Hoppa yfir valmynd
19. maí 2015 Atvinnuvegaráðuneytið

Ráðherra hefur ekki heimild til að ákveða hvaða dýralæknar skuli annast kjötskoðun

Í gær var farið fram á það við landbúnaðarráðherra að hann sjái til þess að yfirdýralæknir eða sjálfstætt starfandi dýralæknir verði fenginn til að starfa sem kjötskoðunarlæknir við slátrun grísa. Í lögum  um slátrun og sláturafurðir nr. 96/1997 er Matvælastofnun falið að taka ákvörðun um það hvort annar dýralæknir en héraðsdýralæknir annist kjötskoðun og heilbrigðiseftirlit og er ráðherra því  óheimilt að taka slíka ákvörðun.

Í 3. gr. laga um slátrun og sláturafurðir kemur fram að kjötskoðunarlæknir sé héraðsdýralæknir, eða annar dýralæknir samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar, sem annast kjötskoðun og heilbrigðiseftirlit í sláturhúsum og kjötvinnslustöðvum. Þannig er Matvælastofnun falið að taka ákvörðun um það hvort annar dýralæknir en héraðsdýralæknir skuli annast kjötskoðun og heilbrigðiseftirlit.

Samkvæmt 4. gr. sömu laga hefur ráðherra yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til. Matvælastofnun skal vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að framkvæmd laganna. Þannig er Matvælastofnun falið tiltekið hlutverk gagnvart ráðherra, t.d. að veita meðmæli við löggildingu sláturhúsa, tillögu að reglum um töku og sendingu sýna úr sláturdýrum, umsagnir vegna breytinga á sláturhúsum og svo framvegis.

Þar sem Matvælastofnun er skv. 3. gr. laganna falið að taka ákvörðun um það hvort annar dýralæknir en héraðsdýralæknir annist kjötskoðun og heilbrigðiseftirlit getur ráðherra ekki tekið þá ákvörðun. Framangreindri beiðni þarf því að vísa til Matvælastofnunar sem tekur ákvörðun um það hvort annar dýralæknir en héraðsdýralæknir verði fenginn til að starfa sem kjötskoðunarlæknir samkvæmt ákvæðum laga um slátrun og sláturafurðir.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta