Starfsmenn Fiskistofu munu geta valið hvort þeir starfa á Akureyri eða í Hafnarfirði
Sjávarútvegsráðherra hefur tilkynnt starfsmönnum Fiskistofu að hver og einn núverandi starfsmaður Fiskistofu í Hafnarfirði muni hafa val um það hvort hann hafi starfsstöð á Akureyri eða á Hafnarfirði, nái áform um flutning höfðustöðva til Akureyrar fram að ganga.
Í nýlegu áliti gerir umboðsmaður Alþingis athugasemdir við undirbúning áforma um flutning höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar og lúta þær m.a. að því að ráðherra „geri starfsmönnum Fiskistofu formlega grein fyrir stöðu þess nú og hvers megi vænta um framhaldið.“
Meðal markmiða ríkisstjórnarinnar er að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa, en á síðustu árum hefur opinberum störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en fækkað á landsbyggðinni.
Verði frumvarp um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands samþykkt á vorþingi verður tekin ákvörðun um flutning höfuðstöðva Fiskistofu.
Í kjölfar þess mun fiskistofustjóri flytjast til höfuðstöðvanna á Akureyri og starfa þar ásamt starfsmönnum sem þar eru fyrir, öðrum sem óska eftir flutningi norður á Akureyri og nýjum starfsmönnum sem ráðnir verða. Starfsmenn Fiskistofu sem nú starfa í Hafnarfirði munu hafa val um starfsstöð á Akureyri eða í Hafnarfirði.
Eftir sem áður mun tölvuþjónusta stofnunarinnar verða staðsett í Reykjavík en hún þjónar einnig Hafrannsóknastofnun.