Hoppa yfir valmynd
9. júní 2015 Matvælaráðuneytið

Skýrsla Hagfræðistofnunar "Mjólkurvöruframleiðsla á Íslandi – staða og horfur"

Kýr
Kýr

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leitaði til Hagfræðistofnunar sumarið 2014 varðandi úttekt á mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi, stöðu og horfum. Afrakstur þeirrar vinnu sem hófst í kjölfarið má finna í meðfylgjandi skýrslu. 

Í skýrslunni er m.a. farið yfir markmið búvörulaga og gerð er grein fyrir þeim meginstoðum sem stuðningskerfi mjólkurframleiðslunnar byggist á. Ítarlegur kafli er um verðlagningu mjólkur, bæði til bænda og í heildsölu. Þá er fjallað um fyrirtæki í mjólkuriðnaði, afkomu kúabúa og samanburður við önnur lönd. Einnig er að finna í skýrslunni fræðilega umfjöllun um innflutningshömlur, áhrif verðbreytinga á eftirspurn og þjóðhagslegan kostnað stuðnings við mjólkurframleiðslu. Að síðustu er fjallað um áhrif landbúnaðarkerfis, m.a. á byggð og hvaða breytingar ætti að gera við endurskoðun á stuðningsfyrirkomulagi í nýjum mjólkursamningi.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni:

  • Lágmarksverð mjólkur til bænda hefur hækkað miðað við almennt neysluverð síðan 2003. Heildsöluverð mjólkurvara hefur lækkað á sama tíma miðað við almennt neysluverð. Þá er smásöluverð mjólkurvara lægra árið 2013 en 2003 miðað við verð á almennum neysluvörum. Með öðrum orðum hækkuðu mjólkurafurðir minna í verði en aðrar neysluvörur frá 2003 til 2013.
  • Þegar þróun verðs á einstökum mjólkurafurðum er borin saman við verð á einstökum tegundum annarrar matvöru kemur í ljós að um 70% af öðrum matvörum, sem til skoðunar eru, hækkuðu meira í verði en mjólkurafurðir.
  • Á árunum 1986 til 1988 var opinber stuðningur við íslenska bændur 5% af landsframleiðslu, að mati OECD, en hlutfallið var liðlega 1% árið 2013. Árin 1986 til 1988 var íslensk mjólk á bændaverði 9 sinnum dýrari en innflutt mjólk hefði verið, að dómi OECD, en 2011-2013 var hún að jafnaði um 30% dýrari.
  • Árin 2011-2013 kostaði mjólk á bændaverði neytendur og íslenska ríkið 15½ milljarð króna á ári að jafnaði, en innflutt mjólk hefði kostað tæplega 7½ milljarð króna, með flutningskostnaði. Stuðningur ríkis og neytenda við framleiðsluna var með öðrum orðum um 8 milljarðar króna á ári.
  • Í lokakafla skýrslunnar eru gerðar tillögur um breytingar á opinberum stuðningi við mjólkurframleiðslu. Lagt er til að tollar verði lækkaðir, svo að framleiðsla grannlandanna verði samkeppnisfær við íslenskar mjólkurafurðir hér á landi. Í framhaldi af því má leggja af opinbert heildsöluverð á mjólkurvörum. Lagt er til að undanþágur mjólkurvinnslufyrirtækja frá samkeppnislögum verði felldar úr gildi. Í stað greiðslna úr ríkissjóði fyrir mjólkurframleiðslu innan greiðslumarks (framleiðslukvóta) komi annað hvort styrkir sem miðaðir verði við fjölda nautgripa og heyfeng, að ákveðnu marki, eða hreinir búsetustyrkir. Lagt er til að greiðslumark (framleiðslukvóti) verði aflagt.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum