Möguleikar til áframhaldandi kaupmáttaraukningar eru miklir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði ársfund Samtaka atvinnulífsins í dag.
Í ræðu sinni ræddi forsætisráðherra þróun og horfur á vinnumarkaði. Hann benti á að þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð lýsti hún því yfir að unnið yrði að kaupmáttaraukningu með aukinni framleiðslu og aukinni framleiðni atvinnuveganna. Það er augljóslega langtímaverkefni sagði forsætisráðherra og bætti við: ,,Ríkisstjórn getur stutt við slíka þróun, en fyrst og fremst er það í valdi aðila vinnumarkaðarins að ná því fram. Það ætti flestum að vera ljóst að á þennan hátt, og þennan hátt einan, er hægt að bæta lífskjör varanlega.“ Forsætisráðherra áréttaði að ríkisstjórnin getur ekki stutt verðbólguhvetjandi kjarasamninga en muni leggjast á árarnar með aðilum vinumarkaðarins svo niðurstaðan verði til þess að skapa ávinning fyrir launþega. Forsætisráðherra sagði: ,,Verðbólgu samningar leiða til minni kjarabóta fyrir launþega, meiri og síendurtekinna átaka og svokallaðra leiðréttinga á vinnumarkaði, hækkunar verðtryggðra skulda og gengislækkunar. Allt bitnar þetta á samfélaginu öllu en verst á fólki með lægri- og millitekjur.“
Forsætisráðherra benti einnig á í ræðu sinni að staða efnahagsmála hér á landi sé góð og möguleikar til áframhaldandi kaupmáttaraukningar væru miklir.
Forsætisráðherra nefndi nokkur atriði um þróun launa hér á landi:
- Þegar litið er á launaþróun á síðustu árum kemur í ljós að hún er merkilega lík á milli stétta þrátt fyrir að tekið sé tillit til þeirra hækkana sem einstaka stéttir hafa náð á síðastliðnum tólf mánuðum.
- Helstu breytingarnar eru þær að lægri laun hafa hækkað meira en meðallaunin, laun verkafólks hafa hækkað meira en stjórnenda og laun kvenna hafa hækkað meira en laun karla.
- Fá lönd eru nú með meiri tekjujöfnuð en Ísland.
- Hlutfall launa af verðmætasköpun var hið þriðja hæsta í heiminum árið 2013.
Forsætisráðherra vék að tugprósenta hækkun stjórnarlauna í fyrirtækjum og sagði þau röng og óábyrg skilaboð inn í samfélagið. ,,Við þurfum sameiginlega að byggja upp þjóðfélag festu og stöðugleika og slíkar hækkanir skemma fyrir. Óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Bankakerfi í höftum, varið að mestu fyrir erlendri samkeppni, býr ekki til slík verðmæti að það réttlæti að launakerfi þess séu á skjön við aðra markaði og réttlætiskennd almennings.“
Í lok ræðu sinnar vék forsætisráðherra að yfirstandandi kjaraviðræðum og sagði: ,,Ég var mjög ánægður að sjá þá nálgun sem Samtök atvinnulífsins lögðu til fyrir skemmstu til lausnar kjaradeilunni þar sem áherslan var á hækkun grunnlauna sem hlutfall af heildarlaunum.
Slík uppstokkun launakerfa gæti komið til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika. Ég vona að þessi nálgun verði að veruleika á náinni framtíð.“