Hoppa yfir valmynd
30. mars 2015 Forsætisráðuneytið

60% tilkynna ekki verðhækkanir

  • Um helmingur innlendra samninga og aðfanga fyrirtækja beintengd við vísitölu
  • Sjálfvirkar verðbreytingar vegna vísitölutenginga þensluhvetjandi 

Sex af hverjum tíu fyrirtækjum tilkynna viðskiptavinum ekki sérstaklega um verðhækkanir á vöru og þjónustu, samkvæmt könnun sem Capacent hefur gert fyrir stjórnvöld. Sérfræðinga-nefnd á vegum Stjórnarráðsins leggur til, að seljendur verði skyldaðir til að tilkynna verð-hækkanir á samningsbundinni vöru og þjónustu með góðum fyrirvara enda séu sjálfvirkar verðhækkanir oft framkvæmdar án þess að raunverulegur kostnaðarauki búi að baki.

Nefndin bendir á, að sjálfvirkar verðhækkanir sem réttlættar eru með vísitöluhækkun kyndi undir verðbólgu. Þannig geti orðið til spírall verðhækkana, þar sem orsakasamband milli vísitölu og verðhækkana sé gagnkvæmt. Slíkt hafi áhrif til hækkunar á verðtryggðum skuldum, sem bitni á lántakendum. 

Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum benti á þetta í skýrslu sinni til forsætisráðherra í janúar 2014. Í kjölfarið skipaði forsætisráðherra nefnd með þátttöku annarra ráðuneyta og aðila vinnumarkaðarins til að kanna umfang sjálfvirkra verðbreytinga. Nefndin hefur nú skilað forsætisráðherra skýrslu sinni og tillögum, sem hann kynnti í ríkisstjórn í morgun.  

Í skýrslunni kemur fram að um helmingur innlendra samninga og aðfanga fyrirtækja séu beintengd við vísitölu neysluverðs. Það sé verðbólguhvetjandi, þar sem einn undirliður í vísitölu geti valdið hækkunum á algjörlega óskyldri þjónustu eða vöru. Nefndin mælir með því, að sett verði skilyrði fyrir verðbreytingum í samningssamböndum sem tryggi upplýsingaskyldu seljanda, takmarki binditíma og auki þannig neytendavernd.

Skýrsl sérfræðingahópsins, Sjálfvirkar verðbreytingar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira