Hoppa yfir valmynd
27. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lán frá Póllandi greitt upp

Fjármála- og efnahagsráðherra, fjármálaráðherra Póllands og seðlabankastjóri undirrituðu viðauka við lánssamninginn við Pólland, sem gerir ríkissjóði kleift að forgreiða lán Póllands.
Fjármála- og efnahagsráðherra, fjármálaráðherra Póllands og seðlabankastjóri undirrituðu viðauka við lánssamninginn við Pólland, sem gerir ríkissjóði kleift að forgreiða lán Póllands.

Ríkissjóður Íslands endurgreiðir fyrirfram í vikunni lán frá Póllandi sem tekið var árið 2009 í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda eftir fall fjármálakerfisins, sem studd var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Um er að ræða endurgreiðslu að fjárhæð 204 milljónir slota, jafnvirði um 7,3 milljarða króna. Lánsloforð Pólverja var upp á 630 milljónir slota og þar af nýtti Ísland um þriðjung. Lánið var á gjalddaga á árunum 2015-2022

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Mateusz Szczurek fjármálaráðherra Póllands undirrituðu í dag viðauka við lánssamning Póllands við ríkissjóð, sem gerir ríkissjóði kleift að forgreiða lán Póllands. Szczurek er staddur hér á landi í vináttuheimsókn í boði fjármála- og efnahagsráðherra.

„Með því að bjóða Íslandi lán á erfiðum tímum og leggja þannig þjóðinni lið við endurreisn landsins sýndu Pólverjar Íslendingum mikið vinarbragð. Slík vinátta er dýrmæt og íslenska þjóðin þakkar fyrir hana,“ sagði Bjarni Benediktsson á fundi ráðherranna í dag.

Endurgreiðsla markar tímamót

Endurgreiðsla á láni Pólverja til Íslands markar tímamót. Með henni lýkur uppgjöri á þeirri aðstoð sem Ísland fékk frá vinaþjóðum í formi lána í kjölfar hrunsins. Árið 2014 forgreiddu ríkissjóður og Seðlabanki Íslands það sem út af stóð af lánum Norðurlanda.

Seðlabanki Íslands hefur þegar forgreitt meirihluta af láni AGS. Eftir standa gjalddagar í lok þessa árs og á fyrrihluta næsta árs.

Greiður aðgangur Íslands að erlendum fjármagnsmörkuðum, eins og velheppnuð skuldabréfaútgáfa í evrum í fyrra vitnar um, ásamt þeim árangri sem náðst hefur í efnahags- og ríkisfjármálum á síðustu árum og betri afkomu ríkissjóðs, hefur gert Íslandi kleift að forgreiða þau lán sem tekin vor í kjölfar hruns fjármálakerfisins

Nánari upplýsingar veitir Esther Finnbogadóttir í síma 5459200.

Fjármálaráðherrar Íslands og Póllands á blaðamannafundi í dag
Fjármálaráðherrar Íslands og Póllands á blaðamannafundi í dag

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum