Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2015 Utanríkisráðuneytið

Ráðherraráð ESB svarar bréfi utanríkisráðherra

Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem nú gegnir formennsku í ráðherraráði ESB, hefur sent Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra bréf þar sem fram kemur að Evrópusambandið taki mið af vilja íslenskra stjórnvalda sem fram hafi komið í bréfi utanríkisráðherra í mars síðastliðnum, þar sem greint var frá því að ríkisstjórnin hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við ESB á nýjan leik og að ekki skuli lengur líta á Ísland sem umsóknarríki að ESB. Í svarbréfi formanns ráðherraráðsins segir að með hliðsjón af afstöðu ríkisstjórnarinnar muni ráðherraráð ESB aðlaga verklag sitt.

„Bréf lettneska utanríkisráðherrans staðfestir niðurstöðu fundar ráðherraráðs ESB í liðinni viku. Það hefur legið ljóst fyrir að ríkisstjórnin lítur svo á að Ísland sé ekki umsóknarríki að ESB og í bréfi mínu til formanns ráðherraráðs ESB var þetta áréttað og sambandið beðið um að laga verklag sitt að því. Ekki hefur verið ástæða til að ætla að annað væri uppi á teningnum. Með efni þessa svarbréfs höfum við fengið skýrleika í málið og er það fagnaðarefni,“ segir utanríkisráðherra sem segist gera ráð fyrir að Ísland verði nú tekið út af lista umsóknarríkja eins og óskað hefði verið eftir.  „Samstarf okkar við ESB á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins og annarra mála er afar mikið og farsælt og það er mikilvægt að tíma okkar og kröftum verði varið í að efla það samstarf enn frekar á næstunni,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.

Texta bréfs formanns ráðherraráðs ESB til utanríkisráðherra má finna hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira