Hoppa yfir valmynd
18. maí 2015 Atvinnuvegaráðuneytið

Ráðherra á heimsfrumsýningu Hrúta

Grímar Jónsson, Sigurður Sigurjónsson, Grímur Hákonarson, Theodór Júlíusson og Ragnheiður Elín
Grímar Jónsson, Sigurður Sigurjónsson, Grímur Hákonarson, Theodór Júlíusson og Ragnheiður Elín

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var viðstödd heimsfrumsýningu íslensku kvikmyndarinnar Hrútar á Cannes-hátíðinni í Frakklandi síðastliðinn föstudag. 

Cannes kvikmyndahátíðin er nú haldin í 68. skipti og er ein allra stærsta og virtasta kvikmyndahátíð heims. Hrútar er tilnefnd til Un Certain Regard verðlaunanna, en auk þess er myndin ein af myndum í opinberri dagskrá hátíðarinnar í ár (e. Cannes Official Selection). Myndin var valin úr fjögur þúsund kvikmyndum um allan heim sem ein af þeim 20 sem keppa til Un Certain Regard verðlaunanna í ár.

Fyrir frumsýningu á HRÚTARHrútar eru í leikstjórn Gríms Hákonarsonar og er þetta hans önnur mynd í fullri lengd. Sú fyrri, Sumarlandið, kom út árið 2010. Með aðalhlutverk í myndinni fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures. Þá er Þórir Snær Sigurjónsson einn af framleiðendum myndarinnar. Tónlist var samin af Atla Örvarssyni. Tökur á myndinni fóru fram í Bárðardal og verður hún frumsýnd á Íslandi í lok maí.

Un Certain Regard hluti Cannes kvikmyndahátíðarinnar var settur á laggirnar árið 1978. Markmiðið með verðlaununum er að gera kvikmyndagerðarmönnum sem gert hafa kvikmynd sem hefur frumleika og hugrekki að leiðarljósi hátt undir höfði, m.a. með styrk til dreifingar á kvikmyndinni í Frakklandi. Leikkonan Isabella Rossellini er forseti dómnefndar í ár.

Þrjár íslenskar myndir hafa verið tilnefndar til verðlaunanna áður. Sú fyrsta var Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson árið 1993. Stormviðri eftir Sólveigu Anspach var tilnefnd árið 2003. Hún var tekin að miklu leyti upp í Vestmannaeyjum og framleidd af Baltasar Kormáki í samvinnu við Frakka. Voksne mennesker (e. Dark Horse) eftir Dag Kára var tilnefnd árið 2005, en hún var gerð af Dönum í samvinnu við ZikZak kvikmyndir.

Á laugardag kynnti Ragnheiður Elín sér vinnusmiðjur fyrir unga kvikmyndaframleiðendur á Norðurlöndunum (e. Young Nordic Producers) sem skipulagðar eru af Danska kvikmyndaskólanum með þátttöku frá öllum Norðurlöndum. Hún var einnig viðstödd þegar norrænir framleiðendur voru heiðraðir á Scandinavian Terrace, en þar var Heather Millard fulltrúi Íslands.

Á sunnudag sat ráðherra ráðstefnu franska menningarmálaráðherrans Fleur Pellerin um framtíð höfundaréttar í Evrópu.

Meðal þeirra sem tóku þátt í ráðstefnunni voru Günter Oettinger úr Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem fer með málefni  „stafræns hagkerfis og samfélags“ og Silvia Costa, Evrópuþingmaður og formaður mennta- og menningarmálanefndar Evrópuþingsins.

Ragnheiður Elín, Laufey Guðjónsdóttir og framkvæmdastjóri Film in New ZealandEftir ráðstefnuna átti Ragnheiður Elín fund með framkvæmdastjóra Film in New Zealand og fékk m.a. kynningu á kvikmyndaendurgreiðslukerfi Nýsjálendinga.




Þá sat hún einnig hádegisverðarfund í boði sænska sendiherrans í París þar sem þáttur kvenna í kvikmyndagerð var til umræðu. Sænski menningarmálaráðherrann Alice Bah Kuhnke tók einnig þátt í hádegisverðarfundinum ásamt aðilum úr kvikmyndageiranum, frá Svíþjóð, Noregi og Austurríki.

Ragnheiður Elín og Alice Bah Kuhnke menningarmálaráðherra SvíþjóðarRáðherra fundaði jafnframt síðdegis, ásamt Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra, með Alice Bah Kuhnke, menningarmálaráðherra Svíþjóðar þar sem umhverfi kvikmyndagerðar beggja landa var til umræðu.






Grímar Jónsson, Sigurður Sigurjónsson, Grímur Hákonarson, Theodór Júlíusson og Ragnheiður Elín















Fyrir frumsýningu á HRÚTAR






Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta