„Matvælalandið Ísland“ hefur mikla möguleika
Íslensk matvæli og matarmenning Íslendinga eru ein af grunnstoðum ferðaþjónustunnar. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja á næstu fimm árum 80 milljón krónur árlega til verkefnisins „Matvælalandið Ísland“, en því er ætlað að treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar.
Vaxandi fjöldi ferðamanna í heiminum velur áfangastað vegna matarmenningar og upplifunar sem tengist mat með einum eða öðrum hætti. Matarmenning landsins og matreiðsla skiptir þannig miklu máli fyrir þau gæði sem ferðamaðurinn upplifir í heimsókn sinni. „Með því að auka áhuga ferðamanna á að upplifa og njóta íslensks matar og afþreyingar sem byggist á íslenskum matarhefðum er verið að auka verðmætasköpun, bæði hvað varðar fjölda ferðamanna sem og afrakstur af hverjum og einum“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Við mótun verkefnisins var m.a. horft til reynslu Svía sem árið 2008 settu af stað verkefnið „Try Swedish!“. Ávinningur þeirra hefur verið mikill og gildir þá einu hvort horft er til fjölgunar starfa í veitingageiranum, verslunar með sænska matvöru, útflutnings á sænskum matvælum, styrkingar byggðar í þeim héruðum Svíþjóðar sem byggja á hefðbundinni sænskri matvælaframleiðslu og viðhorfi umheimsins til Svíþjóðar sem framleiðslulands hreinna og góðra matvæla.
Umsjón verkefnisins „Matvælalandið Ísland“ verður í höndum Íslandsstofu.