Hoppa yfir valmynd
22. maí 2015 Utanríkisráðuneytið

Málefni hafsins og endurnýjanleg orka í brennidepli norðurslóðasamstarfs Íslands og Bandaríkjanna

Gunnar Bragi og John Kerry

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, áttu fund í Washington í gær þar sem samskipti Íslands og Bandaríkjanna voru til umræðu, varnar- og öryggismál og málefni norðurslóða.

Á fundinum tilkynnti utanríkisráðherra að Ísland bjóði fram krafta sína til að taka þátt í að leiða vinnu Norðurskautsráðsins um málefni hafsins á næstu misserum. Bandaríkin tóku við formennsku í Norðurskautsráðinu í síðasta mánuði og verða málefni hafsins meðal helstu áherslumála bandarískra stjórnvalda á formennskutímabilinu. Utanríkisráðherra fagnar þessari áherslu og segir það sameiginlegt hagsmunamál norðurskautsríkjanna að vernda vistkerfi sjávar jafnhliða því að auðlindir hafsins séu nýttar á sjálfbæran hátt.

Gunnar Bragi segir samvinnu á norðurslóðum sívaxandi þátt í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Því vilji Íslendingar leggja sitt af mörkum til að styðja formennsku Bandaríkjanna og miðla enn frekar af þekkingu sinni og reynslu af málefnum hafsins í Norðurskautsráðinu, auk þess sem skrifstofa vinnuhóps ráðsins um umhverfisvernd hafsins á norðurslóðum er starfrækt á Akureyri.

Aukin nýting endurnýjanlegrar orku á norðurslóðum er annað áherslumál bandarískra stjórnvalda á formennskutímabilinu sem ráðherrarnir ræddu. Gunnar Bragi segir ýmis vannýtt tækifæri á því sviði þar sem íslenskt hugvit getur reynst dýrmætt en bandarísk og íslensk stjórnvöld standa fyrir ráðstefnu um orkumál á norðurslóðum í Alaska í september næstkomandi.

Ráðherrarnir ræddu varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna þar sem Gunnar Bragi áréttaði að íslensk stjórnvöld tryggi rekstur og viðhald mikilvægs varnarviðbúnaðar á Íslandi sem sé hlekkur í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins. Samvinna ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála hafi styrkst á ný á síðustu tveimur árum og mikilvægt sé að halda áfram á þeirri braut. Þá hafi þátttaka Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja í loftrýmisgæslu á Íslandi gengið vel.   

Ráðherrarnir fjölluðu um áskoranir varðandi leit og björgun á norðurslóðum og upplýsti Gunnar Bragi um vinnu íslenskra stjórnvalda við að greina þarfir og tækifæri við uppbyggingu viðbragðs- og björgunarmiðstöðvar á Íslandi.

Málefni Úkraínu voru einnig til umfjöllunar og ræddu ráðherrarnir meðal annars samskiptin við Rússland og stuðning íslenskra stjórnvalda við efnahagsuppbyggingu í Úkraínu sem felst í kortlagningu á mögulegum tækifærum til jarðhitanýtingar í landinu. Lýsti John Kerry mikilli ánægju með þennan stuðning Íslands við Úkraínu.

Þá voru hvalveiðar Íslendinga ræddar en Gunnar Bragi áréttaði að skiptar skoðanir ríkjanna á því sviði varpi ekki skugga á annað samstarf ríkjanna sem sé með ágætum.

"Það kom skýrt fram á fundi okkar að vinátta og sterk tengsl Íslands og Bandaríkjanna standa styrkum fótum. Það segir sína sögu að bandarískir aðilar eru stærstu fjárfestar á Íslandi, bandarískir ferðamenn flykkjast umvörpum til Íslands og fjöldi bandarískra kvikmynda og sjónvarpsþátta hafa verið teknar upp á Íslandi síðustu ár. Við viljum rækta og þróa enn frekar vaxtarbrodda í viðskiptum og ferðamennsku, við nýtingu endurnýjanlegrar orku og í skapandi greinum svo dæmi séu tekin. Þá standa gagnkvæmar skuldbindingar ríkjanna í öryggis- og varnarmálum óhaggaðar og ríkur vilji er til að halda áfram á þeirri braut að styrkja það samstarf á grundvelli varnarsamningsins" segir Gunnar Bragi. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira