Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á ráðstefnu um vöxt í bláa lífhagkerfinu
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sótti ráðstefnuna Vöxtur í bláa lífhagkerfinu, sem haldin var í Færeyjum 2.-3. júní. Ráðstefnan var liður í formennsku-áætlun Dana, og þar með Færeyinga, í norrænu ráðherranefndinni, árið 2015. Skipulagið var í höndum Nordisk Marin Tænketank, sem er sjálfstæð norræn hugveita um sjávarútvegsmál.
Fleiri tækifæri til sóknar og verðmætasköpunar við verndun og nýtingu lífrænna auðlinda á Norðurlöndum var meginþema ráðstefnunnar. Hana sóttu meðal annars Karl-Kristian Kruse, sjávarútvegsráðherra Grænlands og Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja. Þá var sjávarútvegsráðherra Seychelle-eyja, Wallace Cosgrow, einnig á ráðstefnunni og átti hann samræður við Sigurð Inga um möguleika á samstarfi ríkjanna á sviði lífhagkerfisins.
Í umræðum í lok ráðstefnunnar fjallaði Sigurður Ingi um formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni, Nordbio, sem hófst árið 2014 og lýkur 2016. Þá greindi hann frá reynslu Íslendinga af nýtingu aukahráefna við vinnslu sjávarfangs og almennt þeirri þróun sem átt hefur sér stað til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum.