Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2015 Matvælaráðuneytið

Veiðigjöld skila hærri tekjum og tímabundnar aflahlutdeildir í makríl

Löndur
Löndur

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi tvö frumvörp sem lúta annars vegar að veiðigjöldum og hins vegar makríl. Í veiðigjaldafrumvarpinu er m.a. lagt til að álagningu veiðigjalda verði breytt þannig að þau verði innheimt mánaðarlega og taki mið af lönduðum afla í stað þess að leggjast á úthlutaðan afla í upphafi fiskveiðiárs. Í makrílfrumvarpinu er m.a. lagt til að makrílveiðum verði stýrt á grundvelli tímabundinna aflahlutdeilda til sex ára.

Áætlað er að álögð veiðigjöld verði um 10,9 milljarðar á næsta fiskveiðiári.  Gert er ráð fyrir óbreyttri reiknireglu frá síðasta ári við útreikning veiðigjalda til næstu þriggja ára í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012. Í þessu felst að veiðigjaldið skilar um 1,7 milljarða tekjuaukningu frá síðasta ári. Tekjuaukningin samræmist því markmiði sem lagt var upp með við álagningu veiðigjalda yfirstandandi árs; að gjöldin taki mið af breytingum í rekstri útgerðarinnar hverju sinni. Þannig aukast tekjur ríkissjóðs þegar vel gengur í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja en lækka þegar verr árar án þess þó að reiknigrunni gjaldanna sé breytt.

Veiðigjald verður nú eitt gjald í stað tveggja sundurliðaðra gjalda áður. Því verður áfram dreift með svonefndum afkomuígildum fisktegunda. Stuðlarnir reiknast árlega og taka mið af útreikningum byggðum á tekjum og kostnaði við útgerð hverrar fisktegundar. Með frumvarpinu er lagt til að álagningu veiðigjalda verði breytt þannig að þau verði innheimt mánaðarlega og taki mið af lönduðum afla í stað þess að leggjast á úthlutaðan afla í upphafi fiskveiðiárs.  Með þessu taka afslættir veiðigjalda nokkrum breytingum, annars vegar grunnafsláttur gjaldanna og hins vegar s.k. skuldaafsláttur. Afslættirnir, reiknaðir sem hlutfall af gjaldtökunni, eru nokkuð sambærilegir við síðast liðin ár.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um breytta gagnasöfnun. Mikilvægt er að bæta þau gögn sem lögð eru til grundvallar veiðigjaldaútreikningum þannig að gjöldin taki meira mið af aðstæðum sem næst í tíma. Í því skyni er gerð tillaga að ákvæði um sérstök skýrsluskil til Ríkisskattstjóra vegna útgerðar. Auk þess er með frumvarpinu lagt til að tekið verði upp veiðigjald á hvalveiðar.

Frumvarp um hlutdeildarsetningu makrílstofnsins

Samhliða leggur sjávarútvegsráðherra fram frumvarp um hlutdeildarsetningu makrílstofnsins.  Lagt er til að veiðum á Austur-Atlantshafsmakríl verði stýrt á grundvelli tímabundinna aflahlutdeilda til sex ára. Til að stuðla að ákveðnum fyrirsjáanleika í veiðunum er kveðið á um að úthlutun aflahlutdeildar gildi í sex ár og verði ekki felld niður að hluta eða öllu leyti nema með minnst sex ára fyrirvara og framlengist hún því um ár í senn sé ekki kveðið á um breytingar. Það að hlutdeildasetja makríl er í samræmi við ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinar þar sem segir m.a. að grundvöllur fiskveiðistjórnunar verði áfram aflamarkskerfi og að samningsbundin réttindi taki við að varanlegri úthlutun.

Verði frumvarpið að lögum munu aflahlutdeildirnar skiptast á eftirfarandi hátt:

  • 5% verður úthlutað á grundvelli veiðireynslu til þeirra sem stunduðu veiðar á línu og handfæri á árunum 2009-2014. 43% aukið vægi verður á þá veiðireynslu sem fengin er á árunum 2009-2012 þar sem sannarlega var verið þróa veiðitækni og veiðarfæri sem þeir sem á eftir komu nutu góðs af.
  • 95% koma til annarra skipa. Þar af verður 90% úthlutað á grundvelli veiðireynslu á árunum 2011-2014. 5% verður til umsókna sem viðbótaraflahlutdeild til þeirra skipa sem lönduðu afla til manneldisvinnslu á árunum 2009-2010 en stjórnvöld hvöttu á þeim tíma eindregið til ábyrgrar umgengni og manneldisvinnslu á makríl.

Í frumvarpinu um veiðigjöld er lagt til sérstakt álagsgjald á veiðigjald í makríl, 10 kr. á landað kg. Það ákvæði muni gilda til sex ára. Gjaldið er sérstakt endurgjald fyrir úthlutun aflahlutdeildarinnar. Tekjur af þessu gjaldi eru áætlaðar rúmar 1.477 milljarðar á ári sem koma til viðbótar þeim veiðigjöldum sem fjallað er um að framan.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum