Hoppa yfir valmynd
8. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áframhaldandi upplýsingafundir að því er varðar losun gjaldeyrishafta (Kaupþing)

Ensk útgáfa er upprunaleg útgáfa.

Í dag tilkynnti fjármálaráðuneytið að haldið hafi verið áfram með upplýsingafundi með aðilum sem verða fyrir áhrifum gjaldeyrishaftanna á Íslandi um tillögur sem stjórnvöld eru að íhuga um losun þeirra hafta.

Meðlimir framkvæmdahóps Íslands um losun gjaldeyrishafta (stofnaður af fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands árið 2014) og ráðgjafar þeirra hafa haldið röð upplýsingafunda undanfarna tvo mánuði, m.a. með fulltrúum lítils hóps fjárfesta sem eiga verulegar kröfur í bú þriggja stóru íslensku bankanna sem urðu greiðsluþrota árið 2008, Kaupþing hf., Glitnir hf. og Landsbanki Íslands hf. Framkvæmdahópurinn heyrir undir stýrinefndina um afnám gjaldeyrishafta, sem skipuð er fjármálaráherra, seðlabankastjóra og fulltrúum forsætisráðuneytisins.

Á þessum fundum með kröfuhöfum slitabúanna ræddi framkvæmdahópurinn fyrstu tillögur sínar til stýrinefndarinnar um það hvernig gjaldeyrishöftin – að svo miklu leyti sem þau hafa áhrif á slitabú þriggja stóru föllnu bankanna – gætu verið afnumin. Framkvæmdahópurinn útskýrði að innlendar eignir búanna (að mestu í íslenskum krónum) ógnuðu greiðslujöfnuði Íslands. Framkvæmdahópurinn greindi frá því að hann íhugaði að leggja það til að allar eignir slitabúanna þriggja gætu, í kjölfar nauðasamninga sem staðfestir væru af íslenskum dómstólum, verið greiddar út til kröfuhafa í slitameðferðunum í kjölfar greiðslu hvers bús á stöðugleikaskatti, sem innheimtur skyldi einu sinni. Fyrstu ráðleggingar framkvæmdahópsins höfðu að geyma greiningu fyrirhugaðra lagabreytinga með það í huga að greiða fyrir gerð nauðungasamninga fyrir búin. Samkvæmt frumgreiningu framkvæmdahópsins þyrfti að setja 37% stöðugleikaskatt á heildareignir hvers bús (eins og þær voru metnar við lok júní 2015) til að ná fram því markmiði að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafaði, með frádrætti frá heildareignum fyrir 45 milljarða íslenskra króna fyrir hvert bú, sem myndi færa virka skattprósentu í 35%. Tillagan sem var til skoðunar hjá framkvæmdahópnum myndi einnig gera búunum kleift að nota hluta eigna sinna í langtíma fjárfestingar á Íslandi. Slíkar fjárfestingar gætu lækkað skattstofn bús og lækkað þannig raun-skattprósentu stöðugleikaskattsins eins og hann yrði lagður á búið. Þegar skatturinn hefði verið greiddur gætu búin greiðlega ráðstafað eignunum sínum og greitt þær út, og hægt væri að greiða stöðugleikaskattinn í hvaða gjaldeyri sem búið kysi, þ.m.t. íslenskum krónum.

Í kjölfar þessa funda hefur fjármálaráðuneytið haldið áfram að móta frumvarp um stöðugleikaskatt, þ.m.t. að því er varðar skattprósentuna, undanþáguskilyrðin og heimildir til langtímafjárfestinga. Fjármálaráðuneytið reiknar með að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í dag.

Stýrinefndin hefur líka sjálfstætt skoðað ramma (stöðugleikaskilyrði), sem framkvæmdahópurinn hefur þróað, til að greina og takast á við afleiðingar innlendra eigna í eigu búa þriggja stóru föllnu bankanna á greiðslujöfnuð.

Framkvæmdahópurinn hefur einnig tekið við tillögum frá kröfuhöfum sem sótt hafa þessa fundi um valfrjálsar ráðstafanir að þeirra frumkvæði sem gerðar eru með það í huga að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafar vegna innlendra eigna í búunum. Í þessum tillögum er íhugað að bregðast við þeirri ógn bæði með greiðslu stöðugleikaframlags ásamt öðrum ráðstöfunum sem ætlað er draga úr útflæði króna sem hafa verið fastar í gjaldeyrishöftum og efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands.

Kaupþing

Einkum, að því er varðar Kaupþing, voru haldnir upplýsingafundir milli (i) hóps eigenda krafna í bú Kaupþings sem sæta höftum og ráðgjafa þeirra og (ii) meðlima framkvæmdahópsins og ráðgjafa Íslands.

Hinn [7]. júní 2015, og í ljósi þessa upplýsingafunda, sendi Akin Gump LLP, fyrir hönd kröfuhafa í slitabú Kaupþings, fjármálaráðherra (sem formanns stýrinefndarinnar) tillögu sem byggði á samræðum þeirra við framkvæmdahópinn og ráðgjafa Íslands um eftirfarandi atriði:

 • Kröfuhafar í slitabú Kaupþings myndu beita sér fyrir því að slitabúið leggi til stöðugleikaframlag til íslenskra stjórnvalda sem myndi felast í:
  • útgáfu og afhendingu veðtryggðs skuldabréfs í íslenskum krónum að fjárhæð 84 milljarða króna að nafnvirði, sem myndi lækka árlega í samræmi við raunveruleg útgjöld (að undanskildum hvers konar hvatakerfum) Kaupþings árin 2015, 2016 og 2017 í íslenskum krónum, sem greidd væru innlendum íslenskum aðilum (þ.m.t. allar minniháttar greiðslur í íslenskum krónum til innlendra kröfuhafa í tengslum við nauðasamninginn) en samanlögð heildarfjárhæð allra slíkra lækkana yrði hámörkuð við 5 milljarða íslenskra króna,
  • framsal eigna, réttinda og krafna búsins á hendur tilteknum innlendum íslenskum gagnaðilum (þ.m.t. öðrum íslenskum slitabúum) að nafnverði u.þ.b.  114,8 milljarða íslenskra króna (hér eftir nefnd „framseld réttindi“) og
  • framsal allra fjárhæða í íslenskum krónum sem Kaupþing myndi endurheimta að því er varðar ágreiningskröfur á hendur innlendum aðilum og allar kröfur á hendur innlendum aðilum sem að öðrum kosti teljast til þeirra framseldu réttinda sem nefnd eru að ofan, en ekki var hægt að framselja með beinum hætti (þessi fjárhæð væri til greiðslu að frádregnum öllum fjárhæðum í íslenskum krónum sem Kaupþing greiddi innlendum aðilum í tengslum við kröfur á hendur Kaupþingi).
 • Skilmálar veðtryggða skuldabréfsins myndu verða eftirfarandi:
  • skal greiðast með tveimur jöfnum afborgunum annars vegar á þeim degi þegar liðin eru tvö ár og hins vegar á þeim degi þegar liðin eru þrjú ár frá útgáfu þess,  
  • 5.5% vextir og
  • það skal tryggt með veði í skuldabréfum gefnum út í evrum til meðallangs tíma, svokölluðum EMTN-skuldabréfum sem mögulega Arion banki hf. gefur út til Kaupþings (verðmæti veðsins verður ekki lægra en sem nemur 115% af útistandandi höfuðstól veðtryggða skuldabréfsins).
 • Lengt væri í gjaldeyrisskuldum búsins gagnvart Arionbanka (u.þ.b. 43,8 milljarðar íslenskra króna) með skuldabréfum gefnum út samkvæmt EMTN-skuldabréfaramma Arionbanka á markaðsskilmálum til a.m.k. 7 ára.   
 • Búið myndi kaupa á nafnverði fyrirgreiðslu í erlendum gjaldeyri sem Seðlabanki Íslands veitti Arionbanka (55,1 milljarður króna) og myndi bjóðast til að lengja í fjármögnuninni með skuldabréfum gefnum út samkvæmt EMTN-skuldabréfaramma Arionbanka á markaðsskilmálum til a.m.k. 7 ára.     
 • Búið mun skipta öllu söluvirði, sem fæst í 87% hluta Kaupþings í Arionbanka við sölu eða ráðstöfun Arionbanka (og/eða Kaupskil, móðurfélagi Arionbanka), sem er umfram 100 milljarða íslenskra króna, milli Seðlabanka Íslands, eða öðrum aðila sem Seðlabanki Íslands kann að tilgreina, á grundvelli heildarhagnaðar, eins og hér segir:
  • 100 ma. kr. – 140,00 ma. kr. : 33 1/3 /  66 2/3,
  • 140,01 ma. kr. – 160,00 ma. kr. : 50 / 50, og
  • meira en 160 ma. kr. : 75 / 25,

     í hverju tilviki væri fyrsti þátturinn til greiðslu til Seðlabanka Íslands, eða annars aðila
     sem hann tilgreinir, og annar þátturinn til greiðslu til Kaupþings.

 • Útgreiðslur til kröfuhafa myndu svo eiga sér greiðlega stað eftir að veðtryggða skuldabréfið hefur verið gefið út, viðkomandi veð hefur verið veitt, framseldu réttindin hafa verið yfirfærð, og undanþágur Seðlabanka Íslands veittar.
 • Kröfuhafar í slitabúi Kaupþings myndu útvega afsöl hvers konar krafna (hvort sem slíkar kröfur eru fyrir hendi eða ekki), þ.m.t. Seðlabanka Íslands og Íslandi.
 • Í tillögum kröfuhafa Kaupþings er áskilið af hálfu kröfuhafa sem myndu aðlaga fyrirhugað stöðugleikaframlag slitabús Kaupþings þannig að skilmálar þessir yrðu ekki síðri fyrir kröfuhafa í slitabú Kaupþings en skilmálar annarra sambærilegra undanþága sem veittar hafa verið slitabúi Glitnis (metið miðað við stærð stöðugleikaframlags Kaupþings sem hlutfall af heildareignum búsins í samanburði við sambærilegt hlutfall fyrir Glitni).

Framkvæmdahópurinn hefur staðfest að tillögur kröfuhafa Kaupþings séu í samræmi við rammann sem studdur er af stýrinefndinni og leggur til að veitt verði undanþága á grundvelli tillagna kröfuhafa í slitabú Kaupþings. Ef Seðlabanki Íslands veitir undanþágu frá gjaldeyrishöftunum á grundvelli tilagna kröfuhafa í slitabú Kaupþings, skulu þær eignir sem eftir eru í slitabúi Kaupþings ekki lengur sæta gjaldeyrishöftum og skulu tiltækar til útgreiðslu til kröfuhafa í slitabúið í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í íslenskum lögum. Eignir búsins skulu í framhaldinu ekki sæta gjaldeyrishöftum á Íslandi og þá hvorki búið eða kröfuhafar þess greiða stöðugleikaskatt í neinni mynd eða sambærilega skatta eða gjöld.

Upplýsingafundir framkvæmdahópsins við aðila sem verða fyrir áhrifum fyrirhugaðrar afléttingar gjaldeyrishaftanna á sér enn stað.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira