Ríki og sveitarfélög efla samstarf í kjaramálum

Samstarf hins opinbera í kjaramálum eflist til muna með stofnun kjaramálaráðs, en samkomulag um koma því á laggirnar var undirritað í gær á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenska sveitarfélaga, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, undirrituðu samkomulagið. Undanfarin ár hafa ríki og sveitarfélög átt ákveðið samstarf í kjaramálum en með samkomulaginu er markmiðið að auka það enn frekar.
Í kjaramálaráði sitja fjórir fulltrúar, tveir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og einn frá Reykjavíkurborg. Kjaramálaráð er ráðgefandi gagnvart aðilum samkomulagsins og stuðlar að samhæfingu við gerð kjarasamninga. Ráðið kemur reglulega saman til funda og gerir grein fyrir störfum sínum gagnvart samstarfsnefnd um samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þá fundar kjaramálaráð með fjármála- og efnahagsráðherra, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarstjóra vegna mikilvægra stefnumarkandi mála.
Helstu verkefni kjaramálaráðs eru:
- Greina almennar efnahagsforsendur og gera tillögu um sameiginlega stefnu varðandi svigrúm til launahækkana.
- Vera vettvangur upplýsingagjafar og samráðs varðandi almenn samskipti aðila á vinnumarkaði og mál sem varða réttindi opinberra starfsmanna, s.s. lífeyrismál.
- Fjalla um meginþætti kjarastefnu aðila og gera tillögu um sameiginlegar áherslur og markmið við kjarasamningsgerðina.
- Fylgjast með gangi samningaviðræðna á grundvelli samráðsfunda með formönnum samninganefnda og reglulegrar upplýsingagjafar frá þeim.
- Rýna kjarasamninga áður en þeir koma til endanlegrar samþykktar aðila, meta um hvort þeir rúmist innan markaðrar stefnu aðila og veita umsagnir ef tilefni er til.
Gert er ráð fyrir að samráðsvettvangurinn geti, þegar það þykir heppilegt og að undangengnu samráði við kjaramálaráð, sett á fót sameiginleg samningateymi. Þá verður samstarf samningsaðila í gagnamálum vegna vinnu við kjarasamninga aukið.