Mál nr. 9/2015: Dómur frá 6. apríl 2015
Ár 2015, mánudaginn 6. apríl, er í Félagsdómi í málinu nr. 9/2015
Félag íslenskra náttúrufræðinga
(Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Anton Björn Markússon hrl.)
kveðinn upp svofelldur
d ó m u r:
Mál þetta var dómtekið 31. mars 2015.
Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Elín Blöndal og Sonja María Hreiðarsdóttir.
Stefnandi er Félag íslenskra náttúrufræðinga, Borgartúni 6, Reykjavík
Stefndi er fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs, Arnahvoli við Lindargötu, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi krefst þess að eftirtaldar stöður verði felldar út af skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild og birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70, hinn 29. janúar 2015:
Stofnun Starfsheiti Fjöldi starfa
LSH – Lyflækningasvið/
Rannsóknarstofa í taugalífeðlisfræði Náttúrufræðingur í dagvinnu 1
LSH – Rannsóknarsvið/
Frumulíffræði Náttúrufræðingur í dagvinnu 1
LSH – Rannsóknarsvið/
Ónæmisfræðideild Náttúrufræðingur á bakvakt 1
LSH – Aðgerðasvið/Blóðbankinn,
þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnsla Deildarstjóri í dagvinnu 1
Veðurstofa Íslands/Snjóflóðavakt Snjóflóðasérfræðingur 1
Veðurstofa Íslands/Vatnsvárvakt Fagstjóri 1
Veðurstofa Íslands/Jarðvárvakt Jarðvársérfræðingur 1
Tilraunastöð Háskólans á Keldum
Bóluefnaframleiðsla/ætagerð Líffræðingur 1
Þá er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati Félagsdóms.
Dómkröfur stefnda
Stefndi krefst þess að skrá yfir þau störf hjá stofnunum hans, sem undanþegin eru verkfallsheimild, og birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70/2015, 16. janúar 2015, haldist óbreytt að öðru leyti en því að starf sem tilgreint er svo í stefnu: „LSH – Lyflækningasvið/Rannsóknarstofa í taugalífeðlisfræði. Náttúrfræðingur í dagvinnu“ verði fellt brott.
Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati Félagsdóms.
Málavextir
Verkfallsheimild opinberra starfsmanna sætir ákveðnum takmörkunum samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Í 19. gr. laganna segir að heimild til verkfalls nái ekki til nokkurra hópa starfsmanna og eru þeir taldir í 8 liðum. Í 5. tl. kemur fram að verkfallsheimild nái ekki til þeirra „sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu“. Þá kemur fram í 2. mgr. 19. gr. að fyrir 1. febrúar ár hvert skuli ráðherra og sveitarfélög, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta skrár um störf þau sem falla undir ákvæði nefnds 5. tl. Segir að ný skrá taki gildi 15. febrúar næst eftir birtingu. Sé ný skrá ekki birt samkvæmt þessu framlengist síðast gildandi skrá um eitt ár. Þá segir að andmæli gegn breytingum á skrám skuli borin fram fyrir 1. mars sama ár og skuli ágreiningur um breytingar lagður fyrir Félagsdóm sem skeri úr honum til fullnustu.
Hinn 17. janúar sl. var birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing nr. 70/2015, dagsett 16. sama mánaðar, um skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild samkvæmt 5.-8. tl., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Á þeim lista eru störf þau sem dómkröfur stefnanda lúta að. Skyldi skráin taka gildi 15. febrúar 2015.
Stefndi sendi stefnanda tölvupóst 5. desember 2014 þar sem tilkynnt var að auglýst yrði ný skrá um störf, sem féllu undir ákvæði 5. tl. 19. gr. laga nr. 94/1986. Sagði þar jafnframt að aflað hefði verið tillagna frá stjórnendum stofnana um breytingar á síðustu auglýsingu sem birt hefði verið í B-deild Stjórnartíðinda nr. 101/2014. Fylgdi tölvupóstinum listi yfir störfin og var þess óskað að athugasemdum vegna hans bærust stefnanda eigi síðar en 12. sama mánaðar. Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi óskað eftir fundi með stefnda um tillögurnar en í greinargerð stefnda kemur hins vegar fram að ekkert svar hafi borist frá stefnda. Með tölvupósti stefnda, dagsettum 7. janúar 2015, var stefnanda gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna framangreinds lista. Fundur var haldinn um tillögur stefnda hinn 13. sama mánaðar þar sem stefnandi gerði athugasemdir við listann. Skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild var birt í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70/2015 hinn 29. janúar 2015. Með bréfi, dagsettu 26. febrúar sl., gerði stefnandi grein fyrir því, hvaða störf hann teldi að veita mætti undanþágu frá verkfalli fyrir og hver ekki. Áskildi félagið sér rétt til að leggja ágreining um þau störf sem hér um ræðir fyrir Félagsdóm.
Stefndi svaraði andmælum stefnanda með bréfi, dagsettu 17. mars, þar sem gerð var grein fyrir þeirri afstöðu stefnda að samráðsskylda samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 hefði verið uppfyllt við gerð framangreindrar skrár. Þessu vildi stefnandi ekki una og með bréfi, dagsettu 20. mars sl., tilkynnti hann stefnda um boðun tímabundins verkfalls frá fimmtudeginum 9. apríl nk. og standa skyldi frá kl. 12:00–16:00, hefðu samningar ekki náðst fyrir þann tíma.
Í greinargerð stefnda er vakin athygli á því að vegna þess að engin viðbrögð hafi borist við tilkynningu stefnda frá 5. desember 2014 fyrr en í kjölfar tölvupósts stefnda til stefnanda 7. janúar 2015 hafi stefndi verið kominn í mikla tímaþröng varðandi undaþágulistann. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 sé stefnda skylt að birta listann fyrir 1. febrúar ár hvert og fyrir liggi að Stjórnartíðindi hafi að lágmarki 10 virka daga til að birta mál. Í ár hafi 1. febrúar borið upp á sunnudag og þar sem birta hafi þurft listann fyrir 1. febrúar hafi síðasti mögulegi birtingardagur verið föstudagurinn 30. janúar. Síðasti mögulegi skiladagur til Stjórnartíðinda miðað við framangreind fyrirmæli hafi verið 15. janúar sl.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Ína Björg Hjálmarsdóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga, Theodór Freyr Hervarsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs Veðurstofu Íslands, Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala háskólasjúkrahúss, Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, og Eggert Gunnarsson, dýralæknir og sérfræðingur á tilraunastöð Háskólans á Keldum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður mál þetta eiga undir Félagsdóm samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, sbr. 2. mgr. 19. gr. sömu laga, en ágreiningur máls þessa lúti að því hvort stefnda hafi verið heimilt að tilgreina einhliða umþrætt störf á skrá yfir þau störf sem vinna ber í verkfalli samkvæmt 19. gr. laganna.
Stefnandi bendir á að stéttarfélögum, sem eru samningsaðilar samkvæmt lögum nr. 94/1986, sé heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, sbr. 14. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. sömu laga nái verkfall til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi. Ákvæði 14. gr. hafi þannig að geyma meginreglu um verkfallsrétt félagsmanna stefnanda til að knýja á um gerð kjarasamnings og beri að skýra allar undantekningar frá þeirri meginreglu þröngt.
Tilgangur vinnustöðvana sé að knýja samningsaðila til samningsgerðar og til þess að vinna að framgangi krafna í kjaradeilum. Í þessu samhengi beri að líta til þess að verkfallsrétturinn sé óaðskiljanlegur hluti samningsréttar stéttarfélaga og njóti sérstakar verndar í stjórnarskrá, í 1. mgr. 74. gr. og 2. mgr. 75. gr., sbr. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994, auk alþjóðasamþykkta sem Ísland eigi aðild að. Undantekningar á heimildum til að gera verkfall verði því að samræmast þeim sjónarmiðum sem leggja ber til grundvallar mati á því hvort farið er gegn 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig byggir stefnandi á því að til þess að heimilt sé að skylda starfsmann til að vinna í verkfalli, þurfi til að koma lögmælt fyrirmæli sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Séu undantekningar á verkfallsrétti of rúmar sé hætta á að sá tilgangur verkfalls að knýja á um lok vinnudeilu ónýtist og verkföll dragist úr hófi. Það sé því beggja hagur að verkföll standi ævinlega sem styst og m.a. í þeim tilgangi megi undantekningar á rétti til verkfalla ekki vera svo rúmar að unnt sé að halda uppi starfsemi með lágmarksmönnun von úr viti.
Stefnandi vísar til þess að í 19. gr. laga nr. 94/1986 sé að finna lögbundna undantekningu frá fyrrgreindri meginreglu 14. gr. sömu laga en þar sé í átta töluliðum talið upp hvaða starfsmenn/störf séu undanþegin þeim grundvallarrétti starfsmanna að gera verkfall. Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 19. gr. sé þeim, sem starfa við „nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu“ óheimilt að gera verkfall. Þannig sé í lagaheimild 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 gert ráð fyrir því að skilyrði 2. mgr. 11. gr. MSE séu uppfyllt hverju sinni. Stefndi hafi hins vegar ekki sýnt fram á að svo sé í reynd í þeim tilvikum sem hér um ræðir.
Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að líta beri á heimild 1. mgr. 19. gr. sem algera undantekningu sem beri að skýra þröngt, enda í samræmi við dóma Félagsdóms þar sem á hana hafi reynt, sbr. t.d. dóma í málum nr. 3/1992 og nr. 9/2013. Það nægi því ekki að viðkomandi störf séu „nauðsynleg“ heldur verði þau að vera „nauðsynlegust“ á sviði öryggis- og heilbrigðisþjónustu til þess að heimilt sé að undanskilja þau verkfallsheimild. Um þá nauðsyn hverju sinni beri stefndi sönnunarbyrði.
Að mati stefnanda sé ekkert samhengi milli þessarar lögbundu undantekningar í 19. gr. og þess að í lögum nr. 94/1986 er ekki að finna heimild fyrir ríkið til að beita verkbanni. Ályktun stefnda í þessum efnum eigi ekki við rök að styðjast, enda séu tilgangur verkbanns og undanþága frá verkfalli í eðli sínu gerólíkar heimildir. Verkbann sé tæki í hendi atvinnurekanda til að knýja á um að verkfalli ljúki sem fyrst. Undanþágurnar byggi á hinn bóginn á þeirri grundvallarskyldu stefnda sem ríkisvalds að tryggja brýnustu grunnþjónustu samfélagsins til að sinnt sé nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Heimildir þessar séu því algerlega óviðkomandi hvor annarri.
Stefndi hafi í engu fært fyrir því sérstök rök að umrædd störf varði „nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu“, eins og áskilið sé í undantekningarákvæði 5. tl. 19. gr. laga nr. 94/1986. Byggir stefnandi á því að það standi upp á stefnda að sýna fram á það með efnislegum rökum að brýnustu nauðsyn beri til þess að umþrætt störf verði unnin ef til verkfalls kemur. Það hafi stefndi ekki gert og hafi engin rök verið færð fram af hans hálfu hvers vegna þessi störf skuli nú vera á undanþágulista þótt ekki hafi verið talin þörf á því áður.
Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi hvorki lagt fram skrifleg gögn né gert grein fyrir þeirri brýnu nauðsyn sem standi til þess að umþrætt störf verði unnin í verkfalli. Þá liggi fyrir að þau störf, sem hér um ræðir, hafi ekki áður verið tilgreind á sambærilegum skrám, utan starf fagstjóra á Vatnsvárvakt Veðurstofu Íslands, eins og framlögð gögn beri með sér. Sú staðreynd feli þó ekki í sér viðurkenningu stefnanda á því að nauðsyn beri til þess að hið tiltekna starf verði unnið á verkfallstíma.
Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi ekki áður talið þessi störf vera hin nauðsynlegustu í þeim skilningi sem hér um ræðir, þegar og ef til verkfalla komi. Af þessari ástæðu hefði stefnda verið rétt og skylt að færa fram sérstök rök er varða hvert og eitt starf og nauðsyn þess að það verði nú unnið. Sinnaskipti ein og sér séu ekki fullnægjandi. Engin slík rök hafi þó verið færð fyrir því af hálfu stefnda og af þeim sökum sé stefnanda ómögulegt að fallast á að þau verði unnin, enda allar undanþágur til þess fallnar að draga verkfall á langinn, öllum málsaðilum til tjóns. Með þessu sé stefndi aðeins að tryggja betri mönnun á verkfallstíma svo starfsemi hans riðlist síður. Við það verði ekki unað, enda fari það gegn tilgangi 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986.
Jafnframt byggir stefnandi á því að ekki hafi í reynd verið samráð um það, hvaða störf skyldu undanþæg verkfallsheimild, eins og skylt sé samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 og staðfest hafi verið í dómum Félagsdóms, t.d. í máli nr. 12/1994 frá 15. nóvember sama ár. Hér hafi í reynd verið um að ræða einhliða ákvörðun stefnda þar sem ekki hafi verið færð rök fyrir nauðsyn þessa né tekið tillit til sjónarmiða stefnanda. Lögboðið samráð sé þannig einungis í ásýnd en ekki í reynd og í raun til málamynda.
Stefnandi kveðst hafa komið til móts við kröfur stefnda og fært rök fyrir því hvers vegna hann telji ekki þörf á að skerða rétt félagsmanna sinna með þeim hætti sem stefndi hafi kosið að gera með birtingu auglýsingarinnar. Þrátt fyrir það hafi stefndi hvorki tekið undir röksemdir stefnanda í þessu efni né komið með sérstök rök fyrir þeirri mönnun sem hann einhliða ákvað að birta í janúar sl.
Stefnandi byggir á því að með samráði í skilningi 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sé átt við að samkomulag hafi náðst með aðilum áður en listinn sé birtur. Hafi það ekki náðst, geti aðilar lagt ágreining um einstakar breytingar fyrir Félagsdóm til úrskurðar. Byggir stefnandi á því að samkvæmt lögunum hefði stefndi átt að hefjast handa mun fyrr en raun ber vitni þannig að ráðrúm gæfist fyrir aðila til þess að ná samkomulagi og sátt um skrána eða leita úrskurðar Félagsdóms í tíma. Þannig hafi stefndi hins vegar ekki staðið að málum, enda líti hann svo á að ákvörðunarvald hans í þessum efnum sé ígildi verkbannsréttar atvinnurekanda endranær en það eigi ekki við rök að styðjast.
Þá byggir stefnandi einnig á því sérstaklega að stefndi hafi ekki tilgreint með nægilega skýrum hætti hvaða starfsmenn skuli vinna þau störf sem vinna ber samkvæmt skránni og að samkomulag um það sé eðlilegur hluti þess samráðs sem skylt sé að viðhafa við gerð undanþágulistans. Þannig verði ekki ráðið af skránni hvaða félagsmaður eða félagsmenn stefnanda skuli vinna í verkfallinu þegar svo beri undir að fækkun verði meðal starfsmanna. Sú staðreynd leiði til þess að markmiði skrárinnar verði ekki náð, þ.e. ekki verði komið í veg fyrir ágreining um það hverjir skuli vinna í verkfalli. Af þessum sökum sé ljóst að samskipti stefnda við stefndanda í aðdraganda birtingarinnar hafi ekki verið í samræmi við áskilnað 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986. Stefnda beri að tilgreina nákvæmlega hvaða störf skuli unnin og tilgreina hvaða starfsmenn skuli vinna á hverri vakt eða hverju sinni. Ekki verði ráðið af skrá þeirri, sem birt hafi verið, hvaða starfsmenn skuli vinna og því sé með öllu óljóst hverjir úr hópi félagsmanna stefnanda hér eigi í hlut. Þá liggi ekkert fyrir um það, með hvaða hætti ákvörðun um þetta efni skuli tekin ef og þegar til verkfalls komi. Sem fyrr segi sé hér um að ræða grundvallarmannréttindi sem ekki verði skert nema með þeim skilyrðum sem lög áskilja. Af þeirri ástæðu verði að gera þá kröfu að stefndi færi málefnaleg og hlutlæg rök fyrir nauðsyn þess í hverju einstöku tilviki að verkfallsréttur félagsmanna stefnanda verði skertur og þá hvaða starfsmanna.
Þá byggir stefnandi á því að ekki sé nauðsynlegt að þessi störf séu unnin í verkfalli þar sem úrræði 20. gr. laga 94/1986 um ad hoc ákvörðun sameiginlegrar nefndar, (undanþágunefndar), sbr. 21. gr., sé beinlínis til þess fallið að unnt sé að gæta meðalhófs við beitingu ákvæðis 19. gr. Vegna þessa sé að mati stefnanda óþarft og í raun óheimilt að hafa við störf í verkfalli fleiri en þá sem brýnasta nauðsyn krefst á hverjum stað og tíma, þar sem heimilt sé að kalla til fleiri til starfa til að afstýra neyðarástandi, sbr. 21. gr.
Með því að undanþiggja öll framangreind störf frá verkfallsheimild 14. gr. laga 94/1986 telur stefnandi brotið gegn meðalhófsreglu, enda sé unnt að kalla saman téða nefnd komi upp tilvik sem bregðast verði við með því að kalla menn úr verkfalli til starfa. Tilgreining stefnda á störfum sem undanþegin skulu verkfalli er að mati stefnanda aðeins til þess fallin að verkfall, ef til þess kemur, dragist á langinn, missi þannig marks og verði báðum samningsaðilum til tjóns.
Loks byggir stefnandi á því að þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki látið reyna á ágreining um skrá, sem birt var á liðnu ári, fyrir Félagsdómi breyti það engu um rétt stefnanda til þess að láta nú reyna á ágreining þennan. Um heimild stefnanda er byggt á 2. mgr. 19. gr. laga 94/1986 sem túlka beri með þeim hætti að stefnandi eigi árlega rétt til þess að bera fram andmæli við birtri skrá og skipti þá ekki máli í því sambandi hvort stefnandi hafi hreyft andmælum við auglýsingum fyrri ára. Um þennan skilning á ákvæðinu vísar stefnandi til dóms Félagsdóms í máli nr. 3/1995, dómasafn Fd. X bindi, bls. 451.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sérstaklega 74. og 75. gr., 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og varðandi málskostnað á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að gengið hafi verið afar langt í því að koma til móts við óskir stefnanda varðandi umræddan undanþágulista. Ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 feli í sér að samráð skuli haft við viðkomandi stéttarfélög um slíkan lista en í ákvæðinu felist ekki að aðilar þurfi að vera sammála eða að stéttarfélögin veiti samþykki sitt fyrir því að ákveðin störf skuli vera á listanum. Í samráðsferlinu sé stéttarfélögum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum og sjónarmiðum. Stefndi bregðist við þeim athugasemdum og afli sér eftir atvikum nánari upplýsinga frá stofnunum og stéttarfélögum. Endanleg ákvörðun sé tekin af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og sú ákvörðun birtist í umræddum lista. Í ljósi þess að ríkið hafi ekki verkbannsrétt, sé úrræði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 til þess fallið að veita ríkinu rétt til að ákvarða, að undangengnu samráði, hvaða störf skuli undanþegin verkfallsheimild. Þannig geti ríkið haldið uppi þeirri lögbundnu starfsemi, sem því sé falið að sinna hverju sinni og tryggt nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu, sbr. 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986.
Á hverju ári sé sendur til stefnanda listi með þeim störfum, sem standi til að birta samkvæmt 19. gr. laga nr. 94/1986. Á hverju ári séu gerðar breytingar vegna þess að skipulags- eða nafnabreytingar á störfum eigi sér stað og stofnanir endurmeti jafnframt á hverju ári hvernig nauðsynlegasta þjónusta er veitt hverju sinni, allt eftir því hvernig starfsemi viðkomandi stofnunar er breytt. Þetta sé árlegur viðburður og þótt listinn sé ekki eins á hverju ári, teljist ekki vera um grundvallarbreytingar að ræða.
Á listanum séu störf sem teljist til nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu og öryggisþjónustu en fjöldi starfa og hver þau séu byggi á mati starfsmanna viðkomandi stofnana sem ábyrgð beri á að nauðsynlegasta þjónusta sé veitt. Þá sé jafnframt tekið mið af umfangi viðkomandi starfsemi en undanfarið hafi borið meira á röksemdum sem lúta að aukinni umönnunarþyngd og meiri krafna um öryggi.
Stefndi telur umfjöllun í stefnu um það, hvaða störf falli undir „nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu“ samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laganna í engu samræmi við það sem fram komi í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 94/1986 en þar segi m.a.:
„Í 3. tölul. er kveðið á um að þeim sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu skuli eigi heimilt að taka þátt í verkfalli. Efnislega er hér hliðstætt ákvæði og nú er í lögum um kjarasamninga BSRB en í stað þess, að í þeim lögum var sérstakri nefnd, kjaradeilunefnd, falið að úrskurða hverjir skyldu starfa á grundvelli þessa ákvæðis, er hér farin sú leið að birtur verður árlega listi um störf þessi sem byggður er á samkomulagi aðila. […] Tilgangurinn með þessari breytingu er sá að losna við þær deilur sem snerust um störf þeirrar nefndar í síðasta verkfalli og ætla má að erfitt sé að útiloka að upp komi ef slík nefnd er að störfum þegar verkfall er skollið á. […] Fylgiskjal með frumvarpinu er listi um þau störf sem aðilar eru sammála um að eigi að skipa slíka skrá. Skrám þessum er síðan ætlað að vera fyrirmynd að hliðstæðum listum sem ekki hefur unnist tími til að fullgera. […] Með samkomulagi aðila um stefnumarkandi skrár og samráð er dregið úr hættu á ágreiningi um viðkvæm og vandasöm mál.“
Í meðförum þingsins hafi verið gerðar tilteknar breytingar á 19. gr. laganna, eins og þær birtust í upphaflegu frumvarpi og þegar það var endanlega samþykkt. Samkvæmt endanlegum texta ákvæðisins hafi ekki lengur verið gert ráð fyrir samvinnu, svo sem gert var í upphaflega textanum, heldur einungis mælt fyrir um að tiltekið samráð skyldi viðhaft við ákvörðun ráðherra um hvaða störf skyldu vera á listanum. Endanleg ákvörðun væri því ráðherra og var ekki gert ráð fyrir að samkomulag þyrfti að nást um þau störf sem sett voru á listann.
Að mati stefnda sé málsástæða stefnanda um brot stefnda á meðalhófi haldlaus. Mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu að skýra beri allar undantekningar, sem takmarki heimild til verkfalls samkvæmt 14. gr. laga 94/1986, þröngt. Í ákvæðinu segi m.a.:
„Stéttarfélagi sem er samningsaðili samkvæmt lögum þessum, er heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum þessum“.
Ákvæðið geri þannig ráð fyrir því, að stéttarfélögum sé veitt takmörkuð verkfallsheimild. Eina þeirra takmarkana sé að finna í 19. grein laganna en þar sé regla sem segi til um til hverra verkfall taki ekki ef til þess sé boðað með lögmætum hætti. Þar er tiltekið með hvaða hætti skuli tilgreina og birta þau störf sem ekki er heimilt að leggja niður í verkfalli. Við túlkun ákvæðisins verði að leggja til grundvallar að ríkinu sé ætlað að sinna tilteknum grundvallarverkefnum sem séu hverju þjóðfélagi nauðsynleg til þess að öryggi borgara, í víðum skilningi, sé ekki stefnt í voða. Því verði ekki beitt þrengjandi lögskýringu á þetta sjálfstæða ákvæði laganna um það hvaða störf unnt sé að undanþiggja verkfalli, enda væri með því skertur réttur almennings til þess að njóta þess lögboðna öryggis sem ríkisvaldinu sé ætlað að tryggja. Við matið verði einnig að horfa til þess að af hálfu stefnda hafi verið litið svo á að það hafi ekki gert kröfu til þess að því sé tryggður verkbannsréttur eins og öðrum vinnuveitendum, sem í vinnuréttarfræðum sé talinn sambærilegur verkfallsrétti, heldur komi réttur þess til að takmarka hvaða störf falli undir verkfallsheimild 14. gr. laganna að hluta til í stað hans. Um sé að ræða nauðsynlegt verkfæri fyrir ríkið til að tryggja mikilsverða almannahagsmuni, þ.e. öryggi borgaranna þegar þeir eru hvað viðkvæmastir fyrir. Stefndi geti þannig takmarkað það tjón, sem verkfalli sé ætlað að valda, þótt það sé útfært með öðrum hætti en hjá öðrum vinnuveitendum sem geti gripið til verkbanns til að takmarka það tjón sem verkfall afmarkaðra hópa gæti annars valdið þeim.
Stefndi áréttar að í ákvæði 19. gr. laga nr. 94/1986 sé skýrlega fjallað um störf en ekki starfsmenn. Megintilgangur þess sé að tryggja ákveðna starfsemi og að tilteknum störfum sé sinnt en ekki að kveða á um hvaða starfsmenn skuli undanþegnir verkfallsheimild. Eigi þetta sérstaklega við þar sem vaktafyrirkomulag sé við lýði.
Stefndi bendir á að undanþágulista verði að skoða heildstætt en að meta skuli með afmörkuðum hætti og út frá einstaka stéttarfélögum hvaða störf eigi að vera á lista, gangi heildstæð skoðun ekki eftir. Störf á listanum hafi í langflestum tilvikum áhrif á önnur störf og séu hluti af tiltekinni keðju sem verði að vera órofin þegar tiltekin þjónusta sé veitt. Verkfall einnar stéttar hafi þannig veruleg áhrif á störf annarra stétta sem ekki séu í verkfalli og geti þannig komið í veg fyrir, eða haft veruleg áhrif á, að nauðsynlegasta þjónusta sé veitt og þá með hvaða hætti. Þá gangi sú röksemd ekki upp að önnur starfsstétt geti sinnt þeim störfum sem um sé deilt komi til verkfalls, enda geti sú starfsstétt einnig boðað til verkfalls. Því sé afar mikilvægt að undanþágulistinn tryggi ákveðna lágmarksþjónustu sem sé nauðsynlegust komi til allsherjarverkfalls. Stefndi leggi því til grundvallar tiltekið heildarmat á öllum þeim störfum sem undir séu hverju sinni og hafa tiltekna snertifleti.
Vegna fullyrðingar í stefnu um að úrræði 20. gr. laganna séu nægileg, vísar stefndi til þess sem segir í fyrrnefndri greinargerð með frumvarpinu um þann ágreining sem ríkt hefði um störf kjaradeilunefndar. Reynsla ríkisins af störfum nefnda á grundvelli 20. gr. sé sú að fulltrúar stéttarfélaga telji sjaldan ástæðu til að veita undanþágu og því sé oft verulegur ágreiningur í störfum slíkra nefnda með sama hætti og verið hafi um störf kjaradeilunefndar. Hér verði jafnframt að líta til þess sem segi í greinargerð með lögunum en orðrétt segi þar:
„Þrátt fyrir þær undantekningar frá verkfalli, sem byggjast á 3. tölul. 19. gr., má gera ráð fyrir að í verkfalli geti komið upp þær aðstæður sem kalli á víðtækari undanþágu. Í þeim tilgangi að bregðast við slíkum aðstæðum er í 20. gr. ákvæði um heimild til þess að kalla starfsmenn til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi. Ekki þótti rétt að freista þess að skilgreina það nánar í lögum þessum. Undir það falla m.a. viðgerðir og viðhald á fjarskiptakerfum og veitukerfum, búnaði lögreglu- og sjúkrastofnana, svo og birgðadreifing til þeirra aðila sem eiga að halda uppi störfum samkvæmt 3. tölul. 19. gr. Mat nefndar skv. 21. gr. er endanlegt“.
Að því er varðar röksemdafærslu varðandi einstök störf á umræddum undanþágulistum, sem byggist á upplýsingum og röksemdum viðkomandi stofnana, tekur stefndi fram eftirfarandi:
-
LSH – Lyflækningasvið/Rannsóknarstofa í taugalífeðlisfræði. Náttúrufræðingur í dagvinnu.
Í janúar sl. hafi Landspítali fengið áframsendar athugasemdir frá stefnanda varðandi náttúrufræðing í dagvinnu á rannsóknarstofu í taugalífeðlisfræði á undanþágulista. Í ljós hafi komið að mistök höfðu átt sér stað og að náttúrufræðingur átti ekki að vera á undanþágulista á þessari einingu en um var að ræða SFR-starf. Upplýsingarnar hefðu verið sendar stefnda eftir hádegi 16. janúar 2015 þegar búið var að senda undanþágulistann til birtingar í Stjórnartíðindum. Því hafi hvorki verið unnt að gera viðeigandi breytingar á listanum né bera starfið undir SFR. Þá hafi stefnandi ekki gert athugasemdir við umrætt starf fyrr en 13. janúar sl., þ.e. tveimur dögum áður en senda átti undanþágulistann til birtingar. Fallist stefndi því á dómkröfur stefnanda hvað umrætt starf varðar.
-
LSH – Rannsóknarsvið/Frumulíffræði. Náttúrufræðingur í dagvinnu.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum sinni náttúrufræðingar á frumulíffræði m.a. stökkbreytigreiningum á krabbameinum. Byggi krabbameinsmeðferðir á því að þessi rannsókn fari fram en það sé lífsbjargandi fyrir viðkomandi sjúklinga að slík meðferð geti farið fram án tafar. Á rannsóknarstofu í frumulíffræði starfi sex starfsmenn sem allir séu náttúrufræðingar. Ef til verkfalls komi og enginn náttúrufræðingur sé á undanþágulista væri rannsóknarstofan lokuð. Enginn væri til staðar til að hafa samband við í neyð, taka við beiðnum og meta mikilvægi úrvinnslu þeirra. Flestar beiðnir, sem berist rannsóknarstofunni, séu með allt að þriggja vikna svarfrest. Dragist verkfall hins vegar á langinn, sé mikilvægt að unnt sé að vinna úr þessum beiðnum. Þá sinni rannsóknarstofan einnig bráðabeiðnum, meðal annars eftirtöldum beiðnum:
-
Frá skurðlækni sem hyggist skera burt æxli úr sjúklingi greindum með krabbamein í brjósti og sjúklingurinn tilheyrir fjölskyldu þar sem tíðni meinsins sé há og grunur um svokallaðar BRCA-stökkbreytigreiningar. Læknir þurfi að fá úr því skorið fyrir skurðaðgerð hvort sjúklingurinn beri BRCA-breytingu og hafi niðurstaðan þýðingu við mat á því, hversu umfangsmikil skurðaðgerðin þurfi að vera.
-
Frá krabbameinslækni sem þurfi að taka ákvörðun um meðferð á sjúklingum, sem áður hafi verið greindir með sortuæxli, krabbamein í lunga eða ristli og hann þurfi upplýsingar um stökkbreytingar í ákveðnum genum sem segi til um, hvort sjúklingarnir muni hafa gagn af ákveðnum líftæknilyfjum.
-
Frá meinafræðingi um einstofna próf á vefjasýni úr meinsemd sem grunur leiki á að sé eitlakrabbamein. Niðurstöðurnar nýtist meinafræðingnum við greiningu sjúkdómsins sem sé forsenda ákvörðunar krabbameinslæknis um meðferð sjúklings.
-
LSH – Ónæmisfræðideild. Náttúrufræðingur á bakvakt.
Um sé að ræða vakt náttúrufræðings sem sjái um þjónusturannsóknir er snúa að virkniprófi hvítfruma og flæðifrumusjárgreiningu. Rannsóknirnar séu gerðar til greiningar og eftirlits fjölmargra alvarlegra sjúkdóma, meðal annars á meðfæddum og áunnum ónæmisgalla, greiningu og meðferð HIV-sýktra, ýmissa sjálfsofnæmis- og gigtarsjúkdóma, hvítblæðis, eftirfylgni eftir mergskipti og líffæragjafa o.fl. Sé um gríðarlega mikilvægar rannsóknir að ræða sem í mörgum tilvikum séu sjúkdómsgreinandi eða lífsnauðsynlegar við mat á bráðatilvikum. Rannsóknirnar séu mjög sérhæfðar og eingöngu á færi sérfræðinga með mikla þjálfun í þeirri aðferðarfræði sem um ræðir. Um sé að ræða nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu, enda sé það forgangsmál að viðhöfð sé bakvakt náttúrufræðings til að gera framangreindar rannsóknir og þar með tryggja öryggi sjúklinga.
-
LSH – Aðgerðarsvið/Blóðbankinn þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnsla. Deildarstjóri í dagvinnu.
Í þjónusturannsóknum og blóðhlutavinnslu starfi tveir deildarstjórar/forstöðumenn. Yfirlæknir blóðbankans telji nauðsynlegt að annar þeirra sé til staðar í verkfalli til að tryggja verkstjórn, framgang verkefna, forgangsröðun og til að bregðast við óvæntum atvikum. Á síðustu árum hafi alltaf verið tryggt að annar þessara tveggja forstöðumanna/deildarstjóra sé til staðar á dagvinnutíma allt árið um kring. Á meðan á verkfalli standi sé mun meira álag á starfsemi spítalans, sérstaklega á þeim einingum þar sem er eiginlegt verkfall. Mikilvægi þess að stýra starfseminni sé enn meira en aðra daga þar sem velja þurfi þau verkefni sem þurfi að sinna, meta forgangsröðun o.s.frv. Það sé mat yfirlæknis blóðbankans að til að tryggja öryggi bæði sjúklinga á spítalanum og þeirra sem leita bráðaþjónustu sé nauðsynlegt að hafa fjóra náttúrufræðinga í dagvinnu og einn deildarstjóra til að stýra starfi þeirra. Ekki sé tryggt að aðrar stéttir, svo sem yfirlæknar geti gengið í viðkomandi störf, líkt og stefnandi haldi fram, meðal annars sé viðkomandi stétt á sama tíma í verkfalli.
-
Veðurstofa Íslands/Snjóflóðavakt. Snjóflóðasérfræðingur.
Stefndi bendir á að eitt af hlutverkum Veðurstofu Íslands sé rýming svæða þegar hætta sé á ofanflóðum, sbr. 6. gr. laga nr. 49/1997. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni sé öryggi almennings stefnt í mikla hættu nái hún ekki að sinna lágmarksþjónustu og með lágmarksmannskap, þ.e. vakthafandi snjóflóðasérfræðingi og fagstjóra ofanflóðavakta. Veðurstofan beri einnig samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 49/1997 ábyrgð á því að aflétta hættuástandi. Á undanförnum árum hafi verksvið ofanflóðavaktar aukist til muna vegna ytri krafna, meðal annars vegna stóraukinnar fjallaferðamennsku og vöktun á vegum utan þéttbýlis með tilliti til snjóflóða.
Þegar óvissu- eða hættustig vegna snjóflóða skapist, sé sett á sólarhringsþjónusta þar sem einn starfsmaður sé á vakt hverju sinni. Viðkomandi sinni skilgreindu hlutverki í samræmi við hlutverkalýsingu en í því felist meðal annars samskipti við snjóeftirlitsmenn í héraði, mat á ofanflóðagögnum og stöðugleika snjólaga. Starfsmaðurinn sé hið þjálfaða auga sem fylgist með mælitækjum og öðrum upplýsingum sem nýta megi til að greina vísbendingar um aukna hættu. Á grundvelli þessa mats lýsi Veðurstofan yfir hættuástandi og taki ákvörðun um rýmingar sé þess þörf, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 49/1997.
Fagstjóri, sem áður hafi verið viðurkennt fyrir dómi að sé undaþeginn verkfallsheimild, geti ekki sinnt sólarhringsvöktun við slíkar aðstæður. Þar sem 24 stunda vaktar sé þörf, sé áhættunnar vegna ekki hægt að láta einn starfsmann sinna verkefnum snjóflóðavaktar. Þegar hættuástand skapist séu skjót viðbrögð nauðsynleg til að tryggja öryggi almennings. Fagstjóri ofanflóða sinni við slíkar aðstæður samræmingu aðgerða, samskiptum og upplýsingagjöf við almannavarnir, lögreglustjóra, almannavarnarnefndir viðkomandi svæða og almenning.
-
Veðurstofa Íslands/Vatnsvárvakt. Fagstjóri.
Stefndi vísar til þess að með dómi Félagsdóms í máli nr. 9/2013 hafi verið viðurkennt að verkefni fagstjóra Eftirlits- og spásviðs Veðurstofunnar innan jarð- og ofanflóðavár séu brýn til þess að Veðurstofan geti sinnt öryggishlutverki sínu. Verkefnin séu þess eðlis að ekki sé tryggt að nauðsynlegustu öryggisgæslu verði sinnt ef þeir starfsmenn, sem þeim sinna, leggi niður störf. Fagstjóri vatnavár sinni algjörlega sambærilegu starfi og þar með öryggishlutverki. Hann sinni meðal annars stjórnun vegna viðbragða í aðdraganda og/eða í kjölfar stóratburða vegna vatnavár (jökulhlaup og vatnsflóð) í samráði við framkvæmdastjóra eftirlits- og spásviðs, náttúruvárstjóra og viðeigandi fagstjóra, ásamt almennum störfum við vatnaváreftirlit. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 70/2008 beri Veðurstofu Íslands að vakta, spá fyrir um og gefa út viðvaranir vegna náttúruvár, þar með talið vatnavár. Fyrirvari jökulhlaupa geti verið skammur og í mínútum talinn og því sé mikilvægt að starfsmaður sé til staðar til að vakta og gefa út viðvaranir vegna vatnavár. Sem dæmi sé sértæk vöktun á eldstöðinni í Bárðarbungu og enn sé talið mögulegt að eldgos hefjist þar með skömmum fyrirvara. Slíkur atburður gæti leitt til stórflóðs sem gæti haft gríðarleg áhrif á innviði, t.d. brýr, virkjanir og rafdreifikerfi auk þess sem öryggi almennings væri ógnað.
Vegna öryggissjónarmiða sé brýnt að starfsmaðurinn geti sinnt störfum sínum án tafar vegna sérfræðiþekkingar hans. Slíkur starfsmaður sé sá eini sem geti sinnt lágmarks vatnaváreftirliti ef til verkfalls komi.
-
Veðurstofa Íslands/Jarðvárvakt. Jarðvársérfræðingur.
Samkvæmt beiðni frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sinni Veðurstofan nú sértækri vöktun á Bárðarbungu og Holuhrauni. Sú virkni sem hófst 16. ágúst 2014 bendi til þess að um stóran og langvinnan atburð sé að ræða. Það sé mat sérfræðinga að litlar breytingar geti leitt til nýrra umbrota. Sé því mjög brýnt að stefndi geti rækt öryggishlutverk sitt þar sem ferðamönnum hafi verið hleypt að svæðinu og almannaöryggi sé stefnt í hættu ef vöktun liggi niðri. Jarðvársérfræðingur sé hið þjálfaða auga sem fylgist með mælitækjum og greini vísbendingar um breytta hegðun í jarðskorpunni. Ef jarðváratburður hefjist á svæðinu, þurfi skjót viðbrögð margra til þess að greina aðstæður og mögulegar sviðsmyndir en jafnframt til þess að sinna tilkynningarskyldu, samskiptum og upplýsingagjöf við almannavarnir, almannavarnarnefndir viðkomandi svæða og almenning.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 70/2008 beri Veðurstofu Íslands að vakta, spá fyrir um og gefa út viðvaranir vegna náttúruvár, þar með talið jarðvár. Tíðni eldgosa hafi aukist verulega frá 2010 miðað við undangengna áratugi. Talið sé að Grímsvötn, Hekla og Katla geti gosið hvenær sem er. Vegna hættu af eldgosum, bæði fyrir menn og búfénað, sé mjög mikilvægt að stöðug vöktun sé á jarðskjálftavirkni og jökulhlaupum sem oft séu undanfari gosa. Eitt af lykilhlutverkum stofnunarinnar sé að gefa út viðvaranir og spár fyrir flug og flugvelli innan lofthelgi Íslands en stofnuninni beri skylda til að koma viðvörunum sínum tafarlaust á framfæri, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 142/2004, um veðurþjónustu. Verði brotalamir á þjónustunni, geti öll flugumferð til og frá landinu og þar með flutningur á nauðsynjavörum sem varða öryggi landsmanna stöðvast. Jarðvársérfræðingur gegni lykilhlutverki við að vakta eldfjöll á öllum stigum og gefa út upplýsingar um stöðu þeirra og viðvaranir um hugsanleg eldgos til alþjóðlegs flugs.
Atburðir síðustu mánaða sýni að ekki sé nægilegt að fagstjóri einn og sér sinni þeirri lágmarksöryggisþjónustu sem stofnuninni sé skylt að veita og sé því nauðsynlegt að jarðvársérfræðingur sé undanþeginn verkfallsheimild.
-
Tilraunastöð Háskólans á Keldum. Bóluefnaframleiðsla/ætagerð. Líffræðingur.
Að mati stofnunarinnar sé um að ræða nauðsynlegan starfskraft til að tryggja starfsemi við alla ætagerð, blóðefnaframleiðslu, bóluefnaframleiðslu, starfsemi við sjúkdómagreiningu, bæði í mönnum og dýrum og framleiðslu varnarefna.
Stefndi leggur áherslu á að megnið af þeirri framleiðslu, sem fari fram á Keldum, fari eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi. Falli framleiðslan niður vegna vinnustöðvunar og allar áætlanir fari úr skorðum, geti stofnun lent í þeirri aðstöðu að eiga ekki nægjanlegt magn af bóluefni þegar á þurfi að halda með ófyrirséðum afleiðingum. Af þeim sökum þurfi ávallt að vera til staðar starfsmaður. Hluti af framleiðslunni felist í því að unnið sé með blóð úr hrossum og sauðfé í sýklaæti fyrir allar rannsóknarstofur landsins. Blóðið sé tekið einu sinni til tvisvar í viku allan ársins hring og vanti slíkt blóð, geti líf sjúklinga legið við. Hér sé því um að ræða starf sem falli undir nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu.
Stefndi bendir jafnframt á að í ákveðnum tilvikum þurfi að bregðast skjótt við, t.d. þegar upp komi lungnafár á minkabúum. Þá sé búið til bóluefni úr þeim stofni, sem valdi sjúkdómnum hverju sinni, og þá skipti hver dagur máli þar sem bóluefni sé ekki til á lager.
Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130. gr. sbr. 129 gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Ágreiningur aðila lýtur að tilgreindum störfum á skrá stefnda yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild samkvæmt 5.-8. tl. 1. mgr. 19. gr., sbr. 2. mgr. sömu greinar, laga nr. 94/1986, sbr. auglýsingu nr. 70 frá 16. janúar 2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. janúar 2015, sbr. og fyrri skrá nr. 101 frá 17. janúar 2014. Við upphaf munnlegs málflutnings við aðalmeðferð málsins féll stefnandi frá kröfu sinni um að fellt yrði út af framangreindri skrá starf náttúrufræðings í dagvinnu á rannsóknarsviði/frumulíffræði hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi sem er annað starfið sem tilgreint er í kröfugerð hans. Þá kemur fram í greinargerð stefnda að hann fallist á dómkröfur stefnanda að því er varðar starf náttúrufræðings í dagvinnu á lyflækningasviði/rannsóknarstofu í taugalífeðlisfræði á Landspítala háskólasjúkrahúsi sem er fyrsta starfið sem tilgreint er í kröfugerð stefnanda í stefnu. Varðar ágreiningur aðila því eitt starf náttúrfræðings á bakvakt á rannsóknarsviði/ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, eitt starf deildarstjóra í dagvinnu á aðgerðasviði/Blóðbankanum í þjónusturannsóknum og blóðhlutavinnslu, eitt starf snjóflóðasérfræðings á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, eitt starf fagstjóra á vatnsvárvakt Veðurstofu Íslands, eitt starf jarðvársérfræðings á jarðvárvakt Veðurstofu Íslands og eitt starf líffræðings við bóluefnaframleiðslu/ætagerð á tilraunastöð Háskólans á Keldum.
Af hálfu stefnda er byggt á því að greind störf falli undir 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 þar sem mælt er fyrir um að heimild til verkfalls samkvæmt 14. gr. laganna nái ekki til þeirra starfsmanna sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Stefnandi byggir hins vegar á því að stefnda hafi ekki tekist að sýna fram á að umrædd undantekning frá verkfallsheimild taki til greindra starfa, enda beri að skýra undantekningar frá meginreglu 14. gr. laganna um verkfallsheimild þröngt. Þá heldur stefnandi því fram að stefndi hafi ekki gætt samráðs við stéttarfélagið svo sem boðið sé í 2. mgr. 19. gr. laganna.
Með lögum nr. 94/1986 var lögfest sú meginregla að þeim starfsmönnum ríkisins, sem lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, tóku til, sbr. nú lög nr. 70/1996, er heimilt að gera verkfall með þeim takmörkunum einum sem tilteknar eru í lögunum. Verkfallsréttur stéttarfélaga nýtur verndar samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Af framangreindu leiðir að ákvæði um undantekningar frá þessari meginreglu lúta þrengjandi lögskýringu. Af greindri meginreglu leiðir einnig að ef ágreiningur er um tilgreiningu á skrá samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 verður sá, sem gefur út slíka skrá að sýna fram á að tilgreining þar sé ekki umfram það, sem þörf er á til að nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu verði haldið uppi.
Samkvæmt 14. gr. laga nr. 94/1986 er stéttarfélögum, sem eru samningsaðilar samkvæmt lögunum, heimilt að gera verkfall og samkvæmt 18. gr. laga þessara tekur það til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi hjá þeim vinnuveitanda, sem verkfall beinist gegn, nema þeim sé óheimilt að leggja niður störf samkvæmt lögunum. Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, sbr. 56. gr. laga nr. 70/1996, er þeim sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu óheimilt að gera verkfall. Samkvæmt 2. mgr. greinar þessarar skulu ráðherra og sveitarfélög, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta fyrir 1. febrúar ár hvert skrár um störf þau sem falla undir ákvæði 5.-8. tl. fyrri málsgreinar greinarinnar. Ný skrá tekur gildi 15. febrúar næst á eftir birtingu. Sé ný skrá ekki birt samkvæmt framangreindu framlengist síðast gildandi skrá um eitt ár. Andmæli gegn breytingum á skrám skulu borin fram fyrir 1. mars sama ár og skal ágreiningur um breytingar lagður fyrir Félagsdóm sem sker úr honum til fullnustu. Tekið skal fram að Félagsdómur hefur túlkað 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 svo að stéttarfélög hafi rétt til þess að bera árlega fram andmæli við skrá og ekki skipti máli í því sambandi hvort andmælum hafi verið hreyft við auglýsingum fyrri ára eða ekki, sbr. meðal annars dóma Félagsdóms frá 9. desember 1994 (Fd. X:282), 25. september 1995 (Fd. X:440) og 30. október 1995 (Fd. X:453).
Í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 birti stefndi greinda skrá með framangreindri auglýsingu nr. 70/2015 í B-deild Stjórnartíðinda. Stefnandi gerði athugasemdir með bréfi, dagsettu 26. febrúar sl., og gerði grein fyrir því, hvaða störf hann teldi að veita mætti undanþágu frá verkfalli fyrir og hver ekki. Stefndi svaraði andmælum stefnanda með bréfi, dagsettu 17. mars, þar sem gerð var grein fyrir þeirri afstöðu stefnda að samráðsskylda samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 hefði verið uppfyllt við gerð framangreindrar skrár. Þessu vildi stefnandi ekki una og með bréfi, dagsettu 20. mars sl., tilkynnti hann stefnda um boðun verkfalls, svo sem áður greinir.
Þess er að geta að í fjölmörgum dómum Félagsdóms hefur á það reynt hvernig túlka beri ákvæði III. kafla laga nr. 94/1986 um verkfallsrétt opinberra starfsmanna og undanþágur frá þeim verkfallsrétti, síðast í dómum frá 20. maí 2001 í málinu nr. 11/2001 og frá 20. janúar 2014 í málinu nr. 9/2013.
Að því er varðar framkvæmd á hinni lögskipuðu samráðsskyldu, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, hefur Félagsdómur slegið föstu að í henni felist að stéttarfélögum sé veittur hæfilegur frestur til að kynna sér fyrirhugaðar breytingar og komi fram athugasemdir fari fram viðræður milli aðila og leitað verði samkomulags áður en skrá er gefin út, sbr. meðal annars dóma frá 20. maí 2001 í málinu nr. 11/2001 og 20. janúar 2014 í málinu nr. 9/2013. Þá hefur umboðsmaður Alþingis í tvígang fjallað um þessi málefni, sbr. álit frá 21. september 1990 í málinu nr. 241/1990 (SUA 1990:176) og álit frá 6. ágúst 1997 í málin nr. 1747/1996 (SUA 1997:246). Samkvæmt framansögðu þarf samráðið að miða að samstöðu milli stefnda og viðkomandi stéttarfélags um undanþágur frá verkfallsrétti. Samráðsskyldunni verður því ekki fullnægt með því einu að gefa stéttarfélaginu færi á að koma að tillögum og athugasemdum við drög stefnda að undanþágulista, eins og virðist mega ráða af málatilbúnaði stefnda. Hins vegar felur hún heldur ekki í sér að samkomulag þurfi að hafa náðst um þá niðurstöðu sem stefndi ákveður að birta.
Eins og rakið hefur verið sendi stefndi stefnanda lista 5. desember 2014 með tillögum um þau störf sem lagt var til að undanþegin yrðu verkfallsrétti, þ. á m. þau störf sem mál þetta lýtur að. Var stefnanda gefinn frestur til 12. sama mánaðar til að gera athugasemdir. Engar athugasemdir bárust frá stefnanda en í kjölfar tölvupósts frá stefnda til stefnanda 7. janúar 2015 óskaði stefnandi eftir fundi með stefnda vegna málsins og var hann haldinn 13. sama mánaðar. Hvorki liggur fyrir fundargerð né minnisblað um það sem fram fór á fundinum. Formaður stefnanda, Ína Björg Hjálmarsdóttir, hefur einn fundarmanna gefið skýrslu fyrir Félagsdómi og er því einungis við framburð hennar að styðjast um það sem þar fór fram. Bar hún á þann veg að hún hefði ekki talið unnt að samþykkja neitt af því sem þar kom fram af hálfu stefnda. Hins vegar hefðu engar tillögur verið gerðar af hálfu stefnanda þar sem vitað var að tíminn var naumur þar til lögum samkvæmt yrði að birta auglýsingu um undanþágulistann. Hefði henni fundist sem fundurinn væri til málamynda og því hefði niðurstaðan orðið sú að láta þar við sitja vegna tímaleysis og bera ágreininginn þess í stað undir Félagsdóm. Kom fram hjá formanni stefnanda að þessi niðurstaða yrði ekki einvörðungu rakin til ráðuneytisins, heldur hefði þar einnig verið við stefnanda að sakast að bregðast ekki fyrr við erindi stefnda frá 5. desember 2014.
Af framangreindu verður dregin sú ályktun að á fundinum hafi einhver umræða farið fram um listann í því augnamiði að komast að niðurstöðu sem þó hafi ekki gengið eftir en þar verði stefnda þó ekki einum kennt um vegna þess hversu seint viðbrögð stefnanda komu fram. Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að þrátt fyrir það sem að framan er rakið um túlkun samráðsskyldunnar samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 verði ekki talið að stefndi hafi vanrækt svo verulega samráðsskyldu sína að fella beri hin umþrættu störf af listanum eins og krafist er af hálfu stefnanda.
Stefnandi vísar til þess að tilgreining starfa á hinum umdeilda lista sé ekki fullnægjandi en af listanum verði að vera unnt að ráða nákvæmlega hvaða starfsmenn séu undanþegnir verkfallsheimild og hverjir ekki. Að mati dómsins verður ekki á það fallist. Er þess hér að geta að lista þennan ber að gefa út fyrir 1. febrúar ár hvert og verður honum ekki breytt eftir það nema með dómi Félagsdóms. Verkfall getur hins vegar orðið hvenær sem er á árinu eftir útgáfu listans. Er þá meira en mögulegt að slíkar mannabreytingar hafi orðið að listinn sé þegar orðinn rangur eða úreltur þegar til á að taka. Gildir þetta ekki síst um stóra vinnustaði þar sem starfsmenn ganga vaktir og vinna jafnvel störf á fleiri en einni deild. Þá er til þess að líta að í ákvæði því sem um þetta gildir, nánar tiltekið 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, er sérstaklega vísað til starfa en ekki til starfsmanna. Verður því ekki fallist á þessa málsástæður stefnanda.
Víkur þá að efnislegri úrlausn um þau einstöku störf sem ágreiningur aðila stendur um.
Stefnandi krefst þess að eitt starf náttúrufræðings á bakvakt á rannsóknarsviði/ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss verði fellt út af undanþágulistanum. Í greinargerð stefnda er þess getið að um sé að ræða vakt náttúrufræðings til að sjá um þjónusturannsóknir sem snúa að fjölmörgum mismunandi virkniprófunum hvítfrumna og flæðifrumusjárgreiningum. Þessar rannsóknir séu gerðar til greiningar á fjölmörgum alvarlegum sjúkdómum og eftirlits með þeim. Rannsóknirnar séu mjög sérhæfðar og eingöngu á færi sérfræðinga með mikla þjálfun í þeirri aðferðarfræði sem um ræðir. Í skýrslu Ínu Bjargar Hjálmarsdóttur, formanns stefnanda, kom fram að kæmi til verkfalls yrði þessu starfi sinnt eftir þörfum í dagvinnu, þótt ekki yrði um bakvakt að ræða. Gætu sýni sem bærust á deildina beðið í einn dag og væri því eðlilegra að óska eftir undanþágu hjá undanþágunefnd ef sýni bærust á verkfallstíma.
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar á Landspítala háskólasjúkrahúsi, benti hins vegar á að um væri að ræða mjög sérhæfðar þjónusturannsóknir sem snertu margs konar alvarlega undirliggjandi sjúkdóma sem margir hverjir væru lífshættulegir og gætu leitt til dauða, væru þeir ekki greindir rétt og hratt. Þá tók hann fram að langan tíma tæki að þjálfa starfsfólk sem stundaði rannsóknirnar, auk þess sem um væri að ræða sýni sem ónýttust mjög fljótt, í sumum tilvikum á einungis tveimur til þremur klukkustundum frá því þau væru tekin. Starf náttúrufræðings á bakvakt væri að taka við sýni og meðhöndla það eftir því prófi sem við ætti hverju sinni. Væri þessu starfi nú sinnt allan sólarhringinn þótt ekki væri um formlega bakvakt að ræða. Taldi hann nauðsynlegt að heimila þessa undanþágu til að tryggja öryggi sjúklinga og kvað aldrei áður hafa komið til tals að fella starfið út af listanum.
Á listanum er miðað við að komi til vinnustöðvunar verði einn lífeindafræðingur og einn yfirlæknir að störfum á ónæmisfræðideild spítalans. Þegar litið er til þess sem fram kom í framburði Björns Rúnar um eðli umræddra rannsókna og hversu miklu varðaði að sýni væru rannsökuð fljótt og örugglega þar sem stundum væri um að ræða einungis tveggja til þriggja klukkustunda svigrúm, þykir sýnt að ekki sé tryggt að nauðsynlegasta heilbrigðisþjónusta verði veitt á umræddri deild spítalans nema einn náttúrufræðingur sé á bakvakt. Verður kröfu stefnanda um að fella starfið út af undanþágulistanum því hafnað.
Stefnandi krefst þess að fellt verði út af undanþágulistanum starf deildarstjóra í dagvinnu í Blóðbankanum við þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnslu. Stefndi tekur fram að tveir deildarstjórar sinni umræddum störfum og sé nauðsynlegt að annar þeirra sé til staðar í verkfalli til að tryggja verkstjórn, framgang verkefna, forgangsröðun og til að bregðast við óvæntum atvikum. Á síðustu árum hafi alltaf verið tryggt að annar deildarstjóranna væri til staðar á dagvinnutíma en búast megi við auknu álagi komi til verkfalls. Í skýrslu sinni hér fyrir dóminum benti formaður stefnanda, sem starfar hjá Blóðbankanum, á að á undanþágulistanum væru fleiri starfsmenn Blóðbankans sem sinntu bráðaþjónustu, bæði í dagvinnu og á bakvöktum. Þeir hefðu þjálfun og reynslu af því að forgangsraða og meta hvenær kalla þurfi annað starfsfólk til starfa. Komi það meðal annars fram í starfslýsingum þeirra og í gæðahandbók stofnunarinnar. Þá kvað hún starf deildarstjóra í dagvinnu einkum felast í yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar og áætlanagerð.
Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, gaf skýrslu fyrir dóminum og kvað tillögu um mönnun hjá stofnuninni taka mið af mönnun á þeim tímum þegar starfsemi sjúkrahúsanna sé í lágmarki, t.d. á sumarleyfistíma. Sé gengið út frá því að stofnunin muni eingöngu sinna bráðaþjónustu ef til verkfalls komi. Hins vegar taldi hann þörf á starfi deildarstjóra í dagvinnu til þess að sjá um stjórnunina við að skipuleggja og samhæfa störf þeirra sem ynnu í verkfalli. Þá gæti deildarstjórinn jafnframt gengið vaktir ef á þyrfti að halda. Aðspurður mat hann stöðuna svo að ef kæmi til verkfalls yrði fyrsta vikan erfið en þær sem á eftir kæmu yrðu erfiðari og þá þyrfti væntanlega að leita undanþága hjá undanþágunefnd.
Ljóst er að starf deildarstjóra í dagvinnu á sviði þjónusturannsókna og blóðhlutavinnslu kom fyrst inn á undanþágulista með þeirri skrá sem auglýst var í janúar sl. Hins vegar kvaðst yfirlæknir Blóðbankans hafa lagt það til frá upphafi að starf þetta yrði á listanum en ekki hefði verið orðið við því fyrr en nú. Af hálfu stefnda hefur engin grein verið gerð fyrir því, hvaða rök liggja að baki þessari breytingu og engin gögn hafa verið lögð fram henni til stuðnings. Á undanþágulistanum er gert ráð fyrir starfi fjögurra náttúrfræðinga á þessu sviði hjá Blóðbankanum í dagvinnu ásamt tveimur til viðbótar á bakvakt, auk þess sem þar er að finna starf deildarstjóra í dagvinnu á blóðsöfnunarsviði og fleiri starfsmanna þess sviðs. Loks er gert ráð fyrir störfum sérfræðilækna í dagvinnu og á gæsluvakt og yfirlæknis í dagvinnu. Að framangreindu virtu og þegar litið er til framburðar yfirlæknis Blóðbankans um að kæmi til verkfalla fælist starf deildarstjóra í dagvinnu á sviði þjónusturannsókna og blóðhlutavinnslu einkum í stjórnun, skipulagningu starfa annarra og samhæfingu er það mat dómsins að stefndi hafi ekki sýnt nægilega fram á að nauðsynlegustu lágmarksstarfsemi við þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnslu Blóðbankans verði ekki sinnt nema með því að deildarstjórinn verði við störf. Verður því að fallast á það með stefnanda að eitt starf deildarstjóra á þessu sviði verði fellt út af umræddri skrá yfir störf sem eru undanþegin verkfallsheimild.
Stefnandi krefst þess að þrjú störf á Veðurstofu Íslands verði felld út af undanþágulistanum. Er um að ræða eitt starf snjóflóðasérfræðings á snjóflóðavakt, eitt starf fagstjóra á vatnsvárvakt og eitt starf jarðvársérfræðings á jarðvárvakt sem stefnandi telur að ekki gegni störfum við nauðsynlegustu öryggisgæslu. Stefndi telur aftur á móti ekki unnt að veita lágmarksþjónustu til að tryggja öryggi almennings nema bæði fagstjóri og sérfræðingur séu að störfum á þessum þremur sviðum stofnunarinnar ef til verkfalls komi. Er vísað til þess að ef til einhvers konar hættuástands vegna náttúruvár komi, séu skjót viðbrögð nauðsynleg til að tryggja öryggi almennings. Geti þá í sumum tilvikum skipt miklu hvernig brugðist sé við á fyrstu klukkustundum eða jafnvel fyrstu klukkustund.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvað formaður stefnanda þörf á að fara betur yfir þau rök sem byggju að baki þessum undanþágum, enda væri búið að setja marga á þennan lista. Benti hún á að í gögnum sem lægju til grundvallar við gerð listans væri gert ráð fyrir því að vöktun væri í verkahring fagstjóra. Starfsmenn Veðurstofu Íslands hefðu hins vegar upplýst hana um að það væru sérfræðingarnir sem vöktuðu en kæmu síðan upplýsingum til fagstjóranna.
Theodór Freyr Hervarsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs Veðurstofu Íslands, sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að starf snjóflóðasérfræðings tæki til vöktunar vegna snjóflóða og annarra ofanflóða. Hann væri þjálfaður í að fylgjast með og bregðast við ef slíkar náttúrubreytingar yrðu sem gætu leitt til válegra atburða. Tók hann svo til orða að um væri að ræða „hið þjálfaða auga“ og að það væri nauðsynlegt svo eiginleg vöktun ætti sér stað. Aðspurður kvað hann fagstjóra einnig koma að slíkum vöktunum, þótt þeirra væri ekki getið í hlutverkalýsingu þeirra.
Að því er varðar starf fagstjóra á vatnsvárvakt, kvað Theodór Freyr þá vera faglega leiðandi á sínu sviði og tækju ákvarðanir um breytingar á eftirlitinu, auk þess sem þeir væru ábyrgir ef til vár kæmi. Þeir sæu hins vegar ekki um vöktun og eftirlit. Kæmi til vatnsvár geti tími til aðgerða verið stuttur en þá sé það „hið þjálfaða auga“ sem greini vandann og komi upplýsingum til fagstjóra sem síðan sjái um að koma þeim áfram. Vegna þess hversu stuttur viðbragðstíminn væri iðulega, taldi vitnið að umsókn til undanþágunefndar um undanþágu frá verkfalli væri of seinvirk leið og gæti stefnt öryggi almennings í hættu. Sérstaklega aðspurður sagði vitnið að fagstjóri gæti hlaupið inn í starf sérfræðings en sérfræðingur gæti hins vegar ekki tekið að sér starf fagstjóra. Störfin ættu því ákveðna samleið.
Samkvæmt framburði Theodórs Freys er jarðvársérfræðingur „hið þjálfaða auga“ við jarðvárvöktun. Minnti hann á að vegna ástandsins við Holuhraun undanfarið hefðu skapast sérstakar aðstæður, enda væri enn ekki vitað hver framvindan yrði þar. Um skörun á störfum fagstjóra jarðskjálftavaktar og jarðvársérfræðings tók vitnið fram að um væri að ræða svipað fyrirkomulag og á sviði ofanflóðavár og gengi fagstjóri einnig vaktir við eftirlit, þótt starf hans lyti að því að vera hinn faglega leiðandi aðili. Jarðvársérfræðingurinn fylgdist með fjölda mæla og túlkaði niðurstöðurnar og greindi þær. Kom fram hjá vitninu að ef jarðvársérfræðings nyti ekki við, yrði engin vöktun.
Ljóst er að komi til náttúruvár þarf að bregðast skjótt við og verður á það fallist að umrædd störf á Veðurstofu Íslands skipta miklu máli við þá nauðsynlegu öryggisgæslu sem þar er sinnt alla jafna. Hér verður hins vegar einnig að líta til þess að á gildandi undanþágulista er gert ráð fyrir alls sex störfum á þessum þremur sviðum Veðurstofu Íslands, sem eru, til viðbótar umþrættum störfum, starf fagstjóra/vaktstjóra við ofanflóðavakt, sérfræðings á vatnsvárvakt og fagstjóra/vaktstjóra á jaðskjálftavakt/eldgosavá. Fyrir liggur að þau þrjú störf sem deilt er um í máli þessu komu öll ný inn á listann með auglýsingunni sem birt var í Stjórnartíðindum í janúar sl. Engin gögn liggja fyrir um nauðsyn þeirrar breytingar og er því einungis við framangreindan framburð að styðjast við mat á því hvort skilyrðum sé fullnægt til að undanþiggja þessi störf verkfallsrétti. Samkvæmt framburði Theodórs Freys, sem rakinn er hér að framan, eru sérfræðingar á viðkomandi sviðum þeir sem sjá um eiginlega vöktun og eru „hið þjálfaða auga“ við eftirlitið. Hins vegar geti fagstjórar/vaktstjórar á hverju sviði gengið inn í störf sérfræðinganna.
Að öllu framangreindu virtu og þeirrar mönnunar, sem gert er ráð fyrir á fyrirliggjandi undanþágulista, er það mat dómsins að hvorki hafi verið lögð fram nægileg gögn né viðhlítandi rök til stuðnings því, að óhjákvæmilegt sé að allir framangreindir starfsmenn annist eftirlit á sviði snjóflóðavöktunar og vatnsvárvöktunar til að nauðsynlegustu öryggisgæslu í þágu almennings verði sinnt ef til verkfalls kemur. Verður því að fallast á það með stefnanda að störf eins snjóflóðasérfræðings og eins fagstjóra á vatnsvárvakt verði felld út af umræddri skrá yfir störf sem undanþegin eru verkfallsheimild.
Þegar litið er til hins sérstaka ástands, sem skapast hefur undanfarið vegna jarðhræringa við Holuhraun, sem ekki er útséð hvernig muni þróast á næstunni, og þess sem fram kom í framburði Theodórs Freys Hervarssonar að ekki yrði um að ræða vöktun á þessu sviði ef jarðvársérfræðings nyti ekki við, er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi rennt undir það nægum stoðum að ekki sé tryggt að nauðsynlegustu öryggisgæslu verði sinnt ef þeir, sem sinna starfi jarðvársérfræðings, leggja niður störf. Verður kröfu stefnanda því hafnað að því er þetta starf varðar.
Loks krefst stefnandi þess að fellt verði út af undanþágulistanum starf líffræðings við bóluefnaframleiðslu og ætagerð hjá tilraunastöð Háskólans á Keldum. Stefndi bendir á að starfið sé nauðsynlegt til að tryggja starfsemi við alla ætagerð, blóðefnaframleiðslu, bóluefnaframleiðslu, starfsemi við sjúkdómagreiningu bæði í mönnum og dýrum og framleiðslu varnarefna. Megnið af framleiðslunni á Keldum fari fram eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi og fari það úr skorðum, geti það leitt til þess að skortur verði á bóluefni þegar á þurfi að halda.
Formaður stefnanda kvaðst í skýrslu sinni hér fyrir dóminum ekki telja að framangreint starf félli undir skilgreiningu þeirrar þjónustu sem teldist nauðsynlegust í verkfalli. Eggert Gunnarsson, dýralæknir og sérfræðingur á tilraunastöð Háskólans á Keldum, lýsti starfi umrædds líffræðings þannig að það fæli í fyrsta lagi í sér framleiðslu á bóluefnum gegn sjúkdómum í dýrum. Væri um að ræða fyrirfram ákveðið skipulag vinnunnar og ef það færi úr skorðum kæmist framleiðslan í uppnám. Í öðru lagi fæli starfið í sér blóðtöku úr tilraunadýrum og væri blóðið notað í sýklaæti sem nauðsynlegt væri við sjúkdómagreiningar, meðal annar í fólki. Tekin væru sýni einu sinni til tvisvar í viku allt árið en ekki væri hægt að flytja þau inn frá útlöndum vegna smitsjúkdómahættu. Loks lyti starfið að ætagerð sem sé nauðsynleg við sjúkdómagreiningar og við eftirlit með búvöruframleiðslu.
Samkvæmt framlögðum undanþágulista er gert ráð fyrir að komi til verkfalls séu undanskilin verkfallsheimild, auk starfs náttúrufræðings við bóluefnaframleiðslu og ætagerð, störf eins dýralæknis við framleiðslu lyfja, eins dýralæknis við sjúkdómagreiningu, eins deildarstjóra á fisksjúkdómadeild og lífeindafræðings á sýkladeild. Ef frá er talinn framburður Eggerts Gunnarssonar, sem rakinn er hér að framan, nýtur ekki við frekari gagna um umrædd störf. Á listum sem giltu árin 2013 og 2014 var gert ráð fyrir að einn lífeindafræðingur á bakvakt sinnti framangreindu starfi við bóluefnaframleiðslu og ætagerð. Eins og rakið hefur verið lúta undanþágur samkvæmt 19. gr. laga nr. 94/2015 þrengjandi skýringu. Telur dómurinn að með nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu sé átt við heilbrigðisþjónustu sem sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlegt heilsutjón manna. Að framangreindu virtu er það mat dómsins að stefndi hafi ekki sýnt nægilega fram á að vegna nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu beri að fella umrætt starf undir 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986. Verður því fallist á kröfu stefnanda um að umrætt starf verði fellt út af umræddum undanþágulista.
Stefndi hefur fallist á það að tilgreining á starfi náttúrufræðings í dagvinnu á rannsóknarstofu í taugalífeðlisfræði á lyflækningasviði Landspítala háskólasjúkrahúss sé ofaukið á umræddum lista yfir störf sem undanþegin eru verkfallsrétti. Ber að leggja þá afstöðu til grundvallar niðurstöðu dómsins. Að auki telur dómurinn að stefnda hafi ekki tekist að sanna að störf deildarstjóra í dagvinnu við þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnslu á aðferðasviði Blóðbankans, snjóflóðasérfræðings á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, fagstjóra á vatnsvárvakt Veðurstofu Íslands og líffræðings við bóluefnaframleiðslu og ætagerð á tilraunastöð Háskólans á Keldum séu störf við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu í skilningi 5. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986.
Stefnandi hefur jafnframt vísað til þess að óþarft sé að tilgreinda umrædd störf á listanum þar sem nægilegt öryggi sé fólgið í heimildum 20. og 21. gr. laga nr. 94/1986. Heldur hann því fram að komi til þess ástands að nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu verði ekki sinnt, megi óska eftir undanþágu frá verkfalli fyrir tilgreinda starfsmenn. Ekki verður á þetta fallist að því er varðar störf náttúrufræðings í dagvinnu á rannsóknarsviði/frumulíffræði Landspítala háskólasjúkrahúss, sem stefnandi hefur fallið frá kröfu vegna, náttúrufræðings á rannsóknarsviði/ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss og jarðvársérfræðings á jarðvárvakt Veðurstofu Íslands. Um er að ræða mismunandi úrræði en ákvæði 20. og 21. gr. laganna miða að því að afstýra yfirvofandi eða byrjuðu neyðarástandi meðan ákvæði 5. tl. 1. mgr. 19. gr. miða að því að störf við nauðsynlegust öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu leggist ekki af þannig að ekki komi til slíks ástands. Auk þess liggur fyrir að við brýna neyð á þeim sviðum sem síðast greind störf taka til getur mjög stuttur tími ráðið úrslitum.
Röksemdir stefnanda um að brýnt sé að verkföll standi sem styst geta ekki breytt þessari niðurstöðu, enda hljóta sjónarmið um nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu að vega þyngra.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að fallist verði á kröfu stefnanda að því er varðar störf náttúrufræðings í dagvinnu á lyflækningasviði/rannsóknarstofu í taugalífeðlisfræði hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi, svo sem stefndi hefur samkvæmt framansögðu fallist á, deildarstjóra í dagvinnu við þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnslu á aðgerðasviði Blóðbankans, snjóflóðasérfræðings á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, fagstjóra á vatnsvárvakt Veðurstofu Íslands og líffræðings á tilraunastöð Háskólans á Keldum. Verða þau störf því felld út af skrá yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70/2015 hinn 29. janúar 2015. Hins vegar verður kröfu stefnanda hafnað að því er varðar störf náttúrufræðings á rannsóknarsviði/ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss og jarðvársérfræðings á jarðvárvakt Veðurstofu Íslands. Þá liggur fyrir að stefnandi hefur fallið frá kröfu um að fellt verði út af umræddri skrá starf náttúrufræðings í dagvinnu á rannsóknarsviði/frumulíffræði Landspítala háskólasjúkrahúss,
Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar.
D Ó M S O R Ð:
Af skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 70/2015 hinn 29. janúar 2015, ber að fella eftirtalin störf:
Eitt starf náttúrufræðings í dagvinnu á lyflækningasviði/rannsóknarstofu í taugalífeðlisfræði hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi,
eitt starf deildarstjóra í dagvinnu við þjónusturannsóknir og blóðhlutavinnslu á aðgerðasviði Blóðbankans,
eitt starf snjóflóðasérfræðings á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands,
eitt starf fagstjóra á vatnsvárvakt Veðurstofu Íslands og
eitt starf líffræðings á tilraunastöð Háskólans á Keldum.
Að öðru leyti skal stefndi, íslenska ríkið, vera sýkn af kröfum stefnanda, Félagi íslenskra náttúrufræðinga.
Málskostnaður fellur niður.
Arnfríður Einarsdóttir
Ásmundur Helgason
Guðni Á. Haraldsson
Elín Blöndal
Sonja María Hreiðarsdóttir