Iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti sér kvikmynda- og ferðamál í Ástralíu
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, átti í gær nokkra fundi í Melbourne í Ástralíu um kvikmynda- og ferðamál.
Meðal þess sem ráðherra kynnti sér var kvikmyndaendurgreiðslukerfi Ástrala hjá „Film in Victoria“ sem vinna að því að draga kvikmyndaverkefni inn í fylkið. Auk þess ræddi ráðherra við ferðamálayfirvöld fylkisins um stefnumörkunar- og markaðsvinnu í ferðamálum og þær áskoranir sem Ástralía stendur frammi fyrir í þessum málaflokki.
Á fundi með „Park Victoria“, sem sjá um þjóðgarða og önnur friðuð svæði í fylkinu, fékk ráðherra góða kynningu á þeirri stefnumótunar- og skipulagsvinnu sem þau hafa verið að vinna að síðustu misserin. Var þar bæði um heildarstefnumótun fyrir slík svæði að ræða en einnig einstaka skipulag.
Ráðherra heimsótti einnig fulltrúa Melbourne-borgar og fékk kynningu á því hvernig borgin stendur að ferðamálum og móttöku ferðamanna..a. á gönguleiðum. Áhugavert var að sjá að þar var í grunninn verið að bregðast við sömu viðfangsefnum og við Íslendingar stöndum frammi fyrir um þessar mundir hvað varðar ferðamálin.
Á miðvikudag sat ráðherra kynningar á djúpborunarverkefninu, svokallaða, skoðaði sýningarsvæðið á heimsráðstefnu Alþjóðlega jarðhitasambandsins, tók þátt í blaðamannafundi, kynnti sér ferðamannastaði á svæðinu og ávarpaði samkomu á vegum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.