Vegna umræðu um makríl
Í ljósi umræðu um gildissvið frumvarps um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl er rétt að koma eftirfarandi á framfæri:
Í frumvarpinu er lögð til tímabundin úthlutun aflahlutdeilda í makríl. Úthlutunin er til sex ára, en framlengist síðan árlega um eitt ár þar til ákvæði frumvarpsins um fyrirkomulag úthlutunar er breytt eða nýtt ákvæði sett í lög sem mælir fyrir um annað fyrirkomulag.
Í frumvarpinu er jafnramt kveðið á um að aflahlutdeildir þessar verði ekki felldar niður að hluta eða öllu leyti nema með minnst sex ára fyrirvara. Þetta er gert til þess að stuðla að ákveðnum fyrirsjáanleika í veiðunum en fyrirsjáanleiki í veiðum og vinnslu er mikilvægur með tilliti til fjárfestinga, markaða og veiðitíma svo fátt eitt sé nefnt.
Framangreind leið tímabundinnar úthlutunar er farin vegna þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. Það er því mikilvægt við hlutdeildarsetningu nýrra stofna að kveða skýrt á um úthlutun tímabundinna réttinda meðan ekki hefur tekist að ljúka lagasetningu um tímabundna leigusamninga fyrir alla fiskistofna. Að auki er meiri óvissa um makríl en um aðra stofna.
Nokkurs misskilnings virðist gæta um gildissvið frumvarpsins. Þannig gilda efnisákvæði frumvarpsins um hlutdeildarsetningu makrílsins og útfærslu hlutdeildarsetningar. Skýrt er tekið fram í frumvarpinu að ákvæði annarra laga á sviði fiskveiðistjórnar, svo sem ákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, gilda um stjórn veiða á makrílstofninum eftir því sem við getur átt og ákvæðum frumvarpsins sleppir.
Þannig munu ýmis efnisákvæði núgildandi laga gilda um makríl og makrílveiðar ekki síst sú meginregla laga nr. 116/2006 að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Samkvæmt framasögðu gilda þessi efnisákvæði núgildandi laga um úthlutun aflahlutdeilda í makríl.