Hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum hefur tífaldast frá 2010
Íslenskt endurnýjanlegt eldsneyti var 23% af heildarmagni endurnýjanlegs eldsneytis sem notað var til samgangna árið 2014 og á síðustu fjórum árum hefur hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis til samgangna tífaldast. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um þróun orkuskipta í samgöngum sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi. Skýrslan er unnin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Orkustofnun og Grænu orkunni.
Frá árinu 2011 hefur markvisst verið unnið að því að hækka hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum í samræmi við þingsályktun Alþingis og aðgerðaáætlun henni tengdri. Stjórnvöld hafa beitt sér með ýmsum hætti, í samvinnu við verkefnisstjórn um orkuskipti í samgöngum (Grænu orkuna), og má þar helst nefna skattalegar ívilnanir fyrir rafmagns- eða tvinnbifreiðar og söluskyldu fyrir endurnýjanlegt eldsneyti.
Meðal þess sem hefur áunnist má nefna:
- Hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum á landi hefur tífaldast síðan 2010, úr 0,2% í 2,4%. Þetta er mun meiri aukning en spáð hafði verið í eldsneytisspá orkuspárnefndar.
- Magn innlends eldsneytis til samgangna hefur fimmaldast síðan 2010. Árið 2014 var innlent eldsneyti 23% af öllu endurnýjanlegu eldsneyti sem selt var til samgangna.
- Nokkur fjöldi nýrra fyrirtækja hefur tekið til starfa sem framleiða innlent endurnýjanlegt eldsneyti.
- Fjöldi vistvænna bifreiða hefur þrefaldast síðan árið 2010.
- Aðgengi að endurnýjanlegu eldsneyti hefur batnað með tilkomu nýrra innviða. Sölustöðum metans hefur fjölgað og svo hafa verið reistar hraðhleðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
- Verulegur árangur hefur náðst í aukinni fræðslu bæði þeirra sem starfa í bílgreininni og koma að öryggismálum og fyrir almenning.
Stefnt er að því að skýrslan verði lögð fyrir Alþingi nú á vorþingi til kynningar og umfjöllunar. Í kjölfarið verði svo unnin ný aðgerðaráætlun um orkuskipti í samgöngum sem verði vegvísir um næstu skref og hún lögð fyrir Alþingi á komandi haustþingi sem tillaga til þingsályktunar.