Orkumálaráðherrar Íslands og Nýja-Sjálands funda
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fundaði í gær í Melbourne í Ástralíu með Simon Bridges, orkumálaráðherra Nýja-Sjálands. Ráðherrarnir sitja báðir heimsráðstefnu Alþjóða jarðhitasambandsins (WorldGeothermal Congress). Á fundinum ræddu ráðherrarnir um stöðu orkumála í löndunum tveimur og mögulegt samstarf þjóðanna.
Nýsjálendingar hafa nýtt jarðhita til raforkuframleiðslu um langt árabil auk þess sem þeir, líkt og við Íslendingar, búa yfir umtalsverðu vatnsafli. Um 80% af raforkuframleiðslu landsins byggir í dag á sjálfbærum orkugjöfum, þar af er um 16% raforkuframleiðslunnar unnin úr jarðhita. Þá vinna nýsjálensk fyrirtæki víða um heim við að selja þekkingu sína á sviði jarðvarma og það var á því sviði sem ráðherrarnir ræddu helst flöt til samstarfs.
Ráðherra ávarpaði einnig móttöku á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Jarðhitaklasans (Iceland Geothermal) sem haldin var í sýningarsal ráðstefnunnar og var afar vel sótt, bæði af Íslendingum og fulltrúum fyrirtækja og stofnana víða að úr heiminum.
Ráðstefnan stendur út vikuna og mun ráðherra síðar í vikunni m.a. funda með umhverfisráðherra Ástralíu og eiga fundi um kvikmynda- og ferðamál í Melbourne.