlakka til samstarfsins við ykkur. Megi heill fylgja ykkar í mikilvægum störfum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira