Fyrsti fundur nýskipaðs ferðamálaráðs
Nýskipað ferðamálaráð leggur áherslu á að innviðir ferðaþjónustunnar verði styrktir og stoðkerfi atvinnulífsins einfaldað og gert skilvirkara. Jafnframt leggur það áherslu á aukna samvinnu og samstöðu hjá aðilum í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur vaxið um 21-24% á ári frá árinu 2011 og ýmis verkefni bíða umfjöllunar ráðsins, en því er ætlað að vera ráðherra til ráðgjafar um þau málefni er varða ferðaþjónustuna.
Á fyrsta fundi ráðsins fór Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra yfir það sem er á döfinni í ráðuneytinu er varðar ferðaþjónustuna, fór yfir væntingar varðandi samstarf ráðsins og ráðuneytisins og lýsti að lokum yfir ánægju sinni með að ráðið væri tekið til starfa. Jafnframt kynnti Guðfinna Bjarnadóttir stöðu þeirrar vinnu sem hún leiðir fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið er varðar stefnumótun stjórnvalda í ferðaþjónustu.
Þær upplýsingar og hugmyndir sem fram komu í kynningunni féllu í góðan jarðveg en ferðamálaráð mun koma með frekari ábendingar og innlegg í stefnumótunarvinnuna áður en lokaniðurstöðum verður skilað um mitt ár.
Ferðamálaráð skipa: Þórey Vilhjálmsdóttir, formaður, Páll Marvin Jónsson, varaformaður, Aldís Hafsteinsdóttir, Ásbjörn Björgvinsson, Díana Mjöll Sveinsdóttir, Halldór Benjamín Þorbergsson, Hjálmar Sveinsson, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Jón Ásbergsson og Þórir Garðarsson. Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, situr að auki fundi ráðsins.