Hoppa yfir valmynd
29. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

  •  Aðgerðir í 11 liðum vegna kjarasamninga
  •  Breytingar á tekjuskatti leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega
  • Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga á kjörtímabilinu allt að 16 milljarðar
  • Átak um byggingu 2300 félagslegra íbúða
  • Komið til móts viðefnaminni leigjendur og þá sem kaupa fyrstu íbúð
  • Aukið samstarf við aðila vinnumarkaðar með stofnun þjóðhagsráðs

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag ráðstafanir í tengslum við gerð kjarasaminga á almennum vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru í 11 liðum og lúta að ýmsum sviðum skatta- og velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Mikilvæg forsenda fyrir ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er að kjarasamningar á almennum og opinberum markaði leiði ekki til óstöðugleika í efnahagsmálum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar taka mið af því að í fyrirhuguðum samningum á almennum vinnumarkaði er hugað sérstaklega að þeim tekjulægstu og að lágmarkslaun hækki í 300 þúsund krónur á samningstímanum.  

Ríkisstjórnin mun meðal annars beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem munu leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, en þó sérstaklega millitekjuhópa. Sem dæmi má nefna að ráðstöfunartekjur um 65% fullvinnandi launamanna munu aukast um 50 þúsund eða meira á ári og ráðstöfunartekjur launþega með meðaltekjur munu aukast um tæpar 100 þúsund á ári. Breytingarnar munu einnig leiða til einföldunar tekjuskattkerfisins og aukins gagnsæis og skilvirkni, en skattþrepum verður fækkað úr þremur í tvö. Þá mun persónuafsláttur hækka til samræmis við verðlagsbreytingar.

Með aðgerðunum mun heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga því nema um allt að 16 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Það samsvarar tæpum 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga miðað við áætlun fjárlaga 2015.

Ríkisstjórnin skuldbindur sig einnig, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Þannig verði stuðlað að fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða með það að markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og ráðist í átak um byggingu 2.300 félagslegra íbúða á tímabilinu 2016-19. 

Einnig verði stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og gjaldtöku sveitarfélaga. Húsnæðisbætur verði hækkaðar til að styðja við almennan leigumarkað og lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og skattlagningu breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð á leigumarkaði. Þá verði komið sérstaklega til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, m.a. með því að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað til þess. Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði  og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum.      

Í því skyni að bæta samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lýsir ríkisstjórnin sig reiðubúna að stofna sérstakt þjóðhagsráð þar sem aðild eigi oddvitar ríkisstjórnar og fulltrúar Seðlabankans, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Aðrar aðgerðir lúta að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða, niðurfellingu tolla á fatnað og skó, lækkun á kostnaði sjúklinga, auknum framlögum til framhaldsfræðslu og starfsmenntunar, átaki gegn skattaundanskotum, einföldun og endurskoðun regluverks og eftirlits með atvinnustarfsemi, stefnumörkun í opinberum fjármálum og samstarfi um mótun vinnumarkaðsstefnu og skipulag vinnumarkaðsmála.


28. maí 2015

Yfirlýsing ríkisstjórnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga

Ríkisstjórnin er reiðubúin til að liðka fyrir gerð kjarasamninga sem ekki fela í sér ógn við stöðugleika í efnahagsmálum. Mikilvægt er að niðurstöður kjaraviðræðna ásamt og með áhrifum þeirra ráðstafana sem stjórnvöld beita sér fyrir í tengslum við þær stuðli að því að Seðlabanki Íslands geti staðið við verðbólgumarkmið sitt. Það er því forsenda fyrir ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar að kjarasamningar á almennum og opinberum vinnumarkaði leiði ekki til óstöðugleika í efnahagsmálum.

 Í minnisblaði þessu er gerð grein fyrir beinum fjárhagslegum ráðstöfunum stjórnvalda á tilteknum sviðum skatta- og velferðarmála og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála.

I. Tekjuskattur. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem fela í sér minni skattheimtu af almennum launatekjum. Jafnframt miða þær breytingar að einföldun tekjuskattskerfisins, skilvirkari skattaframkvæmd og auknu gagnsæi varðandi  jaðaráhrif.

Í þessu skyni verður skattþrepum fækkað úr þremur í tvö í tveimur áföngum. Verður skattprósenta í lægra þrepi lækkuð úr 22,86% í 22,68% frá ársbyrjun 2016 og í 22,50% frá ársbyrjun 2017. Álag í milliþrepi verður helmingað frá ársbyrjun 2016 (fer í 1,22%) og það að fullu afnumið frá árslokum þess árs. Munur á milli þrepa í tveggja þrepa kerfi verður 9,30%  þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda. Miðað er við að fjárhæðarmörk við efsta þrep verði lækkuð í 770 þús. kr. við árslok 2015 og að skil milli þrepanna tveggja verði við 700 þús.kr. tekjumark þegar breytingarnar eru að fullu komnar fram. Þessar fjárhæðir eru háðar breytingum á launavísitölu.     

Persónuafsláttur mun hækka til samræmis við verðlagsbreytingar.

Beint tekjutap ríkissjóðs vegna framangreindra ákvarðana er áætlað u.þ.b. 9-11 ma.kr. þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda. Vegna þessa er ekki gert ráð fyrir að svigrúm verði til lækkunar tryggingargjalds líkt og verið hefur til skoðunar. Af sömu ástæðum verður hlutdeild sveitarfélaga í tekjuskatti (útsvar) endurskoðuð að höfðu samráði við sveitarfélög.

Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga mun þannig nema um allt að 16 ma.kr. á tímabilinu 2014-2017, en það svarar til tæpra 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga m.v. áætlun fjárlaga 2015.

Sá almenni fyrirvari er hafður á síðari áfanga þessara breytinga að þær muni því eingöngu koma til framkvæmda að það geti talist forsvaranlegt með tilliti til þróunar og horfa um þróun efnahagsmála eins og þær verða metnar um mitt ár 2016.

Stefnt er að því að lögfesta framangreindar breytingar á haustþingi.

II. Húsnæðismál. Vísað er til sérstakrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög frá 28. maí 2015 um húsnæðismál þar sem markmiðið er að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, styðja við leigumarkað og kaup á fyrstu íbúð og tryggja aukið framboð á íbúðarhúsnæði samkvæmt ráðstöfunum sem nánar er kveðið á um í yfirlýsingunni. Þær ráðstafanir sem fram koma í yfirlýsingunni miða fyrst og fremst að því að bæta hag tekjulágra fjölskyldna og ungs fólks á húsnæðismarkaði. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

III. Jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða. Stjórnvöld munu beita sér fyrir því að draga til baka þá ákvörðun sem tekin hefur verið um lækkað framlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Tengist sú ákvörðun áformum  um breytingar á tryggingargjaldi. Áframhaldandi jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða er mikilvæg en æskilegt er að finna fyrirkomulag sem byggir á skýrum hlutlægum forsendum, sem er sjálfbært og ekki háð framlögum á fjárlögum.

IV. Niðurfelling tolla á fatnað og skó. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að tollar á fatnað og skó verði lagðir niður við árslok 2015 í því skyni að auka ráðstöfunartekjur heimila og stuðla að aukinni verslun á Íslandi.

V. Kostnaður sjúklinga. Á vegum stjórnvalda er unnið að nýju heildstæðu greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Nú er unnið að nauðsynlegri greiningarvinnu með það að markmiði að verja þá sjúklinga sem mest greiða og setja fjárhæðarþak á kostnað þeirra sem þurfa á mikilli þjónustu að halda.

VI. Framhaldsfræðsla og starfsmenntun. Tryggt verður fjármagn til að fylgja eftir sameiginlegum áherslum menntayfirvalda og aðila vinnumarkaðarins sem lúta að því að tryggja starfsemi símenntunarmiðstöðva og námstækifæri fyrir nemendur yfir 25 ára aldri, bætt skilyrði til starfsnáms með reglulegum og auknum framlögum til vinnustaðanámssjóðs og til að hefja vinnu við að skilgreina fagháskólastig og hvernig það gæti tengist bæði framhalds- og háskólakerfinu.  Aukin framlög á fjárlögum vegna þessara áherslna munu nema 200 m.kr. á ári hverju.

VII. Undanskot frá skatti. Ráðist verður í átaksverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, embættis ríkisskattstjóra, sveitarfélaga, ASÍ og SA til að sporna gegn svartri atvinnustarfssemi og tryggja hinu opinbera auknar tekjur með bættu skattskilum. Slíku átaki er ennfremur ætlað að  stuðla að auknu jafnræði í samkeppnisrekstri.

VIII. Eftirlit með atvinnustarfsemi. Ríkisstjórnin ítrekar vilja sinn til að taka til endurskoðunar löggjöf sem áhrif hefur á atvinnulífið með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Markmiðið er að draga úr reglubyrði og einfalda samskipti við opinbera aðila. Með þessu er stefnt að því að draga úr kostnaði fyrirtækja, auka framleiðni í atvinnulífinu, bæta samkeppnishæfni þess og stuðla að auknum kaupmætti. Ríkisstjórnin mun skipa samstarfsnefnd sem hafi það hlutverk að semja tillögur til breytinga á löggjöf sem miði að sameiningu eftirlitsstofnana, endurskoðun leyfisveitinga og eftirlits með atvinnurekstri.

IX. Vinnumarkaðsaðgerðir. Í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember 2013 um gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur verið starfandi nefnd félags- og húsnæðismálaráðherra um mótun vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála.  Ríkisstjórnin mun stuðla að því að ákveðnum verkefnum sem tengjast þessari stefnumörkun verði hrundið af stað í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og verja til þess nauðsynlegum fjármunum, allt að 25 m.kr. á ári.

X. Þjóðhagsráð. Í tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld er kveðið á um að bæta þurfi samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar ef takast eigi að skapa hagfelld skilyrði til hagvaxtar. Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til að slíkt Þjóðhagsráð verði stofnað. Aðild að því eigi oddvitar ríkisstjórnar á hverjum tíma (nú forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra) og fulltrúar Seðlabanka Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og sameiginlegur fulltrúi samtaka launþega á opinberum vinnumarkaði. Hlutverk Þjóðhagsráðs verði að leggja heildarmat á stöðu efnahagsmála hverju sinni með hliðsjón af hinum þremur fyrrgreindu meginstoðum hagstjórnar og meta svigrúm til kjarabreytinga á vinnumarkaði. Þjóðhagsráð tekur ekki ákvarðanir í efnahagsmálum og stofnun þess breytir í engu hinum lögbundnu hlutverkum þeirra aðila sem að því standa.

XI. Stefnumörkun í opinberum fjármálum. Frumvarp til laga um opinber fjármál felur í sér mikilvæg nýmæli sem varða stefnumörkun um opinber fjármál og því er ætlað að stuðla að góðri hagstjórn og betri stjórn opinberra fjármála, m.a. með nánari samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að við undirbúning fjármálaáætlunar, sem lögð er fyrir Alþingi að vori hvers árs samkvæmt frumvarpinu, verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það samráð verður formfest í samvinnu við samtök vinnuveitenda og launþega. 


28. maí 2015

Yfirlýsing ríkisstjórnar um húsnæðismál

Ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, skuldbindur sig til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stuðlað verður að því að landsmenn hafi aukið val um búsetuform og búi við meira öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, einkum tekjulágar fjölskyldur. Ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni taka upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög með það að markmiði að hrinda í framkvæmd eftirfarandi aðgerðum: 

1. Fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða

  • Lagður verður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum rikisins sem nema núvirt um 30% af stofnkostnaði. Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum. Lögaðilum sem hyggjast byggja og reka félagslegt leiguhúsnæði geta verið sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Settar verði skorður fyrir því að hægt verði að taka íbúðir út úr félagslega leigukerfinu en verði slíkt heimilt verða sett inn ákvæði um ráðstöfun söluhagnaðar.   
  • Ráðist verði í átak um byggingu félagslegra leiguíbúða. Stefnt er að því að byggja  2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, þ.e. á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.  Að því loknu verður metin þörf á áframhaldandi uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis, m.a. að teknu tilliti til stöðu opinberra fjármála. Áhersla verður á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum.
  • Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum, en við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda. Settar verða reglur um það, með hvaða hætti heildarfjölda heimilaðra félagslegra íbúða verði skipt milli ólíkra markhópa og framkvæmdaaðila.

2. Aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingakostnaðar

  • Af hálfu hins opinbera verður á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað. Endurskoðun á byggingareglugerð er þar á meðal og skipulagslög.
  • Við endurskoðun byggingareglugerðar verði tekinn inn nýr flokkur mannvirkja sem undanþeginn verði ákvæðum reglugerðar um altæka hönnun. Þar verði einkum horft til smærri og ódýrari íbúða.
  • Gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðargjalda verður skoðuð með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað.

3. Stuðningur við almennan leigumarkað

  • Til að lækka frekar húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar á árunum 2016 og 2017.  Grunnfjárhæð og frítekjumark verða hækkuð með hliðsjón af tillögum sem hafa verið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.
  • Skattlagningu tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða.  
  • Stefnt verður að sérstökum lagalegum ráðstöfunum fyrir fyrirtæki til að hvetja til langtímaleigusamninga og bæta þannig búsetuöryggi á almennum markaði. 

4. Stuðningur við kaup á fyrstu íbúð

  • Komið verður til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð. Hvatt verður til sparnaðar með því að þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, t.d. þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð. Mikilvægt er að upphæð vaxtabóta og skerðingarákvæði aðstoði einkum fjölskyldur undir meðaltekjum.
  • Um fasteignalán til neytenda verði sett sérlög og lánveitendum veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en niðurstöðu greiðslumats við ákvörðun um lántöku.

Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði  og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum. Við það er miðað að frumvarp um húsnæðisbætur verði lagt fyrir vorþing 2015 og að önnur frumvörp sem nauðsynleg eru til að framangreind markmið nái fram að ganga verði lögð fram á haustþingi 2015 og afgreidd fyrir áramót.

Unnið verður áfram að breyttu fyrirkomulagi fjármögnunar almennra húsnæðislána. Í því efni verður tekið mið af tillögum verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, nýrri veðlánatilskipun ESB og gögnum um rekstrarforsendur nýrra húsnæðislánafélaga og stöðu Íbúðalánasjóðs. 


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum