Hoppa yfir valmynd
8. maí 2015 Atvinnuvegaráðuneytið

Samkomulag Íslands, Grænlands og Noregs um nýja aflareglu vegna loðnu undirritað

Samninganefndir Íslands, Grænlands og noregs
Samninganefndir Íslands, Grænlands og noregs

Í dag lauk tveggja daga fundi Íslands, Grænlands og Noregs um loðnusamning þjóðanna. Samkomulag náðist á fundinum um nokkuð breytt skilyrði í samningi fyrir vertíðina 2015/2016. Um er að ræða samkomulag milli strandríkjanna þriggja og sérstakt samkomulag milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar. 

Strandríkin ákváðu að taka upp nýja aflareglu, með aðlögun nú í sumar, sem er í samræmi við nýjustu ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins og Hafrannsóknastofnunar. Þessi nýja aflaregla mun leiða til lægri heildarafla í upphafi vertíðar vegna varúðarsjónarmiða. Er þetta mjög í samræmi við hagsmuni Íslands vegna mikilvægi loðnu fyrir lífríki hafsins hér við land. Jafnframt verður notkun flotvörpu við loðnuveiðar bönnuð við Grænland á sumarvertið ásamt því sem Grænland mun setja sams konar reglur um lokun veiðisvæða vegna smárrar loðnu í afla og gilda hér við land.

Samningur handsalaðurÍ samningnum er nokkur breyting á reglum um aðgang Grænlands og Noregs að íslenskri lögsögu. Grænland getur á næstu vertíð veitt allt að 35.000 tonn við Suður- og Vesturströndina, sunnan 64° 30N og eftir 15. febrúar, en hafði áður heimild til veiða á 23.000 tonnum. Grænland fékk jafnframt heimild til vinnslu afla um borð í einu veiðiskipi innan íslenskrar lögsögu og nær sú heimild til allt að 6.500 tonna.

Í samningi við Noreg var ákveðið að Noregur geti veitt allar sínar aflaheimildir innan íslensku lögsögunnar, en hingað til hafa þeir einungis haft heimild til veiða á 35% sinna aflaheimilda innann íslensku lögsögunnar. Ef Norðmenn hafa öðlast aflaheimildir frá Grænlandi, beint eða óbeint, geta þeir einnig veitt þær innan íslenskrar lögsögu. Veiðitíminn breyttist um eina viku, þ.e.a.s. nú geta þeir veitt frá 1. október til 22. febrúar í stað 15. febrúar. Engar breytingar voru gerðar á takmörkun á svæði og er Noregur bundinn af að veiða norðan 64° 30‘N. Fjölda skipa sem geta veitt í einu innan íslensku lögsögunnara var breytt þannig að nú geta 25 skip verið að veiðum á hverjum tíma. Áður gátu 30 skip verið að veiðum samtímis fyrir 1. desember en allt að 20 eftir 1. desember.

Telja verður það mikilvægan árangur að strandríkin skulu hafa náð samkomulagi um veiðar á þessum mikilvæga stofni í samræmi við ráðleggingar vísindamanna. Eins og fram kemur í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins  getur mikil sumarveiði leitt til minni afraksturs úr stofninum bæði vegna þess að loðnan þyngist mjög fram að hausti auk þess sem mikið er um ungloðnu á veiðisvæðinu á sumrin sem getur dregið mjög úr möguleikum hennar til að lifa af, m.a. vegna smugs í gegnum möskva veiðarfæra.  Því er jafnframt mikilvægt fyrir hagsmuni Noregs og Grænlands  að náðst hafi samkomulag um bættan aðgang þeirra til veiða á sínum hlut á haust- og vetrarvertíð á Íslandsmiðum í stað sumarveiða þessara þjóða.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Samninganefndir Íslands, Grænlands og noregs

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta