Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslenski skálinn á Feneyjatvíæringnum 2015

MOSKAN- Fyrsta moskan í Feneyjum

Feneyjar-2015

Verkið er unnið af listamanninum Christoph Büchel í nánu samstarfi við félög múslima á Íslandi og í Feneyjum.


Í fréttatilkynningu frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar segir:

 

MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum

9. MAÍ – 22. NÓVEMBER 2015

Santa Maria della Misericordia

Campo de l'Abazia

Cannagregio 3548/49 Venezia

Vaporetto-stöðvar: Lína 1 San Marcuola eða Ca D'oro

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, kynnir með stolti MOSKUNA – Fyrsta moskuna í Feneyjum, íslenska skálann á 56. Feneyjatvíæringnum (La Biennale di Venezia) 

MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum er verk unnið að frumkvæði listamannsins Cristoph Büchel í samstarfi við félög múslima í Feneyjum og á Íslandi, en sýningarstjóri er Nína Magnúsdóttir. Verkinu er ætlað að tala til þeirra þúsunda múslima í Feneyjum, sem koma frá 29 löndum, en einnig að bjóða jafnt velkomna heimamenn í Feneyjum og ferðamenn, þ.m.t. þúsundir múslimskra ferðamanna sem árlega sækja borgina heim. MOSKAN verður sett upp í hinni fornfrægu kirkju Santa Maria della Misericordia í Cannaregio hverfinu. Kirkjan er frá 10. öld og var gerð upp árið 1864, en hún hefur ekki verið opin almenningi síðastliðin 40 ár. Þá sjö mánuði meðan á tvíæringnum stendur mun kirkjan vera miðstöð fyrir ýmsa starfsemi samfélags múslima í Feneyjum og verður þar boðið upp á fræðslu- og menningardagskrá fyrir almenning.

MOSKAN verður opin almenningi frá og með 9. maí 2015.

Cristoph Büchel steypir grunn að hugmyndafræði verksins í sögulegt samhengi við þau gríðarlegu áhrif sem íslömsk menning hefur haft á Feneyjar og þær félags- og stjórnmálalegu skírskotanir hnattrænna búferlaflutninga samtímans. Feneyjar hafa um aldir átt mikil viðskipti og vensl við Mið-Austurlönd og hefur auðgast og mótast af arabískri list, arkitektúr og tungu. Í borginni var áður bænaaðstaða fyrir múslima (var þó ekki formleg moska) sem komið var á fót árið 1621 í rými innan þrettándu aldar glæsihýsis sem nú kallast Fondaco dei Turchi. Þrátt fyrir þessi nánu tengsl við múslima hefur Feneyjaborg aldrei veitt leyfi fyrir byggingu mosku í sögulega hluta borgarinnar. Cannaregio svæðið, sem skálinn er staðsettur innan, er samliggjandi gamla gyðingahverfi (e. Jewish Ghetto) borgarinnar, þar sem langvarandi pólitískar hömlur varðandi rétt og búsetuskilyrði gyðinga voru leiddar í lög árið 1516. Þessi lög tóku einnig til múslimskra kaupmanna á 17. öld og var þeim gert að stunda sitt bænahald og búskap aðskildir frá öðrum borgurum. Enska orðið ghetto má raunar rekja til feneyska orðsins „ghèto“ sem notað var yfir gjall í smiðju sem staðsett var í hverfinu.

Enn þann dag í dag vekur bygging moskna deilur í löndum víða um heim. Ísland er það land með hvað lægst hlutfall innflytjenda í hinum vestræna heimi en framlag þess á tvíæringnum að þessu sinni, MOSKAN, skírskotar sérstaklega til samfélags múslima í Reykjavík. Félag múslima á Íslandi er smám saman að verða hluti af íslensku samfélagi og eftir tólf ár af pólitískum umræðum og deilum í fjölmiðlum er loks að hefjast undirbúningur við byggingu fyrstu mosku höfuðborgarinnar.

Í samhengi sem þessu er verkinu MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum, ætlað að draga athygli að stofnanavæddum aðskilnaði og fordómum í samfélaginu ásamt þeim deilum sem spretta af stefnumörkun stjórnvalda varðandi fólksflutninga sem eru þungamiðjan í þjóð- og trúarlegum ágreiningi víða um heim.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra lét frá sér eftirfarandi: „Frá upphafi landnáms hér á landi á 9. öld og vel fram á 20. öld var íslenska þjóðin samsett af einsleitum hópi fólks sem lifði á náttúruauðlindum landsins í því harðbýla umhverfi sem við þekkjum hér í Norður-Atlantshafi. Á síðustu áratugum hefur landið verið auðgað af innflytjendum víðsvegar að úr heiminum og þannig örvað samtal um hin ýmsu mál, byggt á umburðarlyndi gagnvart mismunandi trúarbrögðum sem mikil áhersla er lögð á í samfélagi okkar. Samfélag múslima á Íslandi er mikilvæg rödd í þessu samtali og er það von mín að verk Cristoph Büchel í íslenska skálanum, MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum, á Feneyjatvíæringnum muni verða jákvætt innlegg í þessa umræðu á heimsvísu.“

Mohammed Amin Al Ahdab, formaður Félags múslima í Feneyjum sagði: „Nýverið höfum við séð fjölmörg uppörvandi merki um opnara og skilningsríkara viðhorf borgarstjórnar okkar og yfirvalda almennt í borginni – jafnt borgaralegum sem trúarlegum. En með dýpt, sannleika og visku að leiðarljósi er framlag íslensku vina okkar á Feneyjatvíæringnum ein mesta vísbending hingað til um að skrifa megi bjartan og nýjan kafla í sögu Feneyjaborgar með nýju listformi – list sem er ekki einungis takmörkuð við málverk eða höggmyndir, heldur list sem mætir kalli nútímans um samtal.“

Á kirkjustæðinu í Cannaregio geta gestir MOSKUNNAR skoðað hluti sem tengjast bænahaldi múslima, svo sem qibla vegg, mihrab, minbar og stórt bænateppi sem vísar í átt að Mekka, en öllu er þessu stillt upp inni í kaþólskum arkitektúr Santa Maria della Misericordia og þannig skapast sjónræn hliðstæða sem sýnir lagskiptingu sögunnar, trúarbragða og menningar sem hefur stuðlað bæði að framförum og átökum.

Feneyjar voru miðstöð viðskipta við Miðjarðarhaf frá 13. öld og fram á þá fimmtándu, á tímum uppgangs Ottómanveldisins. Margslungin trúarleg og pólitísk mál einkenndu sögu Feneyja sem reyndi á menningarlega jafnvægislist milli austurs og vesturs. Stöðug og fjölbreytt samskipti í viðskiptum og menningu milli Feneyja og austursins urðu til þess að borgin var um aldir þungamiðja verslunar í heiminum, og sá ferðamannastaður sem hún er í dag. Ummerki íslamskra áhrifa má sjá um alla borg, enda er einstakur og víðfræðgur arkitektúr borgarinnar blanda af vestrænum og austrænum byggingarstíl. Feneyska mállýskan er hlaðin arabískum orðum og áherslum. Fyrsti Kóraninn á arabísku sem prentaður var í prentsmiðju kom út í Feneyjum um 1537-38 og eina varðveitta eintakið sem til er nú af þessari prentun er að finna í Feneyjum.

MOSKAN vekur einnig athygli á málefnum sem tengja Feneyjar og Ísland og móta samtal um framtíð hvorrar borgar fyrir sig. Í Feneyjum hafa sprottið upp vandamál í tengslum við viðskiptavæðingu menningar, fullmettaðan ferðamannamarkað og sífellda fækkun innfæddra sem felur í sér hættu á stöðnun í borginni. Á Íslandi má finna hliðstæður í tengslum við mikinn vöxt ferðamanna síðustu árin, viðskiptavæðingu og ofnýtingu náttúrunnar og lágt hlutfall innflytjenda.

MOSKUNNI er ætlað að styrkja tengsl og stuðning milli félaga múslima á Íslandi og í Feneyjum. Dagskráin býður meðal annars upp á íslenskukennslu og upplýsingar fyrir íbúa Feneyja sem hafa áhuga á að flytjast búferlum til Íslands. Á sýningartímanum stendur almenningi, þ.m.t. íslenskum ríkisborgurum, til boða að velta fyrir sér menningarlegum, sögulegum og félagspólitískum kerfum sem skilgreina samtímann og hvetja til samtals um þau tækifæri og áskoranir sem verða til þegar þau greinast. MOSKAN er birtingarmynd lagskiptingar menningarheima og þeirrar hugmyndafræði sem hefur mótað Feneyjar og opnað fyrir margar af stærstu samfélagslegu spurningum samtímans.

Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri KÍM, segir: „Feneyjatvíæringurinn hefur alltaf veitt góða innsýn inn í stöðu samtímamyndlistar í heiminum og verið vettvangur þar sem mörk listarinnar eru könnuð til hins ýtrasta. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar kynnir með stolti verk listamannsins Cristoph Büchel, MOSKAN, sem framlag íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum 2015. Verk Cristoph veitir okkur tækifæri til að koma á samtali og samskiptum á milli menningarheima sem mikil þörf er á bæði á Íslandi og víðar.“

„Við erum stolt að styðja við MOSKUNA, framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins,“ segir Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi. „Það er einkar viðeigandi að þetta verk skuli vera sett fram á sama tíma og mikil umræða á sér stað um byggingu fyrstu moskunnar í Reykjavík. Fordómar og pólitískur þrýstingur gerðu það að verkum hér áður fyrr, bæði á Íslandi og á Ítalíu, að óhugsandi þótti að ímynda sér moskur á hvorum staðnum. En nú, þegar íslenski skálinn er að taka á sig lokamynd, stöndum við í Félagi múslima á Íslandi fyrir hönnunarsamkeppni meðal fremstu arkitekta Evrópu og höldum áfram áformum um byggingu fyrstu moskunnar í nyrstu höfuðborg heims. Það er von okkar – InshaAllah – að verkefni sem þessi leiði til líflegrar starfsemi múslima um heim allan og ánægjulegri og aukinna, friðelskandi samskipta milli okkar allra í Feneyjum, Reykjavík og borga um allan heim.“

MOSKAN er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Einnig naut verkið stuðnings Juan Carlos Verme og Joel Yoss, Hauser & Wirth, Ingunnar Wernersdóttur, Íslandsstofu og Pro Helvetia.

Um listamanninn

Cristoph Büchel er fæddur árið 1966 í Basel í Sviss og er þekktur alþjóðavettvangi fyrir konseptverk sín og margslungnar og umfangsmiklar innsetningar. Christoph sækir oft efnivið í málefni líðandi stundar og pólitísk álitamál, endurvinnur fjölmiðlaefni og hversdagslegar aðstæður. Nákvæmar túlkanir hans á raunveruleikanum virðast oft raunverulegri en sjálfur rauveruleikinn. Oft er heimurinn sem hann skapar fullvirkur og sýningargestir eiga til að gleyma að þeir eru staddir inni í listræni innsetningu, sem er eiginlega varpað inn í annað samhengi og samfélagslegar umgjarðir sem mynda samtímann. Þessar raunverulegu innsetningar fela oft einnig í sér samspil og samtal við ákveðin samfélög og eru vandvirkar smíðar sem endurspegla innviði og valdakerfi þróaðra kapitalískra samfélaga auk þess að draga fram samhengi sem við þykjumst ekki sjá eða vísvitandi neitum að gangast við.

Í verkum Christophs býr margbreytileiki í ítarlegum nákvæmnisatriðum hvers verks. Höfundareinkenni hans koma fram í marglaga félagslegum og pólitískum útlistunum. Christoph kemur auga á mótsagnir og samfélagslegan ójöfnuð í hugmyndafræðilegu öflunum við lýði í dag og finnur leið með list sinni til að afhjúpa og streitast gegn þessum öflum með því að opinbera þau sem tilbúna veruleika háða breytingum.

Um Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar

Kynningarmiðstöðin er tengiliður íslensks myndlistarsamfélags við alþjóðlegan myndlistarvettvang. Kynningarmiðstöðin rennir stoðum undir samstarf innlendra og erlendra listamanna með það að leiðarljósi að auka hróður íslenskrar myndlistar erlendis.

Almennar upplýsingar

Upplýsingar um dagskrá THE MOSQUE má finna á vefsíðunni www.mosque.is eftir 8. maí 2015.

FREKARI UPPLÝSINGAR:

Andrea Schwan

Andrea Schwan Inc.

[email protected]

+1 917 371 5023

Björg Stefánsdóttir

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar

 [email protected]

+354 864 6822

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum