Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Víðtækt samstarf gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði í dag stýrihóp sem tryggja mun víðtækt samstarf á málefnasviðum þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Markmiðið er að auka fræðslu og forvarnarstarf, bæta samvinnu og verklag og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.

Stýrihópurinn er skipaður á grundvelli samstarfsyfirlýsingar félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra frá 18. desember síðastliðnum um þessi efni. Efnt verður til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds til að efla aðgerðir gegn ofbeldi.

Samstarfið mun beinast að aðgerðum til að sporna við ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Samstarfið tekur einnig til ofbeldis sem felst í hatursfullri orðræðu sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa.

Bætt verklag og aukinn stuðningur við þolendur ofbeldis

Markvisst verður unnið að því að bæta verklag þar sem þess gerist þörf, auka forvarnir og fræðslu, annars vegar gagnvart almenningi og börnum og hins vegar gagnvart þeim sem í störfum sínum geta á einhvern hátt komið að málum sem tengjast ofbeldi, hvort sem er innan menntakerfisins, velferðarkerfisins eða réttarvörslukerfisins. Rík áhersla er lögð á stuðning við þolendur ofbeldis og vernd þeirra en jafnframt er í yfirlýsingunni getið um nauðsyn þess að aðstoða gerendur ofbeldis við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo draga megi úr ofbeldi í samfélaginu.

Áhersla verður lögð á að styrkja samstarf lögreglu, mennta- og barnaverndaryfirvalda og félagsþjónustu við rannsóknamál, aðstoða gerendur ofbeldis við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo draga megi úr ofbeldi í samfélaginu.

Svæðisbundið samráð

Komið verður á fót svæðisbundnu samráði sem meðal annars er ætlað að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála með sérstakri áherslu á ofbeldi gegn börnum og fötluðu fólki. Að samstarfinu komi félagsþjónusta, skólastjórnendur, sérfræðiþjónusta sveitarfélaga, barnaverndaryfirvöld, lögreglustjórar og eftir atvikum réttindagæslumenn fatlaðs fólks.

Aðgerðaáætlun til fjögurra ára

Eins og fram kemur í skipunarbréfi stýrihópsins er honum með öðrum verkefnum falið að undirbúa aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Velferðarráðuneytið leiðir starf stýrihópsins og er formaður hans Ingibjörg Broddadóttir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum