Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2015 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Mælt fyrir þremur frumvörpum um höfundaréttarmál

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra mælti í dag fyrir frumvörpum til þrennra nýrra laga um breytingar á höfundaréttarlögum.

  • Með fyrsta frumvarpinu er markmiðið að innleiða Evróputilskipun um að gera svokölluð munaðarlaus verk aðgengileg almenningi og þá jafnframt að sjá til þess að ekki sé gloppa í aðgengi að menningararfi Evrópu í stafrænu formi. 

Frumvarpið tekur til almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna, varðveislustofnana kvikmynda og hljóðrita, og útvarpsstöðva sem veita opinbera þjónustu. Skilgreint er hvað telst vera munaðarlaust verk. Tilskipunin heimilar ákveðnum menningarstofnunum að nota verk án heimildar rétthafa ef eftir ítarlega leit er komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi verk séu munaðarlaus.

Höfundalög (EES-reglur, munaðarlaus verk) 700. mál, lagafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra.


  • Næsta frumvarp fjallar um lengri verndartíma hljóðrita. Þar er einnig um innleiðingu tilskipunar ESB að ræða. Þær breytingar sem lagðar eru til á höfundalögum í frumvarpinu taka til eftirfarandi atriða:

- Lagt er til að útreikningur á verndartíma tónverka með texta verði samræmdur þannig að verndartími tónlistar og söngtexta verði 70 ár frá dánarári þess höfundar sem lengur lifir, hvort sem það er tónskáld eða textahöfundur.

- Í frumvarpinu felst tillaga um lengdan verndartíma á hljóðritum á eftirfarandi hátt:

                a.     Að verndartími fyrir rétt flytjenda til hljóðrita af listflutningi þeirra sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi lengist úr 50 árum í 70 ár, reiknað frá útgáfudegi eða þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

                b.     Sama breyting er lögð til á rétti framleiðenda hljóðrita til hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi.

- Framlengingu verndartíma hljóðrita fylgir nýtt ákvæði um rétt listflytjenda til árlegrar viðbótarþóknunar á framlengdum verndartíma. Viðbótarþóknunin skal samsvara 20% af þeim tekjum sem framleiðandi hljóðrits hefur af því að á framlengdum verndartíma.

- Frumvarpið felur í sér nýtt ákvæði sem heimilar listflytjanda að segja upp samningi um framsal réttinda ef umsamin réttindi eru ekki nýtt í nægilegum mæli. Loks er í frumvarpinu sérstakt ákvæði um gildistöku sem segir til um í hvaða mæli hinum breyttu reglum verður beitt um gildandi réttindi og framsalssamninga.

Höfundalög (EES-reglur, lengri verndartími hljóðrita) 701. mál, lagafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra.


  • Þriðja frumvarpið fjallar um einkaréttindi höfunda, samningskvaðir og fleira. Markmiðið er að færa ákvæði höfundalaga um réttindi höfunda til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til Evróputilskipunar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu.

Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur. Annars vegar er lagt til að færa I. kafla höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda og fleira, til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Hins vegar er tilgangurinn með endurskoðun laganna að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum. Með samningskvöð er átt við það að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru af höfundarétti, sem gert hafa samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga/félagsmanna þeirra (t.d. með ljósritun), skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins. Þetta fyrirkomulag auðveldar notkun verka, til hagsbóta fyrir rétthafa og notendur, í þeim tilvikum sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða. Sem dæmi um slíkt má nefna ljósritun fyrir kennslu eða flutning tónlistar í útvarpi.

Höfundalög (einkaréttindi höfunda, samningskvaðir o.fl., EES-reglur) 702. mál, lagafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira